Vegan og glútenlausar súkkulaðibitakökur

Þvílík snilld að geta bakað súkkulaðibitakökur án þess að fá sykurskjokk í leiðinni! Þessar eru algjörlega ómótstæðilegar!

Anna Guðný hjá Heilsa og Vellíðan á þessa girnilegu uppskrift. Gefum henni orðið.

Innihald:

 • 150g Hnetusmjör
 • 150g Haframjöl
 • 2 Hörfræ“egg“ (2 msk möluð hörfræ hrærð saman við 4 msk af vatni)
 • 30g Kókospálmasykur
 • 2 msk Kókosolía
 • 1/2 tsk Vanilluduft
 • 1 tsk Vínsteinslyftiduft
 • 50 ml vatn
 • Smá gróft salt
 • 60 g Súkkulaði

 1. Saxaðu súkkulaðið fallega niður, en ég vil hafa það frekar gróft til að fá góða bita í kökunum.
 2. Næst skalt þú útbúa hörfræ“eggin“ með því að mala hörfræ í kaffikvörn og hræra saman við þau vatn. Leyfðu þessu að standa meðan þú undirbýrð deigið. Malaðu einnig haframjölið alveg niður í duft í kaffikvörn, matvinnsluvél eða blandara.
 3. Hrærðu síðan kókospálmasykrinum, vanillunni, vínsteinslyftiduftinu og saltinu saman við haframjölið.
 4. Því næst blandar þú blautefnunum saman við; hörfræeggjunum, hnetusmjörinu, kókosolíunni og vatninu.
 5. Þegar að allt er vel blandað saman bætir þú súkkulaðinu varlega saman við.
 6. Gott er að kæla deigið aðeins ísskáp áður en þú setur það á plötuna í svona 40 mín, fínt meðan að þú gengur frá eldhúsinu.
 7. Kveiktu á ofninum, stilltu hann á blástur og settu hitastigið á 175 °C.
 8. Búðu til kúlur úr deiginu og pressaðu þær svo niður með höndunum. Mótaðu kökurnar alveg eins og þú vilt hafa þær því þær lyfta sér lítið sem ekkert né renna mikið út. Bakaðu þær síðan í 20 mínútur, taktu þær síðan út og leyfðu þeim að kólna alveg.

Uppskriftin og allar myndir með færslunni eru í eigu Önnu Guðnýjar Torfadóttur.