Góðkynja stækkun blöðruhálskirtils

Blöðruhálskirtillinn er á stærð við valhnetu og liggur fyrir neðan þvagblöðruna og umlykur þvagrásina. Hlutverk hans er að seyta þunnum, mjólkurlituðum vökva sem eykur hreyfingar sæðisfruma og kemur í veg fyrir þvagfærasýkingu.1 Eftir fertugsaldurinn byrjar blöðruhálskirtillinn að stækka í flestum karlmönnum. Ekki er alveg vitað hvers vegna þetta gerist en talið er að tengingin sé minnkun á hormóninu testósteróni með aldrinum.2 Góðkynja stækkun blöðruhálskirtils gerist hjá langflestum mönnum og ef þú ert karlkyns og lifir nógu lengi er nær öruggt að þú eigir eftir að þjást af þessu.3Þetta er kallað góðkynja stækkun vegna þess að frumurnar sem valda þessari stækkun eru ekki illkynja og breiðast því ekki út.2

Greining

Blöðruhálskirtillinn getur stækkað út á við og verða þá yfirleitt engin vandamál. En þegar hann stækkar inn á við fer hann að þrýsta á þvagrásina sem getur truflað flæði þvagsins.2 Einkenni lýsa sér í t.d. auknum fjölda ferða á klósettið, vökur á nóttunni til þess að kasta af sér vatni og minni kraftur og hraði þvagsins við þvaglát.1 Önnur einkenni sem geta komið fram eru óþægindi við þvaglát, sú tilfinning að hafa ekki tæmt þvagblöðruna alveg, þurfa að rembast við þvaglát, erfiðleikar við að byrja að pissa og sífelldur þvagleki.2 Sumir læknar mæla með því að karlmenn yfir fertugt fari árlega í skoðun til þess að láta athuga blöðruhálskirtilinn með tilliti til stækkunar eða hugsanlega krabbameins.

Ástæður

Eins og áður sagði eru ástæðurnar fyrir stækkun blöðruhálskirtilsins að mestu leyti óþekktar. Þó er talið að góðkynja stækkun hans komi til vegna hormónabreytinga tengdum aldri. Með aldrinum minnkar hormónið testósterón en hin svokölluðu kvenhormón aukast (LH, FSH, estrógen og prólaktín). Lokaáhrif þessara breytinga eru þau að aukið magn af testósteróni safnast saman í blöðruhálskirtlinum þar sem því er breytt í enn áhrifaríkara hormón, DHT, með ensíminu 5-alpha-reductasa.1 Það er svo nýja hormónið, DHT, sem hvetur skiptingu frumna í kirtlinum sem leiðir til stækkunar hans.2

Almennar ráðleggingar

Ef ekkert er að gert getur góðkynja stækkun blöðruhálskirtils hindrað þvaglát sem getur leitt til nýrnaskemmda. Það ástand getur verið lífshættulegt og er því meðferð nauðsynleg. Hægt er að taka hluta af blöðruhálskirtlinum í burtu með skurðaðgerð en mælt er með henni sem síðasta möguleika þar sem hún er engan veginn skaðlaus.1

Rétt mataræði virðist mikilvægt til þess að viðhalda heilbrigðum blöðruhálskirtli. Nokkur atriði skipta sérstaklega máli. Prótínríkt fæði hindrar ensímið sem breytir testósteróni í DHT á meðan prótínsnautt fæði hvetur ensímið. Í rannsókn sem gerð var í kringum 1970 kom í ljós að sinkviðbót minnkaði stærð blöðruhálskirtilsins og virtist minnka einkenni hjá flestum sjúklingum. Talið er að sinkið minnki virkni ensímsins líkt og prótínríka fæðið. Bjór hækkar magn hormónsins prólaktíns auk þess sem aukin inntaka áfengis sýnir sterk tengsl við aukin tilfelli góðkynja stækkunar blöðruhálskirtils. Annað sem sýnt hefur verið fram á er að lífsnauðsynlegar fitusýrur geta bætt ástandið, mælt er með ákveðnum amínósýrum auk þess sem talið er að kólesteról ætti að vera í sem minnstu magni en sojavörur í sem mestu magni. Að lokum er ráðlagt að reykja ekki þar sem í sígarettureyk er kadmíum sem getur haft slæm áhrif á blöðruhálskirtilinn.1

Náttúrulegar lækningaaðferðir

Til eru um þrjátíu mismunandi náttúruleg efni í Evrópu sem notuð eru til þess að meðhöndla góðkynja stækkun blöðruhálskirtils. Að minnsta kosti 15 þeirra innihalda freyspálma (saw palmetto) og mörg innihalda Pygeum Africanum, Urtica dioca, graskersfræsolía og/eða Cernilton.1Hér á eftir verður fjallað lítillega um hverja þessara jurta.

Freyspálmi

Fituleysanlegt þykkni sem búið er til af berjum Saw palmetto trésins (ameríska dverga pálmatrésins2) hefur hjálpað mörgum.1 Þetta tré vex aðallega í Bandaríkjunum þó svo að berin séu mest notuð til lækninga í Evrópu.3 Virkni þess byggist á því að efni sem í því eru blokka ensímið sem breytir testósteróni í DHT.1 Margar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna fram á virknina og benda þær til þess að breytingar til hins betra geta komið fram eftir 4-6 vikur hjá 2 af hverjum 3 mönnum sem taka inn freyspálma.3 Freyspálmi virkar á sama hátt og sum lyf sem gefin eru við góðkynja stækkun blöðruhálskirtilsins. Sjá grein um freyspálmann undir bætiefni.

Graskersfræsolía

Olían hefur verið notuð í aldanna rás sem náttúrumeðal. Notkun hennar í dag er mjög í anda þess hvernig frumbyggjar Norður Ameríku notuðu olíuna. Til dæmis notuðu Cherokee indíánar graskersfræolíu í barnalækningum til þess að börn hættu að pissa undir. Þessi olía er notuð sem meðferð við góðkynja stækkun blöðruhálskirtils í dag. Komið hefur í ljós í nokkrum rannsóknum sem gerðar hafa verið að notkun graskersfræsolíu getur minnkað einkennin sem koma fram á fyrstu stigunum. Má þar nefna bið eftir að þvagrennsli hefjist, næturferðir á klósettið og fleira. Þetta kom meðal annars í ljós í rannsókn sem 53 sjúklingar tóku þátt í yfir 3ja mánaða tímabil. Í Þýskalandi var fylgst með 2.245 sjúklingum sem fengu þykkni úr graskersfræsolíu í 3 mánuði. Bati mældist hjá 41,4% sjúklinga, þvagbunan varð kröftugri, það dró úr þvagleka, einnig dró úr þrýstings- og spennutilfinningu sem leidda að sjálfsögðu til betri líðunar.6

Náttljósarolía

Náttljósarolía inniheldur m.a. fitusýru sem heitir gammalínólensýra. Hún er mikilvæg fyrir heilbrigði hverrar einustu frumu í líkamanum. Þessi fitusýra kemur einnig að ýmsum ferlum í starfsemi frumanna, einnig í blöðruhálskirtlinum.

Pygeum Africanum
Pygeum er sígrænt tré sem kemur upphaflega frá Afríku. Börkur þess hefur lengi verið notaður til þess að lækna þvagrásarsjúkdóma. Virkni barkarins byggist á fituleysanlegu sterólunum og fitusýrunum sem í honum eru. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum pygeum extrakts og sýna þær fram á að einkenni góðkynja stækkunar blöðruhálskirtils minnka með notkun þess.

Urtica diotica

Extrökt af netlum hafa einnig reynst vel við meðhöndlun á góðkynja stækkun blöðruhálskirtils þó svo að færri rannsóknir hafa verið gerðar þar en á hinum vörunum sem hér hefur verið fjallað um.1 Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar hafa margar verið birtar í virtum evrópskum læknatímaritum. Ein þeirra sem 67 karlmenn tóku þátt í sýndi að meirihluta þeirra fannst næturþvaglát minnka.4 Önnur tvíblind rannsókn með 50 þátttakendum sem stóð yfir í 9 vikur sýndi marktækan mun á auknu magni þvags.3

Æfingar

Eins og í sambandi við mjög marga sjúkdóma hefur það afar góð fyrirbyggjandi áhrif að hreyfa sig reglulega.  Einnig er hægt að gera ýmsar æfingar sem miða beint að þessu vandamáli.  Má þar nefna að þrýsta rassvöðvunum saman og halda eins lengi og hægt er.  Slaka svo á í nokkrar mínútur og endurtaka eins oft og þægilegt þykir.  Æfinguna má gera standandi, sitjandi eða liggjandi.  Sumar jóga æfingar hafa hjálpað, einnig svokölluð víxlböð, en þá er skipst á að setjast í heitt og kalt vatn.2

Rannsóknir benda til að blanda af þeim jurtum sem nefndar hafa verið, virkar betur en ef hver jurt er notuð fyrir sig.  Til dæmis leiddi frönsk rannsókn það í ljós að samsetning netlu og pygeum leiddi til mikilla framfara hjá sjúklingum með góðkynja stækkun blöðruhálskirtils á innan við einum mánuði.4

Heimildir :

  1. Murray, M og Pizzorno, Joseph. Encyclopedia of Natural Medicine. Prima publishing, 1998.
  2. The Health Store Magazine
  3. http://www.consumerlab.com/
  4. http://www.mothernature.com/
  5. http://www.onhealth.com/
  6. Zeitschrift für Phytotherapie, 1998: 19:71-76. Hippokrates Verlag GmbH, Stuttgart.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.