D vítamín

D-vítamín er stundum kallað sólarvítamín vegna þess að húðin framleiðir það þegar hún verður fyrir áhrifum útfjólublárra geisla sólarljóss. Auk þess fáum við D-vítamín úr fæðunni. D-vítamín er fituleysanlegt þ.e. líkaminn geymir umframmagn af D-vítamíni í lifrinni til betri tíma. D-vítamín er nauðsynlegt til að skjaldkirtill og fleiri kirtlar starfi eðlilega. Það hindrar tannskemmdir og tannrótarbólgur auk þess að koma í veg fyrir beinkröm. Þar sem það gegnir lykilhlutverki í viðhaldi beina, með því að stuðla að upptöku kalks, fosfórs og annarra steinefna verður æ algengara að bætt sé D-vítamíni í kalktöflur. Rannsóknir á beinþéttni hjá eldri borgurum leiða ítrekað í ljós nauðsyn þess að þeir taki inn D-vítamín til að koma í veg fyrir beinþynningu. Fólk á norðlægum slóðum þarfnast aukins D-vítamíns á veturna vegna þess hve stutt dagsbirtu nýtur þá við.

D-vítamín er að finna í feitum fiski eins og laxi, síld og lúðu. Mest er þó af því í þorskalifur, enda er unnið úr henni lýsi sem er auðugt af D-vítamíni. Einnig er nokkuð af D-vítamíni í fræspírum, sveppum, sólblómafræjum, mjólkurafurðum sem er farið að d-vítamín bæta vegna skortseinkenna sem var farið að bera á hér á landi og eggjum en nánast eingöngu ef það hænurnar eru lausar úti við.

Hjá börnum er helsta einkenni D-vítamínskorts beinkröm, tannskemmdir og kyrkingslegur vöxtur. Einkenni hjá fullorðnum eru m.a. lystarleysi, þróttleysi, vöðvaslappleiki, önuglyndi, ótímabær öldrun og beinþynning. Þegar skorturinn er kominn á alvarlegt stig verða beinin mjúk og aflagast. Skortur á D-vítamíni er talinn gera karla veikari fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli og ristli en konur veikari fyrir brjóstakrabbameini. Á Heimasíðu landlæknis þá má sjá þessar viðmiðunarráðleggingar.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.