Glútenóþol

Hvað er glúten?

Kornvörur samanstanda úr kolvetnum og prótíni. Í prótíninu er að finna glútenín og glíadín en það er í raun það síðarnefnda sem veldur glútenóþolinu. Glúten er það efni sem gefur kornmeti loftkennda áferð og eru því glútenfríar(-lausar) vörur þyngri í sér og oft frekar þurrar. Þegar brauðdeig er hnoðað myndast loftbólur sem verða til fyrir tilstuðlan gers. Utan um þessar loftbólur myndast nokkurs konar glútenhimnur sem stífna við baksturinn og brauðið bakast. Eyðileggist glútenið, lyftist brauðið lítið sem ekkert.

Óþol

Enska heitið, Celiac disease, er eins og svo mörg önnur sjúkdómaheiti dregið úr grísku (coeliakos) og þýðir þarmasjúkdómur. Í heilbrigðum einstaklingum eru þarmaveggirnir þaktir þarmatotum sem sjá til þess að taka upp næringarefnin og vökvann úr fæðunni og flytja þau út í blóðrásina. Í þeim sem eru með glútenóþol hefur slímhúðin á þessum þarmatotum skaddast og eru í raun klesstar saman og geta því ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Fæðan fer því óeðlilega hratt í gegnum þarmana og næringarefnin skila sér ekki út í líkamann.

Einkenni

Glútenóþol getur látið á sér kræla jafnt á barns- sem fullorðinsaldri. Einkennin geta verið mismunandi en þau algengustu eru: magatruflanir og -verkir, niðurgangur (í lengri tíma), blóðleysi, þreyta, slappleiki, þyngdartap, beinhrörnun, eyðing á glerungi tanna og röskun á vexti (hjá börnum). Þar sem glútenóþolið truflar meltinguna geta fæðuofnæmi og/eða fæðuóþol myndast. Ensímið sem þarf til að brjóta niður mjólk (laktasi) tapast t.d. við mikinn niðurgang og er því algengt að mjólkuróþols verði vart ef viðkomandi er með glútenóþol. Einnig finna sumir fyrir lystarleysi, járnskorti, síendurteknu munnangri, auknum pirringi í skapi, tilhneigingu til þunglyndis og lélegri afkastagetu. Þessi einkenni geta hins vegar verið vísbending um marga aðra kvilla og því oft erfitt að tengja þá við glútenóþol.

Orsakir

Þessi sjúkdómur hefur verið þekktur síðan á 19. öld en orsakir hans eru enn mikil ráðgáta. Á meðan seinni heimstyrjöldinni stóð uppgötvaði hollenski barnalæknirinn Dicke að tíðni glútenóþols lækkaði meðal barna. Hann tengdi þetta við minni neyslu á hveiti og komst að þeirri niðurstöðu að það væri glútenið í korninu sem ylli vandamálinu. Einnig hefur verið rætt um að óþolið sé ættgengur galli í ónæmiskerfinu og að líkaminn bregðist svipað við og þegar um ofnæmi er að ræða. Þá myndast mótefni í líkamanum gegn glúteninu til að verjast þessu „fjandefni“ sem svo aftur eyðileggur slímhúðina í þörmunum með fyrrnefndum afleiðingum.

Greining og meðhöndlun

Afar mikilvægt er að glútenóþol sé meðhöndlað sem fyrst þar sem afleiðingar þess geta verið alvarlegar (blóðleysi, þyngdartap, röskun á vexti). Einnig er talið að það geti aukið líkurnar á ristilkrabbameini. Til að vera viss um að viðkomandi sé með glútenóþol er ráðlagt að mótefnið gegn glúteni í blóðinu sé mælt.

Mataræði

Þar sem engin bætiefni hjálpa til við eða fyrirbyggja glútenóþol er breytt mataræði eina leiðin til að vinna á því. Þó svo þarmatoturnar geti lagast með tímanum er óþolið ólæknanlegt og verður viðkomandi því að viðhalda glútenfríu mataræði alla ævi. Þetta getur verið erfitt til að byrja með, fólki finnst það ekki mega borða neitt en með smá þolinmæði og jákvæðu hugarfari er þetta yfirstíganleg umbreyting á lífsstílnum.

Vörur sem innihalda glúten:

Hveiti (bæði gróft og fínt), hafrar, spelt, rúgur, bygg, pasta, couscous (kúskús), flestar sojasósur og allar þær vörur sem eru gerðar úr eða innihalda fyrrnefndar kornvörur.

Vörur sem ekki innihalda glúten:

Ávextir, grænmeti, kartöflur, mjólk, jógúrt, ostar (að undanskyldum blámygluostum s.s. roquefort og stilton), egg, kjöt, fiskur, kjúklingur, hrísgrjón, maís, baunir, quinoa, bókhveiti, hnetur, fræ, sagogrjón, tapiocamjöl, Tamari sojasósa, agar-agar (þykki- og bindiefni), olíur og smjör.

Eins og fyrr segir er áferðin á glútenfríum brauðum og kökum allt önnur en við erum vön. Við bakstur hjálpar því lítið að auka germagnið eða eggjafjöldann sem annars myndi gera afraksturinn loftmeiri og mýkri. Því getur tekið nokkrar tilraunir að fá lystug og vel heppnuð brauð eða kökur út úr ofninum en er vel þess virði að reyna. Gefist hefur vel að blanda psyllium trefjum í deigið til að gera brauð og kökur bæði mýkri og léttari (sjá Heilsupóstinn jan. 2002).

Þar sem glútenfríar kornvörur innihalda ekki mikið af trefjum (fyrir utan hýðishrísgrjón og bókhveiti) er mjög nauðsynlegt að neyta fjölbreyttrar fæðu. Kartöflur, grænmeti og ávextir (einnig þurrkaðir) eru einna trefjaríkustu fæðutegundirnar og sé þess gætt að fæðan verði ekki einhæf eru mun minni líkur á vítamín- og/eða steinefnaskorti.

Sósujafnaranum er hægt að skipta út fyrir maíssterkju, kartöflu- eða hrísgrjónamjöl.

Heimildir:

Glútenfrítt fæði, bæklingur gefinn út af Matvælafræðifélagi Haag, 2000

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.