Þarf mér að finnast ég falleg til að elska sjálfa mig?

Ég hef mikið spáð í þetta og vona að ég nái að koma þessum vangaveltum rétt frá mér.

Áður en ég byrja vil ég taka það fram að ég er ekkert nema fylgjandi jákvæðri líkamsímynd. Mér finnst frábært að fólk sé að kasta fegurðar „normum“ út um gluggann og elska líkama sinn eins og hann er.

En.

Hvað ef við erum einfaldlega að eyða allt of mikilli orku í að safna upp kjarki eða sjálfstrausti til að elska líkama okkar nógu mikið til að þora að pósta bikiní mynd á instagram?

Mér finnst umræðan um jákvæða líkamsímynd nefnilega mjög oft snúast uppí það að þurfa að finnast líkaminn sinn ofsalega fallegur. En hvað er fallegt? Af hverju þarf mér alltaf að finnast ég falleg?

Af hverju skiptir „fegurð“ svona miklu máli?

Ég hef sjálf haft hina ýmsu komplexa yfir útlitinu eins og flestir. Á unglingsaldri langaði mig voða mikið að vera „sæta“ og mjóa stelpan. Málaði mig hrikalega mikið, fannst ég aldrei nógu mjó, of lágvaxin, með bólur og oft bara ljót.

Með árunum hefur komplexunum fækkað. Mér er meira umhugað um það hvað líkaminn minn getur gert frekar en hvernig hann lítur út. Ég hreyfi mig ekki lengur til að verða mjó heldur til að líða vel og búa líkamann undir þá löngu og heilbrigðu ævi sem ég stefni á að eiga.

Þegar ég rakst á orðið „body neutrality“ tengdi ég svo sterkt. Líkams-hlutleysi gæti þetta kannski kallast á íslensku. Minn raunveruleiki er nefnilega svona:

  • 90 % af tímanum er ég mjög hlutlaus gagnvart líkama mínum. Hann bara ER og getur gert alls konar, hefur ræktað heilt barn og þjónar mér bara ansi vel. Ég er ekkert að spá í hvort hann sé ljótur eða fallegur. Hérna finnst mér best að vera. Alveg sama hvað öðrum finnst og bara þakklát fyrir að eiga heilbrigðan líkama.
  • 5% af tímanum finnst mér ég bara rosa sæt og velti mér pínu uppúr því.
  • 5% af tímanum finnst mér ég ljót og feit og velti mér pínu uppúr því.

Mér finnst þetta voða góður staður að vera á. Mjög eðlilegt að þetta sveiflist aðeins. Það reyndar tengist oft hormónaflæðinu hjá okkur konum og hvar við erum í tíðahringnum. Algengt að finnast maður rosa sætur í kringum egglos t.d. Prófið að taka eftir þessu hjá ykkur 😊

Ég held því miður að hjá mörgum séu hlutföllin allt önnur. Sífelld angist yfir að vera ekki nógu þetta eða hitt. Kapphlaup við að líta alltaf út eins og klippt út úr tískublaði.

Ég held að við þurfum að eyða tímanum í eitthvað annað. Eins og að minnka sóun og bjarga heiminum frá hlýnun jarðar. Rækta samböndin okkar. Njóta. Bara hugmynd.