Bragðmikill og vermandi linsubaunaréttur

Þessi er alveg tilvalinn þegar kalt er úti og skammdegið þrengir að. Þetta er líka svona réttur sem er snilld að búa til í stórum potti og eiga afganga.

Rétturinn er úr smiðju Önnu Guðnýjar hjá Heilsa og Vellíðan. Vegan og laus við allt rusl að sjálfsögðu 🙂

Gefum Önnu orðið:

„Ef ég á að vera hreinskilin þá hafa baunir og baunaréttir aldrei hljómað neitt sérstaklega spennandi í mínum eyrum. En þegar að kalt er í veðri og mig langar í eitthvað vermandi fyrir kroppinn þá eru svona baunaréttir einmitt orðið eitt af því besta sem ég fæ. Ég elska að gera stóran skammt og eiga hann til að borða jafnvel næstu tvo daga – Svo mikil er ást mín orðin á baunapottréttum og viðhorf mitt til bauna hefur gjörbreyst.

Þessi linsubaunapottréttur sem ég ætla að deila með þér núna er í mjög miklu uppáhaldi á mínu heimili. Hann er svo ótrúlega góður þó ég segi sjálf frá. Einnig er hann einfaldur í undirbúningi og tekur ekki langan tíma að útbúa hann. Það má útfæra hann á ýmsa vegu en hann er ljúffengur einn og sér með fersku salati og jafnvel smá kasjúsósu yfir. Hann mun líka setja punktinn yfir i-ið í næstu mexíkóveislu og er fullkominnn í vefjur eða taco skeljar.“

Linsubaunapottréttur

  • 2,5 dl brúnar linsubaunir
  • 4 dl vatn
  • 400 g kartöflur
  • 200 g rauð paprika
  • 100 g rauðlaukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 kókosmjólk
  • 2 tsk harissa mauk
  • 2 tsk paprikuduft
  • 7 msk næringarger
  • 3 msk tamarisósa
  • 1/2 tsk gróft salt
  1. Byrjaðu á því að skella kartöflunum í pott og sjóða þær. Þegar að þær eru eldaðar skalt þú kæla þær undir köldu vatni og skera þær gróft niður.
  2. Næst skalt þú skola brúnu linsubaunirnar og setja þær í pott ásamt vatninu og láta suðuna koma upp. Lækkaðu síðan hitann og leyfðu þeim að malla í 20 mínútur. Þegar að linsubaunirnar hafa mallað í 20 mín skalt þú hella vatninu af þeim og setja þær til hliðar.
  3. Því næst skalt þú steikja rauðlaukinn upp úr smá vatni og bæta síðan paprikunni, hvítlauksrifinu, kókosmjólkinni, harissa maukinu, paprikuduftinu, næringargerinu, tamarisósunni og saltinu saman við.
  4. Bættu svo brúnu linsubaununum saman við. Leyfðu þessu að malla áfram þar til að þær eru alveg eldaðar eða í um 15-20 mín.
  5. Þegar að rétturinn er að verða klár þá bætir þú kartöflunum saman við og leyfir þeim að ná hita í réttinum.

„Þessi uppskrift er fyrir ca. 4 manns og er upplagt að stækka hana ef fleiri eru í mat. Einnig er mjög sniðugt að taka hluta af pottréttinum og frysta í krukkum. Þá áttu til tilbúnar máltíðir í frystinum til að grípa í þegar að ekki gefst tími til að útbúa næringarríka og góða máltíð.“