Veistu hvaða næringarefni þig gæti vantað?

Ég þurfti aðeins að taka til í mataræðinu um daginn. Eins og gerist og gengur, líka hjá næringarnördum eins og mér.

Ég ákvað að fá mér app til að skrá niður allt sem ég borðaði til að fá betri yfirsýn. Var ég að fá nóg af öllu? Var of mikið af einhverju. Það var langt síðan ég hafði haldið ítarlega matardagbók síðast og ég mæli eindregið með að þið prófið það. Það lætur mann hugsa betur um hvað er verið að borða og veitir ákveðið aðhald.

Ég vildi app sem sýndi mér ekki bara hversu mikið af kolvetnum, fitu og prótíni ég væri að fá heldur hafði ég mun meiri áhuga á að sjá hversu mikið ég væri að fá af vítamínum, steinefnum og öðrum nauðsynlegum næringarefum úr mataræðinu.

Cronometer varð fyrir valinu enda þekki ég það ágætlega. Það er einfalt og skýrt og gerir nákvæmlega það sem ég vil að það geri.

Ég taldi mig fyrirfram í nokkuð góðum málum. Borða almennt hollt og fjölbreytt, mikið grænmeti. Ég tók þó fljótlega eftir því að dag eftir dag var ég töluvert langt undir lágmarkinu með kólín (choline).

Ég verð að viðurkenna að ég hafði pínu gleymt kólíni. Jú ég veit að það er mikilvægt næringarefni, við búum til úr því mjög mikilvægt taugaboðefni sem heitir acetylkólín, það finnst í hverri einustu frumu sem afleiðan phosphatidylkólin og er nauðsynlegt fyrir eðlilega starfssemi taugakerfisins og ýmsa aðra líkamsstarfssemi.

Það finnst í ýmsum mat, einkum eggjum, feitum mjólkurvörum og innmat. Ég borða ekkert af þessu reglulega. Egg kannski 1-2x í viku, mjólkurvörur forðast ég að mestu vegna þess að ég þoli þær illa og innmat….fæ kannski slátur hjá mömmu einu sinni á ári!

Þá fór ég að hugsa og lesa og rannsaka. Kólín finnst í mestu magni í dýraafurðum. Það er frekar erfitt að fá nóg úr grænmetisfæði þó það finnist víða í jurtaríkinu í litlu mæli. Það gerir kólín að næringarefni sem fólk sem er grænmetisætur og enn frekar fólk sem er vegan þarf að passa uppá alveg eins og B12 og járn.

Daglega þarf fullorðinn einstaklingur á milli 400 og 500 mg af kólíni. Barnshafandi og með barn á brjósti aðeins meira. Það er nefnilega mjög mikilvægt fyrir heila og taugakerfi lítilla kríla alveig eins og okkar.

Meira að segja á þeim dögum sem ég borðaði egg náði ég ekki að uppfylla kólínþörfina.

Ég leysti þetta með því að kaupa mér lesitínkorn sem eru auðug af kólíni. Skelli þeim bara í þeytinginn eða út í morgungrautinn.

Mig langar að hvetja ykkur eindregið til að rýna betur í mataræðið ykkar. Notast við tól á borð við Cronometer sem er hægt að hlaða frítt niður í símann. Skoðið hvort eitthvað gæti mögulega vantað inn og metið út frá því hvort það sé mögulega þörf á einhverju bætiefni eða hvaða mat þið gætuð bætt inn til að fá meira af ákveðnum næringarefnum.

Ef þið takið bætiefni eins og B complex eða notið næringarger eruð þið sennilega að fá eitthvað kólin en mögulega ekki nóg. Skoðið bara innihaldslýsinguna og kíkið á magnið. Kólín finnst svo í litlu magni í ýmsum mat t.d. í grænmeti eins og sveppum, tómötum og blómkáli. Einnig má finna kólin í t.d. möndlum, linsubaunum og hörfræjum.

 

Svo er agalega sniðugt að ræða við heimilislækninn sinn og láta tékka reglulega á t.d. B12, D vítamíni og járni.