Bananamöffins deluxe! Vegan, trefjaríkar bragðbombur.

Sunna Ben deilir hér með okkur snilldar bananmöffins sem er alltaf gott að eiga til að geta gripið í eitthvað hollt og gott.

Sunna er vegan og heldur úti uppskriftasíðunni @reykjavegan á facebook og instagram, mælum með að fylgjast með henni.

Gefum Sunnu orðið:

Ég baka bananamöffins að minnsta kosti einusinni í viku. Þær henta stórkostlega sem millimál, morgunmatur og snarl á leið á æfingu. Þær eru hollar, stútfullar af góðri orku og trefjum, enda byggðar á hugmyndinni af bökuðum hafragraut. Uppskriftin breytist reglulega og við erum alltaf að prufa eitthvað nýtt í bakstrinum til þess að forðast það að heimilisfólk fái ógeð á þessari miklu snilld sem er alltaf á borðum hér.

Í kvöld bætti ég til dæmis skemmtilegu nýju kryddi úr nýju línunni frá Sonnentor við. En línan inniheldur kryddblöndur eftir þemum og stemningu og ég hlakka mikið til að prufa fleiri! Þetta tiltekna krydd heitir “All good! Hatty head” og hentar best fyrir sæta rétti og ávexti og inniheldur meðal annars kanil, anis, appelsínu og kardamomu. Ég var mjög ánægð með bragðið og sé fyrir mér að það muni nýtast vel í möffinsbakstur um ókomna tíð!

Bananamúffur deluxe!

2 x bananar
350ml hrísmjólk
1 bolli af höfrum
3-4 djúsí döðlur
1 msk möndlusmjör frá Biona
3/4 tsk vínsteinslyftiduft
1 msk Hatty Head krydd frá Sonnentor
– Maukað saman í matvinnsluvél.

– Bætt út í eftir maukun:
2 msk chiafræ
1 msk rúsínur
1 msk goji ber
Mulnar valhnetur
1 msk sólblómafræ

Hitið ofn á 180° meðan deigið er undirbúið. Spreyið möffinsofnskúffu* með kókosolíu (líka hægt að nota laus form) og hellið deiginu út í. Bakist í 30-40 mín eða þar til muffurnar eru byrjaðar að brúnast og verða girnilegar.

*Ég mæli með því að nota fjöllnota sílíkon möffinsform eða möffinsofnbakka ef maður bakar mikið af þeim, pappírinn er svo óumhverfisvænn og leiðinlegur.

 

Uppskrift og myndir eru í eigu Sunnu og má ekki nota til opinberrar birtingar nema með hennar leyfi.