Bætiefni á meðgöngu

Þetta er eitthvað sem allar verðandi mæður velta fyrir sér.

Flestar vita þetta með fólatið eða fólinsýruna enda eru það opinberlegar ráðleggingar að taka það bæði fyrir getnað og á fyrsta þriðjungi meðgöngu til að koma í veg fyrir fæðingargalla.

Þar að auki er barnshafandi konum, eins og öllum, ráðlagt að taka inn D vítamín.

Sumar þurfa svo að taka inn járn, sérstaklega á síðari hluta meðgöngu en það er metið með blóðprufu.

Gott og fjölbreytt mataræði er auðvitað númer eitt, tvö og þrjú á meðgöngu og ekkert bætiefni kemur í stað þess. Það eru samt að mínu mati nokkur bætiefni sem getur verið gott að taka daglega og önnur eftir þörfum.

Daglega fyrir getnað og á meðgöngu:

  • Gott meðgöngu fjölvítamín – sem er sérhannað fyrir meðgöngu, með annað hvort beta karotíni í stað A vítamíns eða lágu hlutfalli A vítamíns og a.m.k. 400mcg af fólati í dagsskammti. Að mínu mati er sniðugra að taka inn fjölvítamín með fólati frekar en fólat eitt og sér. Þó að rannsóknir hafi leitt í ljós að fólat komi í veg fyrir ákveðna fæðingargalla þá er gott að B vítamínin séu tekin saman og séu í jafnvægi því þau vinna öll saman. Nýleg rannsókn bendir t.d. til þess að B3 vítamín geti líka verið ákaflega mikilvægt fyrir eðlilegan fósturþroska svo mér finnst sniðugt að baktryggja sig með góðri alhliða blöndu. Á meðgöngu er matarlyst oft lítil og skrítin og ógleði algeng. Þá er gott að taka inn daglega alhiða vítamínblöndu sem smá baktryggingu. Prenatal fjölvítamínið frá Terranova er í sérstöku uppáhaldi hjá mér.
  • D vítamín – við hér á norðurhjara þurfum að taka D vítamín helst árið um kring til að líða ekki skort. Gott er að taka a.m.k. 1000 AE á dag.
  • Omega 3 – DHA fitusýran er sérlega mikilvæg fyrir barnið. Passaðu að velja tegund sem inniheldur lítið eða ekkert A vítamín. Hafðu bakvið eyrað að að ráðlagður dagsskammtur af A vítamíni er 800mcg.

Eftir þörfum:

  • Járn – nauðsynlegt fyrir sumar konur, einkum á seinni hluta meðgöngu og eftir fæðingu. Ég mæli með að velja járn sem fer vel í magann. Barnshafandi konur mega oft síst við járntöflum sem valda hægðatregðu. Í heilsubúðum og apótekum er til gott úrval mildara járns, t.d. hefur Floradix mixtúran lengi verið vinsæl.
  • Magnesíum – Ég hefði ekki viljað vera án þess á minni meðgöngu en það getur linað mörg helstu óþægindi meðgöngunnar: hægðatregðu, fótapirring og svefntruflanir. Rannsóknir hafa líka bent til þess að inntaka magnesíums á meðgöngu geti dregið úr líkum á því að fá háþrýsting á meðgöngu. Magnesíum sítrat að kvöldi hefur reynst mörgum vel.
  • Góðgerlar fyrir meltinguna – Ef meltingin er að stríða getur góð gerlablanda komið sér vel. Það er mikilvægt að þarmaflóran sé í jafnvægi þegar kemur að fæðingunni þegar barnið fær sinn fyrsta gerlaskammt. Mataræðið skiptir auðvitað höfuðmáli hvað það varðar. Nóg af grænmeti, ávöxtum og trefjum og lítið af sykri og unninni matvöru eru í grófum dráttum það sem heilbrigð þarmaflóra vill.

Annað ætti að vera óþarfi ef mataræðið er gott. Við viljum hafa þetta einfalt á meðgöngunni og frekar minna en meira, tökum ekki sénsa með eitthvað sem er ekki 100% öruggt. Ég mæli með því að ræða inntöku bætiefni við lækni, ljósmóður eða næringarráðgjafa ef þú ert í einhverjum vafa.