Frjókornaofnæmi

Orsakir og einkenni

Frjókornaofnæmi (fko) eru ofnæmisviðbrögð sem m.a. valda nefrennsli, hnerra, tárarennsli, hósta og kláða í augum og gómi. Fko eykst á frjóvgunartíma ákveðinna plantna sem getur verið frá því á vorin og fram á haust. Þeir sem haldnir eru fko geta einnig verið viðkvæmir fyrir myglu og ryki. Það sem gerist er að ónæmiskerfið framkallar öfgafull viðbrögð við ofangreindum ertandi þáttum. Mótefni sem nefnd eru IgE flæða um nasagöng, ákveðin hvít blóðkorn streyma að í milljarðatali og bólguvaldandi efni eins og histamín, prostaglandín og leukótrín losna í miklu magni. Áhrifin af öllu þessu eru kunnugleg óþægindi: þroti, kláði og nef- og tárarennsli.

Ráð

Tenging virðist vera við sumar matvörur og benda rannsóknir og reynsla til þess að korntegundir sem innihalda glúten (hveiti, hafrar, rúgur og bygg) geti tengst þessu ofnæmi. Hefur fko-sjúklingum víða verið ráðlagt með góðum árangri að forðast vörur sem innihalda þessar korntegundir allt að mánuði áður en frjóvgunartíminn hefst og þar til honum líkur. Jonathan Brostoff, prófessor í ofnæmissjúkdómum við King’s College í London, höfundur bókarinnar Hay Fever, The Complete Guide, segir þetta t.d. hafa gefist vel hjá fko-sjúklingum á vesturströnd Bandaríkjanna. Roz Kadir, næringarfræðingur sem fengist hefur við þennan sjúkdóm, segir að glútenkorn geti ofhlaðið ónæmiskerfi viðkvæmra og gert þá móttækilegri fyrir fko. Því skyldu þeir frekar nota korntegundir eins og hrísgrjón, maís, bókhveiti og hirsi. Heppilegar mjölvörur eru t.d. kartöflumjöl, kjúklingabaunamjöl, maísmjöl og annað glútenfrítt mjöl.

Önnur mjög algeng fæðutegund sem reynslan sýnir að tengist fko, er mjólk, einnig unnar mjólkurvörur. Hér gildir það sama, sneyða hjá mjólk og mjólkurvörum vel áður en frjófgunartíminn hefst og forðast þær þar til honum líkur.

Æskilegt er einnig að forðast fæðutegundir sem auðugar eru af histamíni. Meðal þeirra eru vín, bjór, vel þroskaðir ostar, salami og súrsaður matur. Að öðru leyti eru yfirleitt gefin svipuð ráð við fko og astma, því að mekanisminn sem er ábyrgur fyrir þróun beggja þessara sjúkdóma er svipaður.

Sumum hefur gagnast einfaldlega að smyrja örlitlu vaselíni innan í nasirnar til að mynda verndandi hindrun.

Bætiefni

Efamol

Dr. Maggi Moss, sem starfar við rannsóknir á áhrifum lífsnauðsynlegra fitusýra segir: „Exem, fko og astmi tengjast greinilega skorti á góðri fitu.“ Hún segir fólk með þessa sjúkdóma hafa truflaða starfsemi þeirra ensíma sem ná nauðsynlegri fitu úr fæðunni. Rannsóknir sýna að lítið er af svonefndri „gammalínólensýru (gls)“ í blóði þeirra og getur inntaka gls því gagnast þeim vel. Hún ráðleggur 300 mg á dag í 6 vikur og eftir það 100 mg á dag. Gott bætiefni sem inniheldur gls er EFAMOL.

Omega-3 fitusýrur EPA/DHA

Nokkrar klínískar rannsóknir sýna að aukin inntaka omega-3 fitusýra gagnast einstaklega vel gegn þessum sjúkdómum. Einkum bötnuðu viðbrögð við ofnæmisvöldum og starfsemi öndunarfæra batnaði einnig.1,2

Vítamín B-6

Rannsóknir benda til að þetta vítamín gagnist ofnæmissjúklingum með margþættum hætti. Athugun leiddi í ljós að magn af B-6 var lægra í hópi astmasjúklingum en í viðmiðunarhópi heilbrigðra. Við athugun á 67 astmasjúkum börnum kom fram greinileg minnkun einkenna þegar gefin voru daglega 200 mg af B-6. Einnig er sérstaklega mælt með auknum skammti af B-6 þegar lyfið theophylline er notað, því við notkun þess minnkar magn af B-6 vítamíni. Einnig dregur B-6 greinilega úr aukaverkunum lyfsins, eins of höfuðverk, ógleði og svefntruflunum.3,4,5 Yfirleitt eru ráðlögð 25-50 mg, 2 x daglega.

C-vítamín

Rannsóknir benda til margvíslegrar gagnsemi C-vítamíns við þessum sjúkdómum. Í a.m.k. 7 klínískum rannsóknum reyndist það veita greinilegan bata í öndunarfærum og voru þá gefin 1000 – 2000 mg á dag. C-vítamín hefur fjöþætt áhrif á histamín. M.a. fyrirbyggir það seytingu histamíns af hvítum blóðkornum og stuðlar að afeitrun þess. Í rannsókn þar sem gefin voru 2000 mg í viku í senn, reyndist magn af C-vítamíni í blóði stóraukast en magn af histamíni lækka um 38%.6,7

Quercitin

Nokkur bíóflavón – einkum quercitin – hafa reynst draga úr flæði histamíns frá mastfrumum og einnig draga þau úr myndun ofnæmisvaldandi efna eins og leukotrína. Auk þess bætir quercitin nýtingu C-vítamíns, jafnframt því sem það hefur jafnandi áhrif á himnur mastfruma.8,9 Þrúgukjarnaþykkni (Grape Seed Extr) og furubarkarþykkni (Pine Bark Extr) eru auðug af bíóflavónum.

Augnfró

Í flestum ritum um jurtalækningar er mælt með augnfró (Eyebright) við fko. Hana er hægt að fá formi tes, en einnig í töflum eða hylkjum sem eru eðlilega sterkari.

Brenninetla

Í tvíblindri rannsókn sem gerð var með brenninetlu fékkst nokkur bati, aðallega á hnerra og augnkláða.10

1.   J.P. Arm et al., „The Effects of dietary supplementation with fish oil lipids on the airway response to inhaled    allergen in bronchial asthma,“ Am Rev Respiratory Dis 139 (1989):1395-1400.

2.   J.Dry and D. Vincent „Effect of a fish oil diet on asthma: Results of a 1-year double-blind study,“ Int Arch Allergy Apply Immunol 95 (1991):156-7.

3.   R.D. Reynolds and C.L. Natta, „Depressed plasma pyridoxal phosphate concentration in adult asthmatics,“ Am J Clin Nutr 41 (1985):684-8.

4.   P.J. Collip, S. Goldzier, N.Weiss, et al., „Pyridoxine treatment of childhood asthma,“ Ann Allergy 35 1975): 93-7.

5.   T.Shimizu et al., „Theophylline attenuates circulating vitamin B-6 levels in children with asthma“ Pharmacol 49 (1994):171-4.

6.   S.O. Olusi, O.O.Ojutiku, W.J.E. Jessop, and M.I Iboko, „Plasma and white blood cell acorbic acid concentrations in patients with bronchial asthma,“ Clinica Chimica Acta 92 (1979):161-6.

7.   C.S. Johnston, L.J. Martin, and X. Cai, „Antihistamine effect of supplemental ascorbic acid and neutrophil chemotaxis,“ J Am Coll Nutr 11 (1992): 172-6.

8.   E. Middleton, G. Drzewiecki, and D. Krishnarao, „Quercetin: An inhibitor of antigen-induced human basophil histamine release,“ J Immunol 127 (1981):546-50.

9.   J.C. Foreman, „Mast cells and the actions of flavonoides,“ J Allergy Clin Immunol 74 (1984) 769-74.

10. Mittman P. Randomized double-blind study of freeze-dried Urtica diocia in the treatment of allergic rhinitis. Planta Med 1990;56:44-7.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.