Greipaldinkjarnaþykkni / GSE

Eins og nafnið bendir til er þetta þykkni gert úr kjörnum greip-ávaxtarins (Grapefruit Seed Extract=“GSE).“ Þeir eru auðugir af polyfenól efnasamböndum. Þau eru óstöðug en breytast í stöðugri efni sem tilheyra efnahópi er nefnist quaternary ammonium efnasambönd. Þau eru skyld efnasamböndum sem notuð eru í iðnaði gegn örverum, en óhæf til neyslu því þau eru eitruð. Í þessum efnahópi eru líka lífsnauðsynleg efni eins og kólín, sem tilheyrir B-vítamínunum og er nauðsynlegt fyrir heilbrigða starfsemi tauga og fyrir efnaskipti fitu. Greipaldinkjarna þykkni (GKÞ) inniheldur quaternary efnasambönd sem eru afar virk gegn fjölmörgum tegundum örvera, en þau eru laus við eituráhrif skyldra tilbúinna efnasambanda. GKÞ fæst bæði í vökvaformi og í töflum.

Hvernig var GKÞ uppgötvað?

Jacob Harish námsmaður í kjarneðlisfræði, var að borða greipaldin þegar hann beit í kjarna úr ávextinum og beiskt bragð hans truflaði ánægjuna af neyslu ávaxtarins. Hann fór að velta fyrir sér hvað olli þessu beiska bragði. Hann einsetti sér að athuga greipaldinkjarnana betur þó að það þyrfti að bíða um sinn. Hann hafði þurft að gera hlé á námi sínu vegna síðari heimstyrjaldarinnar, en hélt því síðar áfram og bætti við sig læknisfræði með kvensjúkdómafræði og ónæmisfræði sem sérgreinar.

1963 flytur Dr. Harish til Flórida og kemst í samband við tvo leiðandi sérfræðinga í rannsóknum á áhrifum örvera á matvæli, Dr. Steven Otwell og Dr. Wayne Marshall sem störfuðu við matvælaransóknardeild Flórída háskóla í Gainsville. Þeir eru í fyrstu afar vantrúaðir á athuganir Dr. Harish á GKÞ, en sannfærðust fljótlega um ágæti þess, þegar þeir sáu getu þess til að vernda ávexti, grænmeti, fisk og kjöt gegn sýklum, gerlum og sveppum.

Það var samt ekki fyrr en upp úr 1990 sem farið er að nota GKÞ í náttúrulækningum að einhverju marki í Bandaríkjunum. Árið 1995 var Dr. Harish boðinn sem heiðursgestur á Pasteur stofnunina í Frakklandi, en hún er leiðandi í Evrópu í rannsóknum á eyðni. Um nokkurt árabil hefur stofnunin rannsakað forvarnagildi GKÞ við HIV-veirunni og sjúkdómum sem fylgja eyðni. Dr. Harish var einnig heiðraður af samtökum bænda sem nota GKÞ í fóður fyrir fiska og kjúklinga til varnar gegn herskáu sýklunum salmonellu og E. kólí.

Hvers vegna er GKÞ kjörinn örveru-vörn?

GKÞ tekur yfir vítt svið. Samkvæmt prentuðum heimildum er efnið virkt gegn yfir 800 tegundum af bakteríum og veirum, 100 tegundum af sveppum og all nokkrum fjölda sníkla. Í Journal of Orthomolecular Medicine (Vol. 5, No.3 USA, 1990) er greint frá rannsókn alþjóðlegs teymis vísindamanna, þar sem áhrif GKÞ á 770 tegundir baktería og 93 tegundir sveppa voru könnuð í samanburði við 30 tegundir sýklalyfja og 18 viðurkennd sveppalyf. GKÞ reyndist ekki síðra en sérhvert lyfjanna.

GKÞ er náttúruafurð. Það íþyngir ekki ónæmiskerfinu. Þrátt fyrir einstaklega kröftuga virkni, hafa til þessa ekki verið skráðar neinar aukaverkanir. Vandamál við flest sýklalyf eru einmitt aukaverkanirnar. Fólk með ofnæmi fyrir sítrusávöxtum ætti þó að byrja meðferð með mjög smáum skömmtum. Ótal læknar hafa gefið GKÞ afar lofsverða umsögn, sem kristallast í orðum Dr. Klaus Kustermann, M.D. frá Baden Baden í Þýskalandi, en hann segir: „Að mínu áliti er GKÞ alfarið besta og áhrifaríkasta sýklalyf og sveppaeyðir sem náttúran hefur gefið okkur.“

Sveppasýking (Candida)

Langvarandi sveppasýking hefur verið meðhöndluð með framúrskarandi árangri með GKÞ, samkvæmt upplýsingum fjölda sjúkrastofnana og lækna. Dr. David Bayley læknir í norður Vancouver BC, hrósar þykkninu fyrir hversu virkt það er gegn sveppasýkingu. Hann segir: „Virknin er sambærileg við nystatín og GKÞ er ódýrara“.

Dr. Leo Galland M.D. er læknir í N.Y. sem notar GKÞ mjög mikið gegn sveppasýkingu. Hann segir að þykknið sé „ein merkasta uppgötvun til meðferðar sjúklinga með sníkjudýr og sveppasýkingu“. Dr. Galland hefur einnig greint frá því að hjá 297 sjúklingum, hafi aðeins í 2 tilfellum þykknið ekki gagnast. Hann bætir við: „Það er erfitt að ofmeta gildi GKÞ í læknisstarfi mínu. Síðastliðið ár hef ég notað GKÞ við meðhöndlun þarmasníkla og langvarandi sveppasýkingar með frábærum árangri. Við meðhöndlun sveppasýkingar reynist það jafn virkt og
nystatín, kaprílsýra og önnur sveppaeyðandi efni fyrir þarmana. Margir einstaklingar sem eru viðkvæmir fyrir lyfjum þola GKÞ mikið betur en önnur sveppaeyðandi efni og ég er með allnokkurn fjölda sjúklinga, þar sem þetta efni eitt og sér lagaði langvarandi sveppasýkingu, þegar engin önnur efni dugðu eða að sjúklingurinn þoldi þau ekki.“

Við Autonoma de Nuevo Leon háskóla í Monterrey í Mexikó var GKÞ prófað á 20 konum við sveppasýkingu í leggöngum. Konurnar þvoðu sér og notuðu þykknið á 12 tíma fresti og fundu fyrir greinilegum bata innan
fárra daga.

Kvef og flensa

Alkunna er að kvef og flensa, sem orsakast af ýmsum veiruafbrigðum, eru ónæm fyrir fúkalyfjum. GKÞ hefur reynst einstaklega vel, ekki síst sé það notað ásamt jurtum sem styrkja ónæmiskerfið, eins og Echinacea og ólífulaufsþykkni.

Niðurgangur

Það geta verið margar ástæður fyrir niðurgangi. Sé hann af völdum sýkla, sveppa eða veira, getur GKÞ komið að góðu gagni. Best er að taka 20 dropa eða 2 töflur á fjögurra tíma fresti og nota ávallt Acidophilus gerla með, til að koma lagi á gerlagróður meltingarfæranna.

Matareitrun

Á ferðalögum um fjarlægar slóðir, þar sem framandi örveruflóra getur gert atlögu að maganum með oft og tíðum afar hvimleiðum afleiðingum, hefur reynst vel að taka GKÞ inn með morgunmatnum til að verjast óvelkomnum örverum.

Frunsur og annar herpes

Herpes simplex I veira er talin valda hinum ógeðfelldu frunsum, sem einskorða sig ekki alltaf við varirnar. Kynfæra herpes er talin orsakast af öðru afbrigði, Herpes simplex II. Þetta eru einstaklega leiðar veirur og geta valdið heilmiklum óþægindum. GKÞ hefur gagnast mjög vel, ekki síst sé það notað með lýsinkremi og/eða tetrés-(Tea Tree) olíu.

Sár

GKÞ er kjörið sótthreinsiefni. Það vinnur ekki aðeins á sýklum, heldur örvar það einnig bataferlið, hugsanlega vegna astrigerandi (samandragandi) eiginleika.

Hálsbólga

Reynst hefur vel að setja 15-20 dropa í glas af vatni og skola hálsinn með hluta af upplausninni og drekka restina. Gera þetta 3-5 sinnum daglega.

Unglingabólur

Unglingabólur geta orsakast af bólgum vegna baktería, skorti á hreinlæti, fæðuofnæmi og hormónaflæði. Sé unglingurinn einnig með candida sýkingu, getur hún aukið á bólurnar. Hæfilegt er að setja 5 dropa af GKÞ saman við daglegan skammt af andlitshreinsi. Einnig er gott í slæmum tilfellum að taka inn 10-15 dropa í glasi af vatni 3 sinnum daglega.

Vörtur

Í almennum upplýsingum um GKÞ er það m.a. ráðlagt gegn vörtum. Bæði í ritum og á netinu má einnig finna all nokkrar frásagnir þeirra sem notað hafa það með góðum árangri á vörtur.

Frekari upplýsinar um GKÞ (Grapefruit Seed) má finna á:http://www.nutriteam.com/ og http://www.alternativemedicine.com/
Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.