Að vera tengdur og í kyrrð – Góð ráð frá Víði íþrótta og heilsufræðingi

Flest erum við almennt undir miklu álagi. Hraðinn í þjóðfélaginu er mikill og Íslendingar vinna alla jafna meira en góðu hófi gegnir og gæta ekki að kalli líkamans eftir hvíld og eftir tengingu. Hugur fólks er mjög út á við, ef svo má að orði komast, sum sé allt annars staðar en í líkamanum. Sem dæmi má nefna þegar við sitjum við tölvuna þá er hugurinn út á við en ekki inn á við eins og við þurfum iðulega á að halda. Allt þetta kallar á streitu og er það mikið áhyggjuefni þar sem streita getur valdið tjóni á innviðum líkamans. Rannsóknir hafa sýnt fram á að streita og andlegt álag getur valdið skemmdum í DNA mengi fruma og valdið keðjuverkun sem getur leitt til alvarlegrar löskunar. Mikilvægt er því að reyna eftir fremsta megni að sporna gegn því.

Ýmsar góðar leiðir eru til þess en sú þægilegasta er einfaldlega að vera kyrr og í kyrrð. Þróunin í þjóðfélaginu er einfaldlega á þá leið að það er hreinlega erfitt að vera í kyrrð. Það eru læti í vinnunni, síminn að hringja hægri-vinstri. Við hækkum útvarpið í botn í bílnum á leiðinni heim og loks þegar heim er komið er kveikt á imbakassanum. Við í raun njótum þess aldrei að vera í kyrrð og hlusta á líkamann okkar. Oft er það miður því að við hlustum ekki fyrr en við höfum hreinlega orðið fyrir skaða. Allt í einu vöknum við upp rammskökk í bakinu eða með bullandi vöðvabólgu í herðum og hálsinn fastur. Í flestum tilfellum er hægt að komast hjá þessu, einfaldlega með því að hlusta á skilaboðin sem líkaminn sendir okkur og að sjálfsögðu að fara eftir þeim.

Prófum endilega að gefa okkur tíma, 5 mínútur eða svo til að byrja með á kvöldin og jafnvel á morgnana, að vera í kyrrð, ekkert að trufla og bara hlusta á líkamann, hlusta inn á við. Gott er að anda vel á meðan á þessu stendur. Draga djúpt inn andann inn um nefið, fylla lungun og koma svo með langa fráöndun út um munninn. Hægt er að ímynda sér að við öndum alla leið niður í tær á innöndun og upp í höfuð með fráöndun. Með þessu erum við að tengja huga við hönd. Þetta hefur áhrif á orkuflæðið innan líkamans og er hin besta heilun.

Ýmislegt annað er hægt að gera. Það er hægt að fara í jóga, hlusta á slökunartónlist eða hlusta á leidda hugleiðslu. Það er meira að segja hægt að fá sér hugleiðslu-app í símann.

Að lokum langar mig að benda á nudd en það er að mínu áliti besta leiðin til að fá djúpa slökun og tengjast sjálfum sér. Sjálfur hef ég stundað slökun og hugleiðslu í mörg ár og annars slagið farið í jóga. Allt er þetta gott og blessað en nuddið er klárlega í fyrsta sæti þegar kemur að djúpslökun. Þá er mikið atriði að anda djúpt og vel meðan á nuddinu stendur og síðan að vera á staðnum. Ekki með hugann við vinnuna eða helvítis kallinn (oft þannig) heldur að fylgja því sem nuddarinn er að gera hverju sinni og finna þannig sterkt fyrir líkama sínum. Bara gott.

Ein áskorun til ykkur kæru lesendur: Hugið að þessu, njótið kyrðarinnar, prófið ykkur áfram og munið að ef þið hafið ekki tíma fyrir heilsuna í dag er óvíst að heilsan hafi tíma fyrir ykkur á morgun. Fyrir utan hvað það er gott að slaka á og njóta kyrðarinnar, alger hugljómun – go for it.

Þangað til næst, hafið það sem best

Víðir