Þriggja laga vegan spari kaka

Anna Guðný sem heldur úti blogginu Heilsa og vellíðan á heiðurinn að þessari girnilegu köku! Stútfull af næringu OG bragði.

Við mælum með því að lesa leiðbeiningarnar vel og vandlega 😉

Botninn:

  • 150gr ristaðar möndlur
  • 40gr kókosmjöl
  • 250gr döðlur
  • 4msk kókosolía
  • 2tsk hrákakó
  • Smá gróft salt
  1. Ristaðu möndlurnar við 150°C á blæstri í 15 mínútur
  2. Ef döðlurnar eru harðar er gott að leggja þær í heitt vatn á meðan þú ristar möndlurnar
  3. Leyfðu möndlunum að kólna, helltu vatninu af döðlunum og skelltu öllu saman í matvinnsluvél.
  4. Láttu vélina vinna þangað til blandan er orðin eins og deig og þjappaðu því svo niður í bökunarpappírsklætt form.
  5. Settu formið inn í frysi.

Gott er að setja frosin hindber ofan á botninn áður en þú setur kremið yfir.

Grunnur að kremi:

  • 200gr kasjúhnetur – lagðar í bleyti yfir nótt
  • 2 dósir Biona kókosmjólk (notar bara þykka hlutann)
  • 70ml kókosolía
  • 50ml hlynsíróp
  • 1/3 tsk vanilluduft
  • 1/3 tsk gróft salt
  1. Settu allt saman í blandara og láttu hann vinna þar til blandan er silkimjúk.
  2. Taktu 1/3 af grunninum og leggðu til hliðar.
  3. Settu frosin hindber á botninn, helltu svo 2/3 af vanillublöndunni yfir botninn.
  4. Settu kökuna aftur í frystinn.

Efsta lag

  • Taktu 1/3 af blöndunni og bættu út í hana 1-2 msk af hrákakó. Smakkaðu þetta til, byrjaðu á 1 msk og settu meira ef þú vilt meira kakóbragð.
  • Þegar vanillulagið er orðið vel stíft í frystinum bætir þú kakólaginu ofan á og setur kökuna aftur í frystinn.

Súkkulaðiskraut

  • 5msk hrákakó
  • 5msk kókosolía
  • 2msk hlynsíróp
  • Smá gróft salt
  1. Byrjaðu á því að bræða kókosolíuna með því að láta krukkuna undir sjóðandi heitt vatn.
  2. Hrærðu síðan öllum innihaldsefnunum saman.
  3. þegar kakan er orðin stíf í frystinum getur þú skreytt kökuna með súkkulaðinu.