Astmi

Það er mjög algeng reynsla þeirra sem reyna að fá bót á astma með matarræði að mikilvægast sé að sleppa allri mjólk og mjólkurvörum. Það eitt virðist oft gera kraftaverk gegn astma. Þetta er ekki eins erfitt og það lítur úr í fyrstu, því mikið er til af vörum úr soja sem nota má í stað mjólkur, svo sem soja jógúrt, sojamjólk, sojadessertar, sojaostur o.s.fr. Einnig er til úrval af drykkjum sem framleiddir úr hrísgrjónum og höfrum til að nota í stað mjólkur.

Annað sem vert er að gæta að er MSG eða þriðja kryddið. MSG (monosódíumglútamat) er einnig nefnt þriðja kryddið. Það er í flestum kraftteningum (súputeningum) og flestar tegundir kryddsalts innihalda það einnig. Það er notað í tilbúnar súpur, sósur, snakk alls konar og tilbúin matvæli. Á umbúðum vara er það sjaldan merkt MSG, heldur E-621 eða oft aðeins merkt sem bragðauki (flavour enhancer). Viðkvæmt fólk getur fundið fyrir óþægindum eftir neyslu matar sem inniheldur MSG, svo sem sljóleika, ógleði, svima, óeðlilegs þorsta, dofa í hálsi og bringu og höfuðverks. Þessi óþægindi eru á ensku nefnd „Chinese Restaurant Syndrome“, sem helgast af því hversu kínversk veitingahús eru óspör á MSG við matargerð.

Nú orðið fæst í heilsubúðum gott úrval af súpum, sósum, kraftteningum og öðrum vörum sem í venjulegum matvörubúðum innihalda MSG.

Meginorsökum astma má skipta í tvennt. Fyrri flokkurinn er ofnæmi og aðrir þættir sem hafa áhrif á ónæmiskerfið. Helstu orsakavaldarnir eru frjókorn, dýrahár, dýraflasa, ryk (rykmaurar) og sveppagró. Þegar viðkomandi hefur ofnæmi fyrir einu eða fleiru af ofantöldu eykst magnið af mótefninu IgE sem setur ofnæmiseinkenni af stað, s.s. kláða í augum og öndunarvegi, nef- og tárarennsli.

Hinn meginorsakaflokkinn má kalla ertingu. Undir hann flokkast sýkingar í öndunarvegi (s.s. bronkítis), líkamleg áreynsla, innöndun á reyk eða gufum, t.d. sígarettureyk eða efnagufum, ryk (rykmaurar) og kalt, þurrt og/eða rakt loft. Einnig hefur andlegt ástand áhrif, of mikil streita eða álag getur ýtt undir erfiðleika í öndundarvegi. Sveppasýking í meltingarvegi (Candida albicans) virðist geta valdið astma, en ofnæmisvaldurinn í þeim tilvikum er próteasi sem er efni sem Candida sveppurinn framleiðir.

Í báðum gerðum astma eru það efni í ónæmisfrumum (mastfrumum), m.a. histamín, sem valda bólgumyndun. Þessar ónæmisfrumur eru sérþróaðar hvítar blóðfrumur sem finnast í ýmsum vefum líkamans, þ.á.m. í veggjum öndunarvegsins. Í þessum frumum er einnig að finna hóp af efnum sem saman kallast leukotrín en sum þeirra eru allt að þúsund sinnum sterkari ofnæmismiðlarar en histamín. Astmasjúklingar virðast hafa tilhneigingu til að mynda mjög mikið magn af leukotrínum. Bólgueyðandi lyf, s.s. íbúprófen og aspirín og viss litarefni í matvörum eða lyfjum eru talin auka myndun á leukótrínum. Tartrazine (E-102 eða yellow dye #5) er litarefni sem bætt er út mjög mikið af unnum matvörum og hefur einnig fundist í vítamínum og astmalyfjum. Sýnt hefur verið fram á að það valdi astma, sérstaklega hjá börnum. Sem fyrr greinir er MSG undir sömu sök selt.

Bætiefni:
Fitusýrur: Rannsóknir hafa sýnt fram á að börn sem borða fisk oftar en einu sinni í viku eru í þrisvar sinnum minni hættu á að fá astma en þau sem ekki borða reglulega fisk. Nokkrar aðrar rannsóknir sýna að aukin inntaka af Omega-3 fitusýrum bæta öndunarstarfsemi og viðbrögð öndunarvegarins við ofnæmisvöldunum. Hins vegar gæti tekið allt að eitt ár að finna fyrir verulegum bata þar sem það virðist taka líkamann allnokkurn tíma að nýta þessar fitusýrur þannig að þær gagnist að þessu leiti.

C-vítamín er öflugt andoxunarefni og löngu þekkt sem sterk vörn fyrir ónæmiskerfið. Rannsóknir hafa nú einnig sýnt fram á að astmasjúklingar hafa oft áberandi lítið af C-vítamíni í blóði. Sjö af 11 rannsóknum sem gerðar hafa verið síðan 1973 með C-vítamín inntöku hjá astmasjúklingum sýna verulegan bata við
öndunarmælingar og á astmaeinkennum. Voru ýmist gefin 1000 eða 2000 mg.  Svo virðist einnig sem stórir skammtar af C-vítamíni í lengri tíma geti lækkað histamínmagnið í blóðinu og er því sterklega mælt með því fyrir ofnæmissjúklinga.

Flavóníðar: Ýmsir flavóníðar, þó sérstaklega kersitín, virðast hindra losun histamíns úr ofnæmisfrumunum
og framleiðslu á leukótrínum. Kersitín er að finna í þrúgukjarnaþykkni (grape seed extract), furubarkarþykkni (pine bark extract), grænu tei, lauk, eplahýði og Ginkgo Biloba og sterkast einfaldlega í kersitín töflum.

E-vítamín getur hindrað myndun á leukótrínum.

Selen: Til að geta brotið niður ensímið glútatíon peroxídasa þarf líkaminn að nota selen. Þetta ensím sér um að hindra framleiðslu og brjóta niður leukótrína sem eru eins og fyrr segir hópur efna sem valda ofnæmisviðbrögðum í líkamanum.

Breski jurtalæknirinn Susan Clark, sem meðal annars svarar spurningum fólks í breska stórblaðinu The Times, mælti fyrir nokkru síðan með berki af Lapachotrénu fyrir astmasjúklinga. Viðbröðgin létu ekki á sér standa. Margir lesenda The Times létu frá sér heyra og sögðu að eftir að þeir fóru að taka inn Lapacho hefði heilsa þeirra batnað verulega og dregið hefði úr astmaköstum. Algengast er að Lapacho sé drukkið sem te. Hér er um athyglisverðan kost að ræða fyrir astmasjúklinga og aðra þá sem þjást af öndunarfærasjúkdómum.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað
tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.