Þurr húð

Húðin þarf gott jafnvægi á olíu og raka til að viðhalda teygjanleika sínum og heilbrigði. Rakinn er sá vökvi sem er innan í húðfrumunum og heldur þeim þöndum, sem gefur húðinni hraustlegt og heilbrigt útlit. Fitukirtlarnir í húðinni sjá henni síðan fyrir olíu og smyrja yfirborð hennar. Olían sér einnig um að fyrirbyggja óhóflegt rakatap úr efstu lögum húðarinnar með því að mynda nokkurs konar himnu utan um rakafrumurnar.

Til eru tvær gerðir af þurri húð, þá sem skortir nægilega olíu og er algengari hjá konum yngri en 35 ára. Hina tegundina skortir bæði olíu og raka. Það veldur yfirleitt aukinni hrukkumyndun, brúnum blettum í húðinni og húðin getur orðið mislit, svitaholurnar verða stærri og sýnilegri (grófari) og húðin slappast. Þetta tengist yfirleitt aldri og er afar eðlileg þróun. Fæstum finnst þetta þó skemmtileg þróun þar sem henni vilja einnig fylgja áberandi þurrkablettir og stífni í húðinni (sérstaklega eftir bað eða sturtu). Jafnvel geta komið brot eða sprungur í húðina.

Algengast er að húðin þorni á svæðum eins og í andliti og á höndum. Þar verður hún mest fyrir veðri og vindum (einnig sól) en getur að sjálfsögðu þornað alls staðar, sérstaklega á veturna. Þetta er trúlega að hluta arfgengt en lélegt mataræði og fyrrnefndar utanaðkomandi ástæður eru miklir áhrifavaldar. Eins getur snyrtivörunotkun, snerting við sterk (eitur)efni, tíðar bað-/sturtuferðir og mikil sápunotkun haft þurrkandi áhrif á húðina.

Almenn umhirða

Flestir vita að reykingar (líka óbeinar) eru mjög heilsuspillandi, krabbameinsvaldandi og auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Færri gera sér sennilega grein fyrir að bæði beinar og óbeinar reykingar hafa einnig skaðleg áhrif á húðina. Nikótín dregur nefnilega saman æðarnar og minnkar þannig súrefnisflæði og flutning á næringarefnum um þær, þetta á einnig við um háræðar í húðinni. Verði þær fyrir langvarandi súrefnis- og næringarskorti verður húðin gul- eða gráleit og hrukkumyndun eykst til muna. Stundum myndast hjá reykingafólki hringlaga hrukkur umhverfis munninn, sem verða til á löngum tíma við síendurteknar soghreyfingar þegar sígarettan er reykt.

Burstið húðina tvisvar í viku áður en farið er í sturtu/bað með þurrum þvottapoka eða (húð)bursta. Það örvar blóðstreymið og fjarlægir dauðar húðfrumur og stuðlar þannig að heilbrigðri endurnýjun húðarinnar.

Hreinsikrem og (andlits)sápur geta haft þurrkandi áhrif á húðina og er vert halda notkun þeirra í lágmarki og nota þá helst mildar náttúrulegar snyrtivörur. Einnig má nota kaldpressaða (lífræna) ólífu-, avókadó- eða möndluolíu til að hreinsa húðina. Allar eru þær E-vítamínríkar. Berið olíuna á húðina með fingurgómum og strjúkið af með volgu vatni í snyrtisvampi eða mjúkum bómullarklút. Gott er að gera þetta áður en farið er í sturtu eða bað.

Rakakrem, auðug af virkum nærandi efnum úr ríki jurtanna, eru góð leið til að gefa húðinni þann raka sem hún þarfnast. Í þau eru notaðar upplausnir úr jurtum sem m.a. hafa húðstríkkandi og frískandi áhrif. Þar sem sól skín að jafnaði er sólvörn mikilvæg, því útfjólubláu geislarnir eru skaðlegir og geta valdið húðkrabbameini og er þá heppilegt að nota rakakrem með sólvörn. Sólin þurrkar einnig húðina (sem eykur hrukkumyndun) og getur valdið útbrotum. Þetta á við um allan líkamann. Hreint aloe vera gel er mjög rakagefandi og kælandi og hentar vel ef húðin verður fyrir sólbruna.

Í flestum sólvarnarkremum eru efni sem skv. nýlegum dönskum rannsóknum eru óæskileg fyrir börn, barnshafandi konur og konur með barn á brjósti. Í Heilsuhúsinu færðu sólvörn sem er laus við umrædd efni og önnur skaðleg aukaefni. Í sólvarnarlínunni frá Börlind eru auk þess vörur sérstaklega fyrir fólk með sólarexem. Einnig er í þessari línu alveg einstaklega áhrifaríkt After Sun, sem margir viðskiptavinir Heilsuhússins segja okkur að hafi bjargað sér frá brunasárum, eftir að hafa farið óvarlega á sólarströnd. Þessar vörur voru upphaflega einkum notaðar af fólki með viðkvæma húð, en aðrir hafa uppgötvað gæði þeirra líka og taka þær fram yfir hefðbundna vöru.

Bætiefni

Skortur á A- og B-vítamínum eykur líkurnar á að húðin þorni.

Fitusýrur, eins og t.d. ómega-3 og gamma-línólínsýra eru nauðsynlegar húðinni til að viðhalda réttu raka- og olíujafnvægi í henni. Náttljósarolía inniheldur gamma-línólínsýru og er því kjörin fyrir þurra húð (og önnur húðvandamál, t.d. exem), bæði til inntöku og útvortis notkunar.

Kísilsýra er mikilvægt steinefni fyrir húðina. Þar sem stöðugt gengur á kísilforða líkamans, verður að bæta honum upp kísilinn jafnharðan. Kísilsýra er m.a. í salati, sólblómafræum, jarðaberjum, agúrkum, túnfífli og alveg sér í lagi í elftingu, sem Silica Forte töflurnar eru unnar úr. Þær eru einstakar því í þeim er kísillinn bundinn hópi lífrænna efna, svonefndra bioflavóníða sem gera líkamanum kleift að nýta fullnýta kísilinn.

Mataræði

Það sem við látum ofan í okkur hefur ekki aðeins mikil áhrif á líkamsstarfsemi og hreysti, heldur sem fyrr segir einnig á heilbrigði húðarinnar. Þá er bæði átt við fasta fæðu og vökva, einkum og sér í lagi vatn. Drekkið a.m.k. 2 lítra af vatni á dag, það er auðveldara en það virðist!!! Hafið brúsa, glas eða könnu af vatni ávallt nærhendis. Sumum finnst gott að setja sér tímamörk eins og að klára 1 lítra fyrir kl. 12 og annan fyrir kl. 16.

Nauðsynlegt er að borða fjölbreytta fæðu sem inniheldur m.a. grænmeti, ávexti, korn, fræ og hnetur. Gult og appelsínugult grænmeti inniheldur mikið beta karótín sem breytist í A-vítamín eftir þörfum líkamans. Ölger, grófmeti og korn innihalda B-vítamín. Fiskur (sérstaklega feitir fiskar eins og lax og lúða) innihalda ómega-3 fitusýrur. Munið einnig eftir gamla, góða lýsinu!!

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.