Mjólkuróþol

Í mjólk eru bæði prótein og kolvetni. Kolvetnin í mjólkinni eru á formi laktósa (mjólkursykurs) en það er tvísykra sem samanstendur úr glúkósa og galaktósa. Líkaminn getur aðeins nýtt laktósann þegar búið er að kljúfa hann upp í þessar tvær einingar. Ákveðið ensím í líkamanum, laktasi, sér um þetta fyrsta skref í meltingunni á mjólkursykri. Sumt fólk vantar þetta ensím eða hefur of lítið af því í líkamanum og getur þá aðeins borðað takmarkað magn af mjólkurvörum eða jafnvel þurft að sneiða algjörlega hjá þeim. Er þá talað um að viðkomandi sé með mjólkuróþol.

Hvernig myndast mjólkuróþol?

Laktósa er að finna í móðurmjólkinni sem og í kúa-, geita-, kinda- og kaplamjólk. Vörur sem framleiddar eru úr mjólk geta því innihaldið laktósa. Ensímið laktasi verður til í þörmum og við fæðingu hafa ungbörn yfirdrifið nóg af þessu ensími til að geta melt móðurmjólkina. Hjá meira en 80% af fólki í heiminum minnkar framleiðslan á laktasa til muna eftir 3ja ára aldur. Ekki er því óeðlilegt að fólk finni fyrir mjólkuróþoli með aldrinum þó það hái ekki öllum. Mismunandi er meðal þjóða í heiminum hversu algengt mjólkuróþol er. Þannig skortir nánast alla innfædda Asíubúa þetta ensím, um 50% Miðjarðarhafsbúa en mun færri í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku.1

Einkenni

Þar sem líkaminn getur ekki nýtt ómeltann laktósa, leiðir skortur á laktasa til ýmissa óþæginda, t.d mikillar loftmyndunar, magaverkja og niðurgangs. Það er þó misjafnt eftir einstaklingum hversu mikinn (eða lítinn) laktósa þeir þola og er alls ekki víst að nauðsynlegt sé að sleppa öllum mjólkurvörum. Ekki er ráðlegt að gefa börnum yngri en 6 mánaða kúamjólk og telja margir að best sé að bíða til eins árs aldurs. Þetta tengist þó líklega meira ótta fyrir hugsanlegu mjólkurofnæmi en mjólkuróþoli.

Orsakir

Mjólkuróþol er yfirleitt arfgengt en sýking í þörmum, þarmabólgur eða aðgerð á þörmunum geta líka truflað framleiðslu á laktasa. Sú truflun er þó oftast tímabundin og ætti laktasaframleiðslan að komast í réttar skorður þegar þarmarnir eru búnir að jafna sig. Einnig getur niðurgangur, hvort sem er hjá fullorðnum eða börnum, raskað framleiðslu ensímsins og myndað tímabundið mjólkuróþol. Það hverfur yfirleitt þegar meltingarkerfið er komið í samt lag aftur.

Staðfesting

Þar sem óþægindin sem fylgja því að vera með mjólkuróþol líkjast einnig óþægindum margra annarra kvilla er ráðlegt að fá staðfestingu á því hvort um mjólkuróþol sé að ræða. Það má t.d. gera með því að sneiða hjá öllum mjólkurvörum í 2 vikur og byrja svo aftur að neyta þeirra. Best er þá að byrja á því að fá sér brauðost (t.d. Gouda) því það er ekki laktósi í venjulegum, hörðum ostum. Hafi einkennin horfið á þessum tveimur vikum og koma ekki aftur þegar ostsins er neytt eru líkur á að viðkomandi sé með mjólkuróþol. Þetta staðfestist enn frekar ef einkennin koma aftur þegar mjólkur er neytt á ný. Komi óþægindin hins vegar aftur þegar aðeins ostsins er neytt, er líklegt að viðkomandi sé með mjólkurofnæmi en þá þolir líkaminn ekki próteinin í mjólkinni.

Til að fá nánari staðfestingu á því hvort um sé að ræða mjólkuróþol eða mjólkurofnæmi er hægt að fara í svokallað vetnispróf þar sem vetnismagnið í útönduninni er mælt. Það er gert rétt fyrir og svo u.þ.b. þremur tímum eftir neyslu á vissu magni af laktósa. Aukist vetnismagnið í útönduninni á þessum tíma meltist laktósinn ekki sem skyldi. Bakteríurnar í þörmunum gerja ómeltann laktósann og við það myndast m.a. vetnisgas. Það berst svo út í blóðið í gegnum meltingarveginn og á endanum í lungun þar sem því er andað út. Þetta próf er hins vegar ekki nógu nákvæmt fyrir börn innan eins árs og leiki grunur á að barnið sé með mjólkuróþol er betra að prófa sig áfram með mataræðið.

Mataræði

Laktósa er eins og fyrr segir að finna í nánast öllu sem gert er úr mjólk en þó eru undantekningar þar á. Harðir ostar (eins og t.d. Gouda) innihalda engan laktósa og geta því einstaklingar með mjólkuróþol borðað þessa gerð osta. Bakteríurnar sem hleypa ostinn nota laktósann við það ferli og brjóta hann upp í glúkósa og galaktósa og þ.a.l. getur líkaminn melt ostinn. Þetta á einnig við léttost og camembert en ekki aðrar gerðir smurosta né mygluosta. Laktósi er oft notaður í sælgæti, vítamín og lyf sem fylliefni og kemur sjaldan fram á
umbúðum hversu mikið það er. En eins og áður segir geta sumir neytt einhvers laktósa án vandræða og verður fólk því að reyna að finna sér sitt eigið hámark.

Úrvalið af vörum sem koma í staðinn fyrir mjólk hefur aukist til muna á síðustu árum og þurfa þeir sem eru með mjólkuróþol því ekki að örvænta. Sojadrykkir hafa fengist í allmörg ár hér á landi og er hægt að nota þá á sama hátt og mjólk. Þeir fást ýmist með eða án sætuefna og kalks en ef allar mjólkurvörur eru teknar úr fæðunni og lítið af sojavörum neytt í staðinn gæti reynst nauðsynlegt að bæta sér upp kalkmissinn með bætiefnum. Hægt er að nota sojamjólk í bakstur en athugið að ef hana á að nota út í heita drykki þarf að hella henni fyrst í glösin og svo heita vökvanum. Nánast engar vörur í Heilsuhúsinu innihalda mjólk eða mjólkurduft en fólki er að sjálfsögðu ráðlagt að ganga úr skugga um það (eða biðja starfsfólkið um aðstoð við það) þegar
verið er að versla.

Bætiefni

Hægt er að fá ensímið laktasa (á ensku oft kallað Milk Digestant) í töfluformi og það hjálpar til við að brjóta niður visst magn af laktósa. Það getur komið sér vel ef ekki er hægt að sneiða hjá mjólkursykri t.d. við notkun lyfja og þegar farið er í veislur eða matarboð þar sem ekki er auðvelt að forðast mjólkurvörur.

Heimildir:

1. Gudmand-Hoyer E. The clinical significance of disaccharide maldigestion. Am J Clin Nutr 1994;59(3):735S-41S.

2. Mataræði fyrir mjólkuróþol. Bæklingur gefinn út af Næringarfræðifélagi Hollands, Den Haag.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.