Þriggja laga vegan súkkulaðikaka

Hún Anna Guðný hjá Heilsa og vellíðan skapaði þessa guðdómlegu hráköku sem myndi sóma sér vel á hvaða veisluborði sem er. Algjört trít!

Gefum Önnu orðið:

Ég hef sjaldan verið eins stolt af köku líkt og ég er af þessari hér. Hún er svo falleg að ég tími varla að borða hana, mig langar bara að horfa á hana og dást að henni að eilífu. Mig hefur lengi langað til að útbúa svona stóra og veglega hráköku sem að tilvalið er að bjóða upp á í veislu, matarboði eða bara með sunnudagskaffinu heima. Þessi kaka er algjör lúxuskaka og mun henta við öll þau tilefni þar sem gera á vel við sig og sína. Við erum að tala um þriggja laga súkkulaðiköku þar sem að við erum með bragð af hvítusúkkulaði, ljósusúkkulaði og svo toppurinn er hálfgerð súkkulaðikaramella. Botninn kemur svo  með fullkomið ,,kröns“ á móti silkimjúku súkkulaðilögunum. Áferðin er stórkostleg, hún er alveg silkimjúk og bráðnar alveg í munninum á manni. En lykillin að silkimjúkri hráköku er að hafa þolinmæðina í að leyfa blandaranum að vinna þar til að blandan er silkimjúk.

Ég mæli með að þú lesir aðferðarlýsinguna á þessari köku, það er mikilvægt að taka skrefin í réttri röð .

Botn

 • 100g ristaðar heslihnetur
 • 6 dl haframjöl
 • 3 msk möndlusmjör
 • 4 msk hrákakó
 • 3 msk kókospálmasykur
 • 50 ml kókosolía
 • gróft salt
 1. Byrjaðu á því að rista heslinhneturnar í ofni við 150°C í 15 mín. Leyfðu þeim að kólna og nuddaðu síðan híðinu af þeim.
 2. Byrjaðu á því að setja haframjölið í matvinnsluvélina þar til að það er orðið að dufti.
 3. Bættu þá öllum hinum þurrefnunum saman við og láttu matvinnsluvélina vinna vel.
 4. Að lokum bætir þú blautefnunum saman við og lætur vélina blanda því vel saman við.
 5. Taktu svo smelluform og penslaðu það með kókosolíu. Dúmpaðu svo aðeins yfir með viskustykki svo það sé ekki of mikil olía.
 6. Skelltu svo botninum í formið og pressaðu honum bæði niður og upp á hliðarnar.

Hvítsúkkulaðilag

 • 180 g kasjúhnetur (sem legið hafa í bleyti)
 • 150 ml kókosolía, brædd
 • Þykkni úr 1 kókosmjólk (u.þ.b.10 msk)
 • 20g kakósmjör, brætt
 • 50 ml hlynsíróp
 • 1/4 tsk vanilluduft
 • gróft salt
 1. Skelltu öllum innihaldsefnunum í blandara og láttu hann gera þetta að silkimjúkri blöndu. Þetta á alls ekki að vera kornótt.

Kakólag

 • 200g kasjúhnetur (sem legið hafa í bleyti)
 • 200 ml kókosolía
 • 6 msk hlynsíróp
 • 4 msk hrákakó
 • 100 ml milkadamia mjólk (eða önnur plöntumjólk)
 • gróft salt
 1. Láttu öll innihaldsefnin í blandarann þar til orðið silkimjúkt.

Súkkulaðilag

 • 100g 70% súkkulaði
 • 100g kasjúhnetur (sem legið hafa í bleyti)
 • 2 msk hlynsíróp
 • 1 msk möndlusmjör
 • 100 ml kókosolía, brædd
 • 50 g döðlur (lagðar í bleyti)
 • 50 ml milkadamia mjólk (eða önnur plöntumjólk)
 • gróft salt
 1. Byrjaðu á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði.
 2. Skelltu síðan kasjúhnetum, hlynsírópi, kókosolíu og milkadamia mjólk saman í blandara og láttu vinna vel.
 3. Næst bætir þú döðlunum, möndlusmjörinu, bræddu súkkulaðinu og salti saman við.

Ég mæli með að þú notir hrákakó í þessa köku því að það er ekki bara næringarríkara og gæðameira, heldur er það mildara og bragðbetra. Bragðið yrði aldrei sambærilegt ef notað yrði annað en hrákakó og þyrfti því að smakka uppskriftina til ef þú ætlar að nota það.

Maður getur ekki borðað mikið af þessari bombu í einu vegna þess hve saðsöm hún er og eru þetta svona u.þ.b. 16 sneiðar í heildina. En þar sem að hún geymist í frysti þá mæli ég með að útbúa hana svona stóra líkt og í uppskriftinni. Þá er hægt að skera hana niður í sneiðar sem hentugt er að grípa í til að njóta eða þá að frysta hana í heilu lagi til að eiga hana fyrir eitthvað skemmtilegt tilefni. Trúðu mér, það kemur sér alltaf vel að eiga góða köku í frystinum. Áður en þú berð hana fram er gott að láta hana standa í alveg klst. á borði og láta hana svo inn í ísskáp. Hún má alveg vera inn í ísskáp í 2-3 daga ef að þú telur að hún klárist á þeim tíma.

Fersk íslensk jarðaber gera allt fulkomið og það sama má segja með þessa köku hér. Fullkomin samsetning á móti öllu súkkulaðinu.

 

Uppskriftin og myndirnar eru eign Önnu Guðnýjar Torfadóttur og má ekki nota til opinberrar birtingar nema með hennar leyfi.