D vítamín nýtist okkur ekki án magnesíums

Ég veit, ég er alltaf að tala um magnesíum!

Það vita örugglega allir orðið að við þurfum D vítamín til þess að nýta kalk.

Vissir þú að við þurfum magnesíum til að nýta D vítamín?

Kjarni málsins er að ekkert næringarefni virkar eitt og sér. Þetta er alltaf samspil, samverkandi áhrif vítamína, steinefna, ensíma, kó-ensíma o.s.frv. Við þurfum D vítamín til að nýta kalk, magnesíum til að nýta D vítamín og K vítamín til að koma kalkinu á rétta staði svo dæmi sé tekið. Svo tökum við betur upp magnesíum ef við fáum nóg D vítamín. Þetta er ekki einfalt enda líkaminn flókið og magnað fyrirbæri.

Næringarefni eru aldrei einangruð í náttúrunni. Matur, alvöru matur, inniheldur alltaf breidd næringarefna sem spila saman að upptöku og nýtingu. Þess vegna er svo galið að taka stök næringarefni án þess að spá í það hvað þarf að gerast og vera til staðar til að við náum að nýta það og komumst hjá því að skapa eitthvað ójafnvægi.

D vítamínið sem við tökum inn er í raun óvirkt þangað til líkaminn er búinn að umbreyta því í virka formið. Lifrin og nýrun sjá um það ferli og viljiði giska á hvað er ómissandi til að þetta geti gerst?

Magnesíum! Virkjun D vítamíns er magnesíum háð ferli.

Eins og ég hef áður talað um þá hafa rannsóknir sýnt að magnesíum inntaka er almennt miklu lægri en hún var áður fyrr og mun lægri en hún ætti að vera. Við erum flest ekki að fá nóg úr fæðunni.

Bæði hefur mataræðið breyst mikið með tilkomu unninnar matvöru sem er oft mjög næringarsnauð auk þess sem matvæli innihalda mögulega ekki sama magn næringarefna og þau gerðu áður vegna þess að jarðvegurinn er ekki eins næringarríkur.

Magnesíum finnst í alls konar mat, mest í plöntufæði. Allt grænt grænmeti, hnetur, baunir, heilkorn, fræ og ýmsir ávextir eru dæmi um magnesíumríka fæðu. Ætli við getum ekki flest viðurkennt að við mættum alvega borða meira grænmeti?

Magnesíum bætiefni er eitthvað sem er alveg þess virði að skoða. Það er eitthvað sem ég tek að staðaldri og eitt af fáu sem ég finn alltaf mikinn mun af.

Eitt er víst að við þurfum magnesíum og töluvert af því.

 

Heimild:

Uwitonze A.M & Razzaque M.S. Role of magnesium in Vitamin D activation and function. The journal of the American osteopathic association, 2018;118(3):181-189.