Ný rannsókn staðfestir að það er hægt að snúa við sykursýki II með mataræði!

Nýlega voru birtar niðurstöður áhugaverðrar rannsóknar um áhrif mataræðis á sykursýki II.

Markmiðið var að kanna hvort hægt væri að snúa við sykursýki II með mataræði og þyngdartapi. Niðurstöðurnar voru afgerandi. Það er hægt og því meira sem fólk léttist, því meiri líkur eru á árangri.

Þetta hefur svosem lengi verið vitað en það vantaði fleiri vísindalegar rannsóknir til staðfestingar.

Rannsóknin var unnin í samstarfi við heimilslækna og var þátttakendum skipt í 2 hópa. Annar hópurinn fékk „meðferðina“ en samanburðarhópnum var ráðlagt í samræmi við núverandi ráðleggingar varðandi sykursýki II. Áhersla var lögð á að þetta væri eitthvað sem væri hægt að gera í samstarfi við heimilislækna og að eftirfylgnin væri góð til að auka líkur á árangri.

Það er skemmst frá því að segja að munurinin á útkomu hjá hópunum var sláandi. 46% þeirra sem voru í meðferðarhópnum losnuðu við sykursýkina og öll lyf henni tengdri! Auk þess losnuðu margir þerra einnig við önnur lyf s.s. blóðþrýstingslyf. Aðeins 4% af samanburðarhópnum losnuðu við sykursýki og lyf henni tengdri. Þeir sem fengu meðferðina voru einnig líklegri til að léttast meira en hinir. Sem dæmi misstu 24% úr meðferðarhópnum meira en 15kg en enginn úr samanburðarhópnum missti svo mikið.

Svo við förum aðeins meira í tölfræðina þá vakti það athygli að því meira sem fólkið léttist því meiri líkur voru á árangri. 86% þeirra sem misstu meira en 15kg losnuðu við sykursýkina en aðeins 34% þeirra sem misstu 5-10kg.

Hvað var gert?

Rannsóknin tók rúmt ár og aðferðin sem var notuð var nokkuð mikið inngrip og ætti ekki að framkvæma nema undir handleiðslu læknis. Í 3-5 mánuði voru þáttakendur settir á mjög kaloríuskert mataræði til að koma þyngdartapi af stað. Á þessu tímabili borðaði fólkið aðeins sérstaka næringardrykki og fékk úr þeim 825-853 kaloríur á dag.

Þá tók við 2-8 vikna tímabil þar sem fólkinu var hjálpað að byrja aftur á fastri fæðu með mikilli eftirfylgni til að hjálpa þeim að viðhalda þyngdartapi. Eftir það fengu þáttakendur áframhaldandi stuðning til að viðhalda árangrinum.

Þáttakendur voru hvattir til að hreyfa sig reglulega en ekki til að auka æfingaálag sérstaklega.

Eftir 12 mánuði var næstum helmingur (46%) þáttakenda ekki með sykursýki lengur! Það verður að teljast frábær árangur og sýna glögglega að mataræði og lífsstíll hafa afgerandi áhrif á þróun og framgang áunninnar sykursýki.

Deilt um aðferðir

Eitthvað hefur verið deilt á þær aðferðir sem voru notaðar í rannsókninni en það er vissulega mikið inngrip að vera á svo kaloríuskertu mataræði. Þetta var þó allt gert undir eftirliti lækna og annars fagfólks og þáttakendur völdu sjálfir að taka þátt og halda áfram. Aðferðin varð einfaldlega að vera nokkuð drastísk og afgerandi til að geta mælt árangurinn á þennan hátt.

Þetta er að sjálfsögðu ekki eina aðferðin og auðvitað væri hægt að nota annað en fljótandi mataræði í upphafi til að ná árangri. Einnig væri hægt að taka lengri tíma í verkefnið.

Það hlýtur þó að standa uppúr að hér er búið að sýna það með nokkuð óyggjandi hætti að það er ekki bara hægt að halda sykursýki II í skefjum heldur beinlínis snúa henni alfarið við með mataræði og þyngdartapi án þess að nota lyf.

Ef þið viljið fræðast meira um rannsóknina þá er linkur á niðurstöðurnar hér.