Vegan kartöflusalat – fullkomið meðlæti

Gott kartöflusalat er ómótstæðilegt, sérstaklega á sumrin, smellpassar með grillmatnum.

Þetta er alveg einstaklega gott og hollt, vegan og dásamlegt.

Uppskriftin er fyrir ca. 6 manns

Það sem þarf að skera niður
 • 600g soðnar kartöflur
 • 1 rauð paprika
 • 1/2 rauðlaukur
 • 2 avocado
 • 12 stk grænar ólífur
 • Ferskt dill

Ath. þessi hlutföll og innihaldsefni eru ekki heilög. Notaðu það sem að þú átt til og það sem að þú elskar.

 1. Byrjaðu á því að sjóða kartöflurnar og kæla þær svo undir köldu vatni þegar að þær eru soðnar.
 2. Skerðu síðan öll hráefnin fallega niður og settu í skál.
Sósan
 • 150 g kasjúhnetur
 • 200 ml vatn
 • 1 tsk dijon sinnep
 • 1 msk hlynsíróp
 • 1,5 msk sítrónusafi
 • 1/2 tsk hvítlauksduft
 • gróft salt
 1.  Það er best ef þú nærð að leggja kasjúhneturnar í bleyti í 2-3 klst. En ef ekki þá skelliru þeim bara í blandarann ásamt hinum hráefnum. Þá er mikilvægt að láta blandarann vinna vel og lengi þar til að þetta er orðið silkimjúk sósa.
 2. Bættu sósunni saman við hráefnin í nokkrum skömmtum, það er ekki víst þú þurfir að nota hana alla. Afganginn getur þú nýtt með hverju sem er, fullkomin sósa með grilluðu grænmeti t.d..

Ef að þú ætlar að taka salatið með í útileguna mæli ég með því að sleppa því að setja avacadoið út í það strax, bættu því út í um leið og þú ætlar að borða það til að salatið geymist sem lengst.

 

Anna Guðný Torfadóttir hjá Heilsa og vellíðan á heiðurinn að þessu frábæra salati en uppskriftin og myndirnar eru hennar eign og má ekki nota opinberlega nema með hennar leyfi.