Gleymum ekki að teygja

Einn vanmetnasti þátturinn í heilsuræktinni að mínu mati eru teygjur. Alltof margir láta þær mæta afgangi, teygja í mesta lagi í 5 mínútur að æfingu lokinni. Slíkt er ekki til þess fallið að auka liðleikann, í besta falli viðheldur það þeim liðleika sem fyrir var en tæplega þó. Æskilegra er að gefa sér lengri tíma til að teygja eftir æfingar og nota þann tíma í leiðinni til að slaka á. Það er einmitt það sem teygjur m.a skila af sér, djúpslökun, losa um líkamlega og andlega spennu. Teygjur auka liðleika og hreyfanleika, stuðla að bættri samhæfingu, bæta árangur í líkamlegri áreynslu, svo sem í ræktinni og almennt í íþróttum og vinna gegn meiðslum.

Ræktin er samt ekkert eini staðurinn til að teygja á. Flestir hafa séð ketti standa upp eftir að hafa lagt sig, það fyrsta sem þeir gera er að teygja. Skynsemisverur. Það er í raun hægt að teygja hvar sem er. Fínt að teygja eða í það minnsta rétta vel úr sér á morgnana. Standa upp frá skrifstofuborðinu, anda djúpt, tæma hugann og taka léttar teygjur. Einnig bara þegar spenna gerir vart við sig og jafnvel fyrir framan sjónvarpið, nýta tímann í leiðinni í eitthvað gagnlegra.

Allir ættu að teygja, óháð aldri og ástandi. Hins vegar er mikið atriði að teygja rétt og allaf skal fara stigvaxandi inn í teygjuna, ekki bara rykkja og hamast, það gerir ekkert gagn. Sér í lagi ef vöðvarnir eru kaldir, eins og þegar við vöknum eða erum búin að sitja lengi við skrifborðið. Þá er bara að fara létt af stað og anda sig í gegnum teygjuna. Upp að sársaukamörkum, ekki þar yfir.

Eftir æfingar hins vegar má alveg teygja dýpra. Þá er gott að byrja eins og ég lýsti hér að ofan, fara alveg að sársaukamörkum og smám saman að færa mörkin, s.s ná að anda inn í teygjuna svo hægt sé að komast lengra og lengra. Þumalputtaregla í tímalengd hverrar teygjur er 30 sek. Ég tel þó árangursríkara að hlusta bara á líkamann, hlusta á hvern vöðva fyrir sig, halda teygju og finna slökunina alveg óháð tíma og njóta.

Ef einhver setur sér það markmið að auka liðleika sinn verulega eru þessar 5 mín sem ég nefndi í upphafi ekki leiðin til þess. Miklu frekar að gefa sér 20-30 mín í markvissar og góðar teygjur. Æfingin í heild sinni gæti þá hljóðað upp á 40-50 mín, þá væri byrjað á 20 mín upphitun sem í senn er brennsla og þolþjálfun, t.d á krosstrainer, hjóli eða á bretti. Síðan 1 mín á hver vöðva eða vöðvahóp 3 sett.

Alla jafna eru æfingar í ræktinni í kringum 60 mín, þar af 5-10 mín í upphitun og kannski 5 mín í teygjur í lokin. Eftir stendur 45-50 mín í lyftingar, sem eru frábærar og gagnlegar en gera vöðvana klárlega stífa. Gefum okkur tíma í teygjur og verum meðvituð um eigin heilsu í dag og alla daga.

Hafið það alltaf sem best

Kv. Víðir Þór

Íþrótta-og heilsufræðingur