Ómótstæðileg vegan hrákaka sem er hinn fullkomni eftirréttur

Jólabomban í ár er í boði Önnu Guðnýjar hjá Heilsa og vellíðan. Sjúklega girnileg vegan hrákaka sem mun slá í gegn á hvaða veisluborði sem er.

Hún er bæði falleg, góð og tiltölulega einföld en við mælum með að þú lesir leiðbeiningarnar vel 😀

Botn

 • 100g haframjöl
 • 2 msk kókospálmasykur
 • 3 döðlur
 • 3 msk bráðin kókosolía
 • gróft salt
 1. Byrjaðu á því að setja plastfilmu eða bökunarpappír í formið sem þú ætlar að nota fyrir kökuna.
 2. Næst skalt þú setja öll innihaldsefni botnsins saman í matvinnsluvél. Settu blönduna svo í botninn á forminu og þjappaðu aðeins niður, en alls ekki of mikið samt. Settu þetta síðan í frysti.
 3. Skerðu niður fersk jarðaber og settu á botninn þegar að hann er orðinn frosinn. Settu þetta síðan aftur í frysti.

Vanillulag

 • Þykkni úr 1 dós af kókosmjólk, fryst í 2 klst fyrir notkun
 • 70g kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2-3 klst
 • 2 msk kókosolía
 • 3 msk hlynsíróp
 • 1 msk kakósmjör
 • ½ tsk vanilluduft
 • ¼ tsk salt

Því næst skalt þú gera vanillublönduna með því að setja öll innihaldsefnin saman í blandara. Blandaðu vel og lengi. Þegar að blandan er orðin silkimjúk hellir þú henni á botninn og setur kökuna aftur í frysti.

Karmellusósa

 • 50 g kókosolía
 • 40 g kókospálmasykur
 • 100 ml milkadamiamjólk, ósæt (eða önnur plöntumjólk)
 • 1/4 tsk vanilluduft
 • 1/6 tsk salt

Settu öll innihaldsefnin saman í pott á lágum hita og leyfðu þessu að bráðna öllu saman. Hækkaðu aðeins hitann og leyfðu þessu að malla í svolitla stund. Hrærðu reglulega í sósunni svo hún brenni ekki við. Leyfðu sósunni svo að kólna og verða við herbergishita.

Áður en að þú setur karamellusósuna á kökuna er mikilvægt að kakan sé ekki of köld því að þá skilur karamellan sig þegar að hún snertir kökuna. Ég mæli með að þú látir kökuna standa í 40-60 mínútur áður en þú setur karamelluna á hana og prufir fyrst að setja smá karamellu áður en þú setur hana alla á til að sjá hvernig hún verður þegar hún kólnar á kökunni. Síðan myndi ég setja kökuna aðeins aftur í frysti áður en þú berð hana fram ef að hún hefur þiðnað of mikið. Kakan verður svo í fínu lagi eftir það.

Gott er að bera kökuna fram með ristuðum heslihnetum, það fullkomnar hana algjörlega!

Allar myndir og uppskriftin eru í eigu Önnu Guðnýjar Torfadóttur