Ófrjósemi

Ófrjósemi er yfirleitt skilgreind sem árangurslausar tilraunir til þungunar þegar regluleg kynmök hafa verið stunduð í eitt ár án getnaðarvarna. Þá er ófrjósemi einnig notað yfir ítrekaðan fósturmissi. Jafn fullkomin og náttúran er, þá þarf afar margt að ganga upp til að getnaður eigi sér stað og eru frjósemisvandamál mun algengari en við gerum okkur grein fyrir. Í Bandaríkjunum er t.d. talið að eitt af hverjum fimm pörum eigi við þennan vanda að stríða.

Konur

Orsakir

Vegna þess hve flókið og viðkvæmt ferli getnaður er, geta ástæður fyrir ófrjósemi verið æði margar. Hjá konum eru algengustu orsakirnar brestur á egglosi, stíflaðir eggjaleiðarar, legslímuvilla (endometriosis) og góðkynja bandvefsæxli í legi. Sumar konur geta einnig myndað mótefni gegn sæði maka síns, fá í raun ofnæmi fyrir þeim. Ýmis hormónavandamál eru einnig algeng hjá konum sem ekki geta orðið barnshafandi, þar á meðal vanvirkur skjaldkirtill.

Þar sem fita er eitt helsta byggingarefni hormóna geta mjög grannar konur stundum átt í erfiðleikum með að verða barnshafandi.1 Þetta á einna helst við um konur sem eru langt undir kjörþyngd og/eða með lystarstol (anorexíu). Vegna fitu- og næringarskorts raskast öll eðlileg líkamsstarfsemi, þar með talinn tíðahringurinn.

Konur sem reykja draga verulega úr möguleika sínum á að verða barnshafandi.2 Einnig hefur verið rannsakað að dætur kvenna sem reyktu á meðgöngunni eigi erfiðara með að verða barnshafandi en dætur þeirra kvenna sem ekki reyktu.3 Rannsóknir benda til að neysla á áfengum drykkjum, jafnvel í hófi, auki hættu á ófrjósemi.4 Þó fengust aðrar niðurstöður úr öðrum hliðstæðum rannsóknum.5

Einkenni

Einkenni ófrjósemi eru yfirleitt ekki ljós og uppgötvast vandamálið oftast ekki fyrr en eftir þrotlausar tilraunir til getnaðar.

Karlar Orsakir

Hjá körlum eru algengustu orsakirnar fyrir ófrjósemi fáar sæðisfrumur í sáðvökva, gallaðar sáðfrumur eða skert hreyfihæfni þeirra. Í einstaka tilfellum liggur vandamálið í meðfæddum göllum.

Ákjósanlegasta hitastig fyrir sáðfrumur er örlítið lægra en líkamshiti. Ekki að ástæðulausu eru eistun fyrir utan líkamann. Þröng (nær)föt auka líkur á sæðisvandamálum, sér í lagi hreyfihæfni sáðfrumna, því við háan hita letjast þær og ná ekki að synda á áfangastað.

Í rannsókn sem gerð var á mönnum með mikið af gölluðum sáðfrumum, var sýnt fram á að óhófleg áfengisdrykkja hafði verulega dregið úr framleiðslu á eðlilegum frumum.6 Í annarri rannsókn sem gerð var á dönskum gróðurhúsabændum sem stunduðu lífræna ræktun á ávöxtum og grænmeti kom í ljós að hjá þeim var fjöldi sáðfruma meira en tvöfalt hærri en hjá bændum sem notuðu eiturefni á uppskeru sína.7 Vitað er að sum eiturefni sem notuð eru við ræktun draga úr frjósemi.

Reykingar hafa líkt og hjá konum neikvæð áhrif á frjósemi.8 Einnig getur notkun á fíkniefnum s.s. maríjúana, kókaíni og hassi bæði dregið úr framleiðslu sáðfruma og gæðum þeirra.9,10

Einkenni

Líkt og konur verða karlar sjaldan varir við líkamleg einkenni eigi þeir við frjósemisvandamál að stríða. Það skal tekið fram að getuleysi er ekki sama og ófrjósemi, getulaus karlmaður getur hæglega verið frjór, þó hann eigi í erfiðleikum með að halda limnum reistum.

Sameiginlegir þættir

Skortur á seleni og E-vítamíni hefur verið tengdur við ófrjósemi hjá báðum kynjum og í rannsókn sem gerð var á dýrum var sýnt fram á að skortur á E-vítamíni leiddi til ófrjósemi.11 Í annarri rannsókn sem gerð var á ófrjóum pörum jókst frjósemin til muna eftir að þau höfðu tekið inn E-vítamín í nokkurn tíma.12 Einnig er talið að koffín geti truflað getnað.13,14,15,16,17

Hjá báðum kynjum geta kynsjúkdómar, eins og t.d. klamidía, valdið ófrjósemi. Sálrænir þættir s.s. streita og kvíði hafa einnig mikið að segja. Lyf geta einnig haft áhrif á frjósemi hjá báðum kynjum en tekið skal fram að allar breytingar á lyfjatöku ætti aðeins að gera í samráði við lækni.

Hvað er til ráða?

Mikilvægt er að draga úr streitu og kvíða og er það hægt t.d. með því að læra slökun og jafnvel stunda jóga. Forðast ætti þó að stunda stífa líkamsrækt þar sem það getur truflað egglos og dregið úr sæðisframleiðslu. Karlmenn ættu einnig að forðast að ganga í þröngum (nær)fötum, einnig forðast gufuböð og mjög heit böð yfirleitt.

Mataræði

Koffín er að finna í kaffi, sumum gosdrykkjum og mörgum orkudrykkjum. Í svörtu og grænu tei er efni sem líkist koffíni og í súkkulaði er líka að finna koffínskylt efni. Þessi efni hafa örvandi áhrif á líkamann og geta því truflað svefn og aukið á streitu. Konum sem eru að reyna að verða barnshafandi er því bent á að draga úr neyslu á vörum sem innihalda koffín og/eða skyld efni.

Bætiefni

Skortur á seleni hefur verið tengdur við ófrjósemi.

E-vítamín bætir flutning súrefnis um allar æðar líkamans (sérstaklega kynfæra!) og er nauðsynlegt fyrir eðlilega hormónaframleiðslu.

Fitusýrur stjórna einnig hormónastarfsemi og -framleiðslu. Rannsóknir standa yfir á því hvort Omega-3 fitusýrur, einkum DHA geti hindrað eða dregið úr ófrjósemi karla.

C-vítamín gegnir mikilvægu hlutverki í sæðisframleiðslu (reykingar eyða C-vítamíni úr líkamanum!!). Það fyrirbyggir að sáðfrumurnar kekkist og eykur hreyfihæfni þeirra.

Sínk er afar nauðsynlegt fyrir eðlilega starfsemi kynfæranna. 26 vikna tvíblind rannsókn leiddi í ljós að framleiðsla sáðfruma batnaði verulega hjá mönnum með lélega sæðisframleiðslu þegar þeir tóku inn
sink og fólínsýru saman. Hvort bætiefni út af fyrir sig virtist ekki gagnast, en saman voru þau mjög virk.18

Járn og B-12 þurfa að vera í réttu jafnvægi til að líkaminn geti haldið uppi eðlilegri blóðframleiðslu.

Margir kjósa að reyna fyrst náttúrlega hjálp, áður en leitað er á náðir hormónalyfja eða glasafrjóvgunar. Rétt er að leita til læknis ef grunur leikur á frjósemisvanda.

Heimildir

1.   Green BB, Weiss NS, Daling JR. Risk of ovulatory infertility in relation to body weight. Fertil Steril 1988;50:621-6.

2.   Howe G, Westhoff C, Vessey M, Yeates D. Effects of age, cigarette smoking, and other factors on fertility: findings in a large prospective study. BMJ 1985;290:1697-9.

3.   Weinberg CR, Wilcox AJ, Baird DD. Reduced fecundability in women with prenatal exposure to cigarette smoking. Am J Epidemiol 1989;129:1072-8.

4.   Grodstein F, Goldman MB, Cramer DW. Infertility in women and moderate alcohol use. Am J Public Health 1994;84:1429-32.

5.   Florack EIM, Zielhuis GA, Rolland R. Cigarette smoking, alcohol consumption, and caffeine intake and fecundability. Prev Med 1994;23:175-80.

6.   Goverde HJM, Dekker HS, Janssen HJG, et al. Semen quality and frequency of smoking and alcohol consumption – an explorative study. Int J Fertil 1995;40:135-8.

7.   Abell A, Ernst E, Bonde JP. High sperm density among members of organic farmers’ association. Lancet 1994;343:1498.

8.   Zhang JP, Meng QY, Wang Q, et al. Effect of smoking on semen quality of infertile men in Shandong, China. Asian J Androl 2000;2:143-6.

9.   Hruska KS, Furth PA, Seifer DB, et al. Environmental factors in infertility. Clin Obstet Gynecol 2000;43:821-9.

10. Wang SL, Wang XR, Chia SE, et al. A study on occupational exposure to petrochemicals and smoking on seminal quality. J Androl 2001;22:73-8.

11. Thiessen DD, Ondrusek G, Coleman RV. Vitamin E and sex behavior in mice. Nutr Metab 1975;18:116-9.

12. Bayer R. Treatment of infertility with vitamin E. Int J Fertil 1960;5:70-8.

13. Hatch EE, Bracken MB. Association of delayed conception with caffeine consumption. Am J Epidemiol 1993;138:1082-92.

14. Stanton CK, Gray RH. Effects of caffeine consumption on delayed conception. Am J Epidemiol 1995;142:1322-9.

15. Williams MA, Monson RR, Goldman MG, et al. Coffee and delayed conception. Lancet 1990;335:1603 [letter].

16. Grodstein F, Goldman MB, Ryan L, Cramer DW. Relation of female infertility to consumption of caffeinated beverages. Am J Epidemiol 1993;137:1353-60.

17. Wilcox A, Weinberg C, Baird D. Caffeinated beverages and decreased fertility. Lancet 1988;2:1453-6.

18.  Wong WY, Merkus HM, Thomas CM, et al. Effects of folic acid and zinc sulfate on male factor subfertility: a double-blind, randomized, placebo-controlled trial. Fertil Steril. 2002;77:491-498.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.