Gerum við of miklar kröfur?

Ég hef áður skrifað um þakklæti, þar sem ég hvatti alla (ekki síst sjálfan mig) að hætta að kvarta og kveina og vera þakklát. Þegar ég var að skrifa þetta var ég alltaf að rifja upp að einhversstaðar hafði ég lesið um eitthvað svipað. Ég fór að glugga í bókastóðinu heima og fann loksins skræðuna en hún ber nafnið „Í dag“ með undirtitlinum: ,,Um lífið, tilveruna og trúna. Hugleiðingar 366 Íslendinga.“ Ein hugleiðing á dag eða svo frá afmælisbarni. Þann 9. mars á Páll Ágúst Ólafsson afmæli og hann skrifaði skemmtilega smásögu sem heitir ný sýn með undirtitlinum: Gerum við of miklar kröfur? Hún hljómar svona.

Ég sit í gömlum, ryðguðum bíl. Sætið er óþægilegt. Mér finnst skrítin lykt af fólkinu í kringum mig. Ég reyni að tala við það, en það skilur mig enginn.

Hitinn er óbærilegur. Það er engin loftkæling. Bíllinn skröltir eftir holóttum veginum.

Sebrahesturinn sem ég borðaði í gær fór illa í magann á mér. Farsíminn virkar ekki. Ég hef ekki komist í tölvupóstinn í marga daga. Vísakortið gildir hvergi.

Hvar get ég séð enska boltann? Ég er á ferð um Afríku. Það er allt ómögulegt. Hvernig datt mér í hug að fara í þessa ferð?

Mér verður litið út um bílgluggann.

Í vegarkantinum situr hálfnakið barn. Það leikur sér með tvo litla steina.

Barnið brosið og hlær af gleði.

Ég hætti að kvarta.

 

Birt með Góðfúslegu leyfi Páls Á. Ólafssonar

Með gleði og þakklæti

Víðir Þór