Ómótstæðileg vegan hátíðakaka sem gælir við bragðlaukana

Þessi kaka er algjör bomba! Hún er líka vegan, inniheldur mun minni sykur og MIKLU meiri næringu en þessar „venjulegu“ kökur.

Uppskriftin er einföld en framkvæmdin er pínu föndur svo við mælum með að lesa uppskriftina vel áður en hafist er handa.

Þessi vegan hátíðakaka er alveg tilvalin í afmælisveisluna, jólaboðið eða hvenær sem þú vilt gera vel við þig og þína.

Botn:

 • 200 gr ristaðar heslihnetur
 • 50 gr haframjöl
 • 5 msk möndlusmjör
 • 4 msk hrákakó
 • 3 msk kókosolía
 • 150 gr döðlur
 • Smá gæðasalt
 1. Ristaðu heslihnetur við 150°C á blæstri í 10-15 mínútur. Láttu þær kólna og nuddaðu svo af þeim hýðið.
 2. Settu nú allt í matvinnsluvél og láttu hana vinna þar til allt er fínmalað og hefur blandast vel saman
 3. Þjappaðu botninum lauslega ofan í smelluform með höndunum. Settu hann svo inn í frysti.

Grunnur að fyllingu:

 • 400 gr kasjúhnetur
 • 200 ml kókosolía, brædd
 • 250 gr kókosjógúrt frá Abbot Kinney´s (fæst í Nettó)
 1. Best er að leggja kasjúhnetur í bleyti yfir nótt (eða minnst 4 tíma), skola svo.
 2. Settu allt saman í blandara og láttu hann vinna þar til blandan er silkimjúk.
 3. Settu grunninn í skál til hliðar

Vanillulag:

 • 330 gr af grunninum
 • 50 ml möndlumjólk (eða önnur plöntumjólk)
 • 2,5 msk hlynsíróp
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 1/3 tsk vanilluduft
 • 1 tsk kakósmjör, brædd
 • Smá klípa af gæða salti
 1. Allt hrært vel saman (best að nota blandarann) og síðan dreyft jafnt yfir botninn.
 2. Stingdu forminu aftur inn í frysti þar til vanillulagið hefur stífnað aðeins.

Kakólag:

 • 270 gr af grunninum
 • 6 msk hrákakó
 • 4 msk hlynsíróp
 • 50 ml möndlumjólk
 • 2 tsk kakósmjör, brætt
 • Smá klípa af gæðasalti
 1. Öllu hrært vel saman (best að nota blandarann) og síðan dreyft jaft ofan á vanillulagið.
 2. Stingdu forminu aftur inn í frysti þar til kakólagið hefur stífnað aðeins.

Berjalag:

 • 100 gr frosin jarðaber, látin þiðna
 • 100 gr frosin bláber, látin þiðna
 • 200 gr af grunninum
 • 1 msk hlynsíróp
 • Smá klípa af gæðasalti
 1. Settu frosnu berin í sigti yfir skál og leyfðu þeim að þiðna alveg og mesta vökvanum að leka af þeim. Láttu samt vera að kremja þau eða kreista.
 2. Settu nú allt saman í blandara og dreyfðu svo ofan á kakólagið.
 3. Stingdu kökunni nú aftur inn í frysti og leyfðu henni að frosna í gegn.
 4. Nú er hún tilbúin til að njóta. Best er að geyma hana í frysti og taka hana út 10-20 mínútur áður en hún er borin fram.
 5. Sniðugt er að skera hana í sneiðar og frysta hana þannig. Þá getur þú tekið út eina og eina sneið til að njóta.

Uppskrift og myndir eru eign og sköpun Önnu Guðnýjar Torfadóttur hjá Heilsa og Vellíðan. Hvorugt má afrita til opinberrar birtingar nema með hennar leyfi.