Hugurinn er stærsta hindrunin og sterkasta vopnið

Bestu ráðin eru stundum þessi sem við viljum helst ekki heyra því þau fela ekki í sér töfralausn.

Eitt besta ráð sem ég hef fengið um ævina er frekar einfalt í rauninni þó það geti vafist fyrir manni að tileinka sér það.

Breyttu aðstæðum eða breyttu hugarfari

Ef þú ert ósátt/ur við eitthvað í lífinu, langar að breyta einhverju eru í raun bara tvær lausnir. Að breyta aðstæðum eða breyta hugarfari. Oft reyndar blanda af báðu og þetta er einföldun en ég skal útskýra.

Ef þú ert í aðstæðum sem þér líður ekki vel í, stígðu þá út úr þeim ef það er mögulegt. Ef þú ert í slæmu sambandi sem þér líður ekki vel í og langar ekki að vinna í að bæta, slíttu því. Ef þig langar að hætta í vinnunni, gerðu það. Ef þig langar að breyta mataræðinu, gerðu það.

Bara þú getur tekið þessar ákvarðanir en þetta er kannski ekki alveg svona einfalt!

Flestir geta ekki leyft sér að hætta í vinnunni án þess að vera búnir að finna aðra vinnu fyrst og ég myndi seint ráðleggja einhverjum að umbylta mataræðinu á einni nóttu.

Stundum getum við ekki gert neitt til að breyta aðstæðum og þá verðum við einfaldlega að breyta hugarfarinu til að halda geðheilsunni. Þetta þurfa allir foreldrar t.d. að gera margoft í uppeldinu. Stundum langar mann að labba út þegar barnið hættir ekki að gráta eða sefur ekkert, bara til að fá smá hvíld. Oft finnast engar ástæður fyrir óværðinni og þá er eina leiðin að sætta sig við aðstæður og muna að þetta er bara tímabil sem líður hjá. Erfitt en nauðsynlegt og ætti enginn að hika við að leita sér hjálpar í slíkum aðstæðum.

Oftast er þetta ekki svona svart eða hvítt. Þegar kemur að lífstílsbreytingum er þetta bland af báðu. Þú getur ekki umbylt heilsunni, útlitinu eða mataræðinu á einni nóttu en þú getur tekið ákvörðunina strax.  Svo þarftu að sætta þig við að þetta er hörkuvinna. Þú þarft að gefa þér tíma til að hreyfa þig og að breyta mataræði felur í sér mikla hugarfarsbreytingu og heilmikla æfingu.

Lykilatriði er að setja sér raunhæf markmið, taka minni skref og líta á þetta sem varanlega breytingu en ekki skyndilausn. Það er líka mikilvægt að detta ekki í 100% hugsunarháttinn. Þú þarft ekki að vera fullkomin/n og það er allt í lagi að sleppa stöku æfingu eða fá sér stundum súkkulaði eða kökusneið. Þetta snýst allt um jafnvægi.

Lífstílsbreyting er hugarfarsbreyting

Í upphafi sagði ég að hugurinn væri stærsta hindrunin og sterkasta vopnið. Oftast getum við svo miklu meira en hugurinn segir okkur. Það þarf bara stundum að þjálfa hugann aðeins til að trúa því. Þá gerast töfrarnir. Oft þurfum við smá hjálp og að því er engin skömm. Við erum hérna til að hjálpast að og vinna saman.

Ég mæli eindregið með því að fá eins mikla hjálp og hægt er. Stuðningur frá fjölskyldunni er ómetanlegur svo hafðu þína nánustu með í plönunum. Ekki hika við að leita líka til fagaðila. Hvort sem það er næringarráðgjafi, sálfræðingur, einkaþjálfari, læknir, markþjálfi, sjúkraþjálfari eða aðrir getur það reynst afar vel af hafa eitthvað skipulag og utanumhald sem hjálpar þér að halda þig við plönin.

 

Nokkur góð ráð til þeirra sem ætla að bæta mataræðið á nýju ári

Passaðu uppá fjölbreytnina

Undirbúðu breytinguna vel og ekki taka út heilu fæðuflokkana án þess að gera þér grein fyrir hvað á að koma í staðinn.

Borðaðu meira grænmeti

Grænmeti ætti að vera uppistaða máltíða. Helmingur disksins er gott viðmið. Auktu líka fjölbreytina og prófaðu nýjar tegundir og sem flesta liti. Þannig nærðu sem mestri breidd næringarefna.

Góð leið til að borða meira grænt er t.d. að setja spínat eða grænkál í þeytinginn eða búa til pestó úr klettakáli, spínati, grænkáli og kryddjurtum.

Borðaðu fitu

Hver einasta fruma líkamans þarf góða fitu svo alls ekki hætta að borða fitu. Þá er ég að tala um feitan fisk, hnetur, fræ, kaldpressaðar olíur og kókosolíu. Ekki unnar eða hertar jurtaolíur, kökur og kex, slepptu því 😊

Passaðu blóðsykurinn

Að koma blóðsykrinum í jafnvægi getur skilað sér í meiri orku, betra skapi og þyngdartapi. Borðaðu eitthvað prótín með hverri máltíð, fáðu nóg af góðri fitu og reyndu að forðast sykur eins og þú getur. Ef þú blandar saman prótíni, kolvetnum og fitu í hverri máltíð endist hún þér lengur, blóðsykurinn helst jafnari og minni hætta er á að orkan hrynji og líkaminn öskri á skjótfengna orku í formi súkkulaðistykkis eða gosdrykkja.

Drekktu vatn!

Ég veit að þú veist þetta en það þarf alltaf að minna á þetta einfalda en ómissandi atriði. 1,5-2 lítrar á dag, meira ef þú hreyfir þig.

Ekki fá þetta á heilann

Passaðu að mataræðið verði ekki enn einn stressvaldurinn! Sýndu þér þolinmæði og skilning því enginn getur og enginn á að vera fullkominn. Góðir hlutir gerast hægt og það er yfirleitt betra að taka stutt skref frekar en að umbylta öllu á einni nóttu.