Aðalbláber / e: Bilberry / lat: Vaccinium myrtillus

Aðalbláber hafa verið notuð við ýmis konar vandamálum í sambandi við sjónina, til dæmis við vagli, náttblindu og einnig geta þau gagnast við gláku. Rannsóknir benda til þess að aðalbláber geti bætt nætursjón, a.m.k. tímabundið. Í síðari heimsstyrjöldinni sögðu meðlimir breska flughersins að vænn skammtur af aðalbláberjasultu rétt fyrir flug stórbætti nætursjón þeirra. Eftir stríðið rannsökuðu vísindamenn innihald aðalbláberjanna og fundu í þeim flavonóíð sem heita antósýanósíð. Þessi efni koma að margvíslegum notum, einkum fyrir augun og í framhaldi af rannsóknum vísindamanna var farið að mæla með aðalbláberjum fyrir augun. Góð sjón við lítið ljósmagn veltur á efni í augunum sem kallað er ródopsín. Skært ljós eyðileggur ródopsínið, en það myndast auðveldlega aftur í myrkri. Endurmyndunin tekur mislangan tíma hjá fólki. Fyrir þá sem eru lengi að endurnýja ródopsínið, geta aðalbláberin komið að góðum notum.

Tvær tvíblindar rannsóknir hafa verið gerðar á aðalbláberjum sem sýna að þau bæta sjón í rökkri, stytta þann tíma sem það tekur að venjast myrkrinu og stytta einnig þann tíma sem augun eru að ná sér eftir að hafa orðið fyrir skerandi birtu.2 Áhrif berjanna virðast vera stutt og koma strax fram, þannig að ráðlagt er að nota berin eða þykkni úr þeim, rétt áður en þörf er á betri nætursjón.

Auk þess sem þau bæta nætursjón hafa rannsóknir sýnt, að aðalbláber koma að gagni við vagli, til að styrkja veggi æða og nethimnu og rannsóknir benda einnig til að þau gagnist við gláku. Í tilraun sem gerð var á 50 sjúklingum með vagl, var framrás sjúkdómsins stöðvuð með þykkni úr aðalbláberjum og E-vítamíni.1 Virku efnin í berjunum gagnast æðum og nethimnu augnanna og ekki síst augnbotnunum. Þau styrkja æðaveggina og bæta blóðflæði nethimnunnar.2,3 Þessi virku efni styrkja einnig alla vefi sem innihalda kollagen með því að fyrirbyggja skemmdir af völdum sindurefna, en jafnframt með því að bindast kollagentrefjum og mynda þannig sterkari kollagenvefi.2,4 Þessir þættir eru einkum taldir stuðla að gagnsemi berjanna gegn gláku.Heimildir:

  1. G. Bravetti, Preventive Medical Treatment of Senile Cataract with Vitamin E and Anthocyanosides: Clinical Evaluation, Ann Ottalmol Clin Ocul 115 (1989): 109.
  2. L. Caselli, Clinical and Elecroretinographic Study on Activity of Anthocyanosides, Arch Med Int 37 (1985): 29-35.
  3. J.M Coget and J.F. Merlen, Anthocyonosides and Microcirculation, J Mal Vasc 5 (1980): 43-46.
  4. J. Monboisse, P. Braquet and J. Borel,Oxigen-Free Radicals as Mediators of Collagen Breakage, Agents Actions 15 (1984): 49-50.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.