Exem

Einkenni:

Exem verður sífellt algengari sjúkdómur. Einkennin geta verið margs konar svo sem þurr húð, roðablettir og kláði, ekki síst á olnbogum, hnjám og örmum og í andliti. Exem er algengast hjá börnum, það eldist af sumum en aðrir þurfa að glíma við sjúkdóminn áfram og fylgja oft aðrir ofnæmiskvillar í kjölfarið, svo sem heymæði og astmi.

Orsakir:

Frumorsakir eru ekki kunnar. Exem getur orsakast af ofnæmi. Því er nauðsynlegt í samráði við lækni að athuga hvort um slíkt sé að ræða. Takist að finna ofnæmisvaldinn, fæst yfirleitt verulegur bati með því að forðast það sem ofnæminu veldur. Einnig geta aðrir þættir valdið exemi, svo sem loftslagsbreytingar og streita, en alveg sérstaklega mataræði.

Ráð við exemi

Mataræði

Reynslan sýnir að dragi exemsjúklingar úr neyslu sykurs, hvíts hveitis og afurða úr því, hvítra grjóna og yfirleitt mikið unninna afurða, einnig unninna kjötafurða, getur það eitt og sér gjörbreytt ástandinu. Rétt er að sleppa mjólk og mjólkurvörum einnig um tíma, því þó fólk hafi ekki mjókuróþol getur mjólk verið meðvirkandi orsakavaldur exems.

Efamol

Rannsóknir hafa sýnt að hjá mörgum exemsjúklingum eru efnaskipti fitu ekki sem skildi. Getur það valdið skorti á gammalínólen-fitusýru. Þetta er fitusýra sem líkaminn á að geta unnið úr m. a. jurtaolíum, en eins og fyrr segir virðast efnaskipti margra exemsjúklinga ekki geta framleitt þessa fitusýru úr fæðunni. Hana má hins vegar fá beint úr m.a. náttljósarolíu og er úr henni unnið efni sem heitir Efamol. Fjöldi rannsókna hefur farið fram sem leitt hafa í ljós virkni Efamols gegn exemi, enda er það mikið notað gegn þessum þráláta kvilla. Sá kostur Efamols sem fjölmargir lýstu einkum ánægju sinni með, er hvað notkun þess dregur úr kláða. Við rannsóknirnar var yfirleitt byrjað með 6 g á dag (3 x daglega 2 hylki, 1000 mg) og skammturinn síðan minnkaður niður í 4 g eftir um 8 vikur og svo niður í 2 g (2 hylki 1000 mg) á dag, einum til tveimur mánuðum síðar. Mörgum duga síðan 2 g til að halda sér góðum. Einnig getur reynst vel að bera Efamol olíu á sýkta bletti.

Minni þörf á kortison

Þeir sem nota kortison geta oft minnkað kortison neysluna noti þeir Efamol. Rannsókn sem gerð var við háskólann í Turku í Finnlandi og birtist í British Journal of Dermatology (1987;117,11-19) staðfesti að þeir exemsjúklingar sem fengu Efamol gátu minnkað notkun kortisonkrems niður í þriðjung af því sem þeir notuðu áður. Bólgur rénuðu, hlutfall líkamsyfirborðs sem var undirlagt exemi minnkaði, svo var einnig um þurrk og kláða.

Yfirgripsmikil rannsókn undir stjórn J.C.M. Stewart et al (Journal of Nutritional Medicine 1991;2:9-15) leiddi í ljós að 111 af 179 sjúklingum fengu nokkurn til verulegs bata með hjálp Efamols og gátu margir minnkað notkun á sterum, fúkkalyfjum og ofnæmislyfjum. Niðurstaða þessarar rannsóknar er m.a. að Efamol bjóði upp á gagnlega viðbót við þau efni sem notuð eru til að hafa hemil á exemi. Sú staðreynd að það virðist bæta lífefnafræðilegan skort sem gæti verið til staðar frá fæðingu, gefur tilefni til að reyna það við þessum sjúkdómi, auk þess sem Efamol hefur engar hliðarverkanir.

Omega-3 fitusýrur

Í lýsi eru m.a. omega-3 fitusýrurnar EPA og DHA. Þær eru unnar úr lýsinu og fást undir nöfnum eins og Omega eða Fish Oil. Skammtur sem nemur 1800 mg af EPA á dag, var notaður gegn exemi í tvíblindu prófi.
Eftir 12 vikur höfðu þeir sem fengu EPA náð umtalsverðum bata. Samkvæmt þeim sem stóðu að rannsókninni, gæti gagnsemi þessara fitusýra gegn exemi verið sú, að þær draga úr magni leukotrín B4, en það efni er
talið tengjast exemi.

Acidophilus og aðrir heilsugerlar

Notkun á Acidophilus undir meðgöngu og eftir fæðingu getur dregið úr hættu á barnaexemi. Í tvíblindu prófi þar sem þátttakendur voru 159 barnshafandi konur fékk helmingur þeirra Lactobacillus GG (LGG) 2-4 vikum fyrir áætlaðan barnsburð en hinn helmingur kvennanna fékk lyfleysu. Eftir barnsburð héldu mjólkandi mæður inntöku áfram í 6 mánuði. Niðurstöðurnar voru þær að LGG minnkaði hættu á exemi í börnum um 50%.1 Auk þess benda aðrar rannsóknir til að ungabörn sem eru með exem geti haft gagn af þessum gerlum.2,3

Sink

Þetta steinefni hefur gagnast sumum exemsjúklingum og er þá ráðlagt að nota sink-píkólínat. Talið er að gagnsemi þess við exemi megi m.a. rekja til þess að sink er nauðsynlegt fyrir efnaskipti fitusýra, þannig að líkaminn geti framleitt bólguhemjandi prostaglandin.

Lakkrísrót (Glycyrrhiza glabra)

Bæði er seyði af þessari rót drukkið og einnig er það notað útvortis til að draga úr einkennum exems. Glycyrrhetín-sýra, sem er að finna í lakkrísrót, dregur úr bólgu og kláða þegar hún er notuð útvortis á exem. Aukaverkanir af lakkrísrót geta verið þær að sé seyði af henni drukkið um langan tíma, getur hún verið vökvalosandi og hækkað blóðþrýsting.

Jurtakrem

Ýmsar jurtir hafa gefist vel í formi krems eða áburðar, m.a. hamamelis (nornahesli), kamilla og calendula (morgunfrú). Mörgum hefur gagnast 7-jurta kremið frá Bioforce, einnig hefur Græðismyrsl frá Urtasmiðjunni og Urtasmyrsl frá Móu gagnast sumum og bæði rannsóknir og reynsla sýna góðan árangur af notkun Pensíms á exem. Hampolía er líka ráðlögð, en hún inniheldur bæði omega 3 og 6 fitusýrur, m.a. gammalínolensýru. Til að slá á kláða hefur reynst mjög vel að rjóða Molkosan á kláðbletti.

Heimildir:

1.  Kalliomaki
M, Salminen S, Arvilommi H, et al. Probiotics in primary prevention of
atopic disease: a randomised placebo-controlled trial. Lancet.
2001;357:1076-1079.

2.  Isolauri E, Arvola T, Sutas Y, et al. Probiotics in the management of atopic eczema. Clin Exp Allergy. 2000;30:1604-1610.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.