Hvaða bætiefni tekur þú?

Hvaða bætiefni tekur þú?
Þetta er spurning sem ég fæ mjög oft. Svarið er ekki alltaf það sama því það er fátt sem ég tek að staðaldri og stundum tek ég engin bætiefni í einhvern tíma. Mismunandi tímabil kalla á mismunandi þarfir og ég legg áherslu á að valið er alltaf einstaklingsbundið og það er ekkert eitt sem hentar öllum nema kannski D vítamín sem allir sem búa á Íslandi ættu að taka að staðaldri.

Það sem ég nota oftast:

  • D vítamín tek ég allan ársins hring. Ég gleymi því samt stundum dögum saman en tek þá bara aðeins meira þegar ég man eftir því. Ég nota yfirleitt D vítamín í hylkjum eða dropum.
  • Magnesíum! Ég nota oftast magnesíum sítrat og finnst gott að taka það á kvöldin. Mér finnst ég finna þegar mig vantar magnesíum og þegar ég hef gleymt eða sleppt því í nokkra daga finnst mér líkaminn kalla á það. Ég sef betur, fæ minni harðsperrur eftir æfingar og finn minna fyrir stressi og kvíða þegar ég tek það.
  • Omega fitusýrur. Gleymi þessu alltof oft en reyni að hafa það fyrir vana að fá mér bæði fiskiolíu og skeið af 3-6-7-9 blöndunni frá Terranova á hverjum degi. Stundum kaupi ég hylki, svona þegar ég fæ ógeð af olíunni en olían er betri kostur.

Annað sem ég er að taka núna en nota ekki að staðaldri:

  • Fjölvítamín frá Terranova. Smá baktrygging svo ég fái sem flest næringarefni.
  • GSE dropa. Til að reyna að verjast þessum endalausu pestum sem ganga á þessum árstíma.
  • C vítamín með bíoflavoníðum frá Solaray. Smá auka andoxunarefni og frekari tilraunir til að verjast pestum. Þegar ég var yngri fékk ég rosalega mikið af marblettum, var alltaf með tugi marbletta á fótleggjunum án þess að hafa lent í neinu hnjaski. Mér var bent á að C vítamín gæti lagað þetta. Ég prófaði og viti menn, ég hætti að fá marbletti í tíma og ótíma. Þetta er svosem rökrétt þar sem C vítamín styrkir háræðarnar og kemur þar með í veg fyrir að þær rofni auðveldlega og valdi mari. Síðan hef ég alltaf tekið inn C vítamín reglulega og passað að borða nóg af C vítamínríkri fæðu.

Annað sem ég nota reglulega:

  • Góðgerla tek ég inn reglulega því ég á sögu um meltingarvesen og finnst þeir hjálpa.
  • Meltingarensím á ég alltaf til og tek þau með þegar ég fer út að borða, í matarboð eða með þungum máltíðum sem ég veit að ég gæti átt erfitt með.

Auðvitað hef ég tekið inn alls konar bætiefni en þetta eru þau algengustu. Ég finn ekki oft greinilegan mun á mér við inntöku bætiefna en magnesíum, góðgerlar, C vítamín og Omega fitusýrur eru eitthvað sem ég finn greinilegan mun af.