Af hverju D vítamín?

Af hverju er inntaka D vítamíns sérstaklega mikilvæg á norðurhveli jarðar?

Þú hefur kannski heyrt á það minnst að þú þurfir að huga sérstaklega að því að taka inn D vítamín af því að þú búir á Íslandi. Veistu af hverju?
Byrjum á byrjuninni. D vítamín verður til í húðinni þegar sól skín á hana en það er ekki alveg eins einfalt og það hljómar.

Því fjær miðbaug sem við erum staðsett, því erfiðara er að framleiða D vítamín úr sólarljósi.

Ástæðan er sú að því hærra sem sólin er á lofti miðað við okkar staðsetningu því meira D vítamín getum við nýtt úr henni. Þegar sólin er lágt á lofti nær andrúmsloftið að loka á megin hluta UVB geislanna sem húðin notar til að búa til D vítamín. Þetta þýðir að Ísland er mjög óheppilegur staður hvað þetta varðar. Stóran hluta ársins eigum við varla séns sem er ástæða þess að nú er öllum ráðlagt að taka inn D vítamín.

Sólarvörn hindar framleiðslu D vítamíns
Sólarvörn lokar á UVB geislana og hindrar þannig framleiðslu D vítamíns í húðinni. Því er ekki hægt að treysta á það að fá nóg úr sólinni þegar þú notar sólarvörn. Auðvitað er sólarvörn oft nauðsynleg til að koma í veg fyrir bruna svo aðeins er ráðlegt að vera stuttan tíma óvarinn úti í mikilli sól.

D vítamín allt árið

D vítamín er hverri frumu nauðsynlegt og hefur m.a. áhrif á beinheilsu, geðheilsu, ónæmiskerfið og heilsu hjarta og æðakerfis.
Í dag er flestum ráðlagt að taka inn D vítamin bætiefni allt árið. Gott er að láta mæla gildin en þeim sem eru heilbrigðir og eru ekki með skort ættu að duga um 2000 AE daglega til viðhalds. Þeir sem eru í skorti geta þó þurft mun hærri skammta til að ná gildunum upp.

Ekki gleyma D vítamíninu!