Gómsætar vegan súkkulaðibitakökur

Þessar ómótstæðilega stökku súkkulaðibitakökur koma úr smiðju Önnu Guðnýjar hjá Heilsa og Vellíðan. Þær eru allt sem smákökur eiga að vera án þess að stofna heilsunni í hættu.

Svo eru þær líka vegan, sniðugt ef þú ert að veganvæða líf þitt.

Innihald:

 • 2 msk möluð chiafræ + 4 msk vatn
 • 6 dl haframjöl
 • 2 dl möndlumjöl
 • 1,5 dl kókospálmasykur
 • 1 dl kókosolía
 • 2 dl möndlusmjör
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk eplaedik
 • 150 ml möndlumjólk
 • 1/4 tsk vanilluduft
 • 1/2 tsk gróft salt
 • 40 gr ristaðar kasjúhnetur
 • 100 gr 70% saxað vegan súkkulaði

Aðferð:

 1. Malaðu chiafræin í kaffikvörn og pískaðu þau saman við vatnið. Settu til hliðar.
 2. Settu haframjöl, möndlumjöl og kókospálmasykur í matvinnsluvél og láttu hana vinna þar til haframjölið verður að fíngerðu mjöli.
 3. Bættu nú öllu nema súkkulaðinu útí, líka chiagelinu og láttu vélina vinna þetta vel saman.
 4. Ef deigið hefur hitnað skaltu kæla það aðeins áður en þú bætir söxuðu súkkulaðinu saman við.
 5. Mótaðu svo smákökur og raðaðu þeim á bökunarplötu – gott að móta kúlur og fletja þær út með lófanum
 6. Bakaðu nú í 180°C heitum ofni með blæstri í 15-20 mínútur. Taktu þær svo út og leyfðu þeim að kólna alveg áður en þú hreyfir við þeim.