Hárlos

Á fræðimálinu kallast hárlos alopecia og er flokkað niður í nokkrar gerðir eftir því hversu mikið og víða um líkamann það er. Alopecia totalis þýðir tap á öllu hári á höfði, alopecia universalis þýðir tap á öllum líkamshárum, að augabrúnum og augnhárum meðtöldum. Þegar hárlosið verður svæðisbundið kallast það alopecia areata.

Hvers vegna hárlos?

Við eðlilega endurnýjun tapast 50-100 hár á dag, en losni mikið meira en það er talað um hárlos. Þættir sem ráða hárlosi geta verið margskonar s.s. erfðir, hormónavandamál og öldrun. Eins geta áföll valdið (skyndilegu) hárlosi, slys, ýmsir sjúkdómar og meðferðir við þeim t.d. geisla- eða lyfjameðferðir. Hin eiginlega ástæða þess að líkaminn losar sig við hárin hefur ekki verið fundin. Getgátur eru hins vegar um að brenglun í ónæmiskerfinu líti á hársekkinn sem óvinaefni og ráðist á hann.

Mun algengari tegund hártaps er hin dæmigerða, staðbundna skallamyndun karla. Hún mun vera arfgeng og erfist með X-litningi frá móður. Rannsóknir benda einnig til að hársekkirnir í einstaklingum sem fá skalla innihaldi tengi sem sjá um að hægja á eða stöðva alveg hárvöxt fyrir áhrif karlhormóna. Konur geta einnig fundið fyrir hárþynningu og jafnvel fengið skalla en það gerist yfirleitt ekki fyrr en að loknu breytingarskeiði. Á meðan konur eru barnshafandi minnkar yfirleitt hárlos til muna en kemur aftur eftir barnsburðinn.

Aðrir þættir sem ýta undir hárlos eru lélegt blóðstreymi, skyndilegt þyngdartap, hár hiti, járnskortur, sykursýki, skjaldkirtilsvandamál, streita, lélegt mataræði og næringarskortur.

Hvað er til ráða?

Líkaminn þarf bíótín til að halda húð og hári heilbrigðu. Það er jafnvel talið geta fyrirbyggt hártap hjá sumum karlmönnum. Það er að finna í ölgeri, hýðishrísgrjónum, bulgur, grænum baunum, höfrum, sojabaunum, sólblómafræjum og valhnetum. Einnig er það til á bætiefnaformi.

Silica eða kísill er afar mikilvægt steinefni fyrir hárið. Silica er eitt af 15 snefilefnum sem finnast í líkama okkar. Snefilefni eru efni sem fyrirfinnast í örlitlu magni í líkamanum, en hann getur ekki framleitt sjálfur. Þau eru engu að síður afar mikilvæg fyrir eðlilega líkamsstarfsemi en þekktustu snefilefnin eru járn, króm, kopar, mangan, selen og sink. Silicaskortur lýsir sér einkum í lélegum nöglum og slitnu hári. Þar sem stöðugt gengur á kísilforða líkamans, verður að bæta honum upp kísilinn jafnharðan. Silica er m.a. í sveppum, salati, sólblómafræum, hirsi, höfrum, jarðaberjum, agúrkum, túnfífli og alveg sér í lagi í klóelftingu, sem er undirstöðuefnið í Silica Plus töflum. Þær eru unnar úr elftingu með sérstakri aðferð, en engin tilbúin upplausnarefni eru notuð við framleiðsluna. Það sem gerir Silica Plus einstakt er að kísillinn er bundin hópi lífrænna efna, svonefndra bíóflavonóíða og gerir það líkamanum kleift að nýta sem næst 100% af silica innihaldinu.

Fitusýrur fyrirbyggja þurrk bæði í hársverði og hárinu sjálfu.

B-vítamín eru mikilvæg til að halda hárvexti og hári heilbrigðu.

Forðast ætti matvæli sem innihalda hrá egg en þau innhalda hátt hlutfall af prótíninu avidín en það bindur bíótín í blóðrásinni og fyrirbyggir upptöku þess í meltingarveginum.

Eplaedik og salvíute notað sem hárskol styrkir hárvöxt.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.