Mjólkurlausar súkkulaðitrufflur – hollt jólakonfekt sætt með hlynsírópi

Anna Guðný hjá Heilsa og vellíðan á þessa ómótstæðilegu uppskrift. Súkkulaðitrufflur sem eru bæði góðar og hollar og henta þeim sem þola ekki mjólkurvörur, glúten eða eru vegan!

Ekki hægt að biðja um það mikið betra!

Hér kemur uppskriftin:

Trufflurnar

 • 1 biona kókosmjólk (notar bara kókosþykknið – ekki kókosvatnið)
 • 1 dl lífrænt ljóst kakó
 • 4 msk kókosolía
 • 8 msk hlynsíróp
 • 30 g kasjúhnetur
 • hnífsoddur salt
 1. Best er að láta kókosmjólkina inn í ísskáp í 12 klst ef þú hugsar fram í tímann, annars myndi ég skella henna í frystirinn í 1-2 klst.
 2. Helltu kókosvatninu úr kókosmjólkurdósinni í krukku og legðu til hliðar- þú getur notað kókosvatnið seinna t.d. í þeyting. Þú notar bara kókosþykknið í þessa uppskrift.
 3. Settu öll innihaldsefnin í blandara.
 4. Blandaðu þangað til blandan er silkimjúk.
 5. Settu blönduna í lítið ílát og inn í frysti.
 6. Þegar að blandan hefur stífnað mótar þú kúlur með höndunum.
 7. Leggðu kúlurnar á slétt ílát og settu þær aftur í frysti áður en þú hjúpar þær.

Súkkulaðihjúpurinn

 • 50 ml kakósmjör
 • 150 ml kókosolía
 • 2 dl hrákakó
 • 75 ml hlynsíróp
 • 1/5 tsk vanilluduft
 • hnífsoddur salt
 1. Bræddu kakósmjör og kókosolíu.
 2. Hrærðu síðan öllum innihaldsefnunum saman.
 3. Láttu standa aðeins til að hjúpurinn kólni og þykkni aðeins.

Uppskriftin og allar myndir eru í eigu Önnu Guðnýjar Torfadóttur.