Þessar einföldu og gómsætu pönnukökur eru tilvaldar sem léttur kvöld- eða hádegismatur. Hægt að fylla með hverju sem hugurinn girnist! Uppskriftin kemur frá Önnu Guðnýju hjá Heilsa og vellíðan.
Kjúklingabaunapönnukökur
- 2 dl kjúklingabaunahveiti
- 2 dl vatn
- 1/4 tsk túrmerik
- 1/4 tsk hvítlauksduft
- gróft salt
- Hrærðu saman öllum innihaldsefnunum með písk þar til að þetta er kekkjalaust.
- Hitaðu pönnukökupönnu á eldavélinni á meðalhita.
- Pennslaðu pönnuna með kókosolíu og dúmpaðu létt yfir með viskustykki eða pappír svo að pannan sé ekki alveg löðrandi í olíu.
- Austu deiginu á pönnuna og fjarlægðu hana af með pönnukökuspaða þegar hún er tilbúin. Það þarf alls ekki að snúa pönnukökunni við til að baka hana hinum megin.
Sinnepsósa
- 180 g kasjúhnetur
- 200 ml vatn
- 1/2 msk sítrónusafi
- 1 tsk eplaedik
- 1/4 tsk gróft salt
- 3 tsk sinnep
- 3 tsk hlynsíróp
- 1/2 tsk ítölsk kryddblanda frá pottagöldrum
- Skelltu öllum innihaldsefnunum saman í litla matvinnsluvél og blandaðu saman þar til að þetta er orðið silkimjúkt.
Fyllingin:
Ég bakaði portobello sveppi og brokkolí í ofni með ólífuolíu og salti. Síðan blandaði ég þessu saman við hýðishrísgrjón og sólþurrkaða tómata. Auk þess skellti ég lambhagasalati, kóríander og silkimjúku avacado inn í sem að setti alveg punktinn yfir i-ið. En ég hvet þig til að nota það grænmeti sem að þú átt hverju sinni, ekki flækja hlutina að óþörfu.
Uppskrift og myndir eru í eigu Önnu Guðnýjar Torfadóttur.