Að auka hreyfingu í daglegu lífi – Pistill frá Víði Þór íþróttafræðingi

Víðir Þór er íþróttafræðingur og heilsunuddari sem hefur um árabil starfað sem þjálfari og hjálpað fólki að bæta heilsu og lífsstíl.

Hann leggur mikið uppúr því að huga þurfi að bæði líkamlegri og andlegri heilsu og næring er honum hjartans mál.

Hann deilir hér með okkur nokkrum góðum ráðum og hugleiðingum um mikilvægi hreyfingar í daglegu lífi. 

Gefum Víði orðið:

Góð vísa er aldrei of oft kveðin, það ætti að vera öllum ljóst að við erum sköpuð fyrir hreyfingu og tækniþróun undanfarinna ára hefur auðveldað mörgum störf sín en spurning er hvort það sé alltaf til góðs.

Það er til að mynda alveg á hreinu að skrifborðsstóllinn getur verið skaðvaldur sé litið til lengri tíma. Ekki aðeins getur of mikil seta valdið vöðvabólgu, spennu og verkjum í stoðkerfi heldur einnig aukið líkur á offitu, áunninni sykursýki og hjarta og æðasjúkdómum.

Okkur er ekki ætlað að sitja eins og rækja allan daginn. Ráðlagt er að standa upp á 20 mín fresti eða 3x á klukkutíma yfir daginn. Ágætt getur verið að standa upp og rétta úr sér, ganga eftir vatnsglasi og passa að hafa prentarann í öðru herbergi og helst á annarri hæð.

Ýmislegt er síðan hægt að gera til að auka hreyfingu í daglegu lífi. T.d að ganga eða hjóla í vinnuna eða þá að leggja bílnum í góðri fjarlægð frá vinnustaðnum. Nota svo að sjálfsögðu stigann.

Á kvöldin er gráupplagt að taka göngutúr eftir matinn en það hefur sýnt sig í bættri meltingu og efnaskiptum svo minni líkur eru á fitusöfnun þá fátt eitt sé nefnt.

Ofan á aukna daglega hreyfingu hvet ég alla til að stunda fjölbreytta líkamsrækt amk 3x í viku. Hægt er að fá sér kort t.d í World Class og mæta í hóptíma eða fá sér einkaþjálfara og fá æfingaáætlun þar sem markvisst er unnið með þol, liðleika og styrk.

Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum, ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, er óvíst að heilsan hafi tíma fyrir þig á morgun

Kv. Víðir Þór

Íþróttafræðingur og heilsunuddari