Megrun

Komið er nýtt hugtak innan læknisfræðinnar um flokk sjúkdóma sem eru að verða að faraldri í hinum vestræna heimi. Hér er átt við hina svokölluðu lífsstílssjúkdóma. Þessir sjúkdómar stafa af röngu mataræði, reykingum, hreyfingarleysi, streitu og öðru röngu líferni. Algengustu lífsstílssjúkdómarnir stafa af aukakílóum.

7 kg

Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar hafa Íslendingar þyngst um 7 kg að meðaltali á síðustu 20 árum. Þó svo við séum aðeins 7 kílóum of þung er það of mikið og getur haft skaðleg áhrif á heilsufar okkar. Aukakílóin geta orsakað ýmsa sjúkdóma svo sem hjartasjúkdóma, heilaæðasjúkdóma og slagæðasjúkdóma. Einnig mætti nefna astma og nýrnasjúkdóma. Einn algengasti sjúkdómurinn er þó sykursýki. Hér er átt við þá tegund sykursýki sem kallast tegund 2 eða insulin-óháð sykursýki. 7 kg yfir kjörþyngd er kannski fljótt á litið ekki mikið. Sérfræðingar eru þó sammála um að þessi 7 kíló eru þeim sem þau bera of mörg, einkum þeim sem eru komnir yfir fertugt. Til að tryggja betra heilsufar er því ekki um annað að ræða en að losna við þau. Á markaðnum eru hundruð aðferða til að grennast. Oftast er hér um einhvers konar töfralausnir að ræða, megrunarkúra sem eiga að gera kraftaverk en eftir kúrinn fer allt í sama farið. Fyrir þá sem eru 6-10 kílóum yfir kjörþyngd er auðveldast og ódýrast að breyta um lífsstíl.

Nýr lífsstíll

Þegar breytt er um lífsstíl tekur nokkurn tíma þar til að árangur fer að sjást en þá verður í flestum tilvikum um varanlegan árangur að ræða. Skyndilausnir gefa yfirleitt aðeins skammtímaárangur og veita því oft mikil vonbrigði. Til að megra sig þarf fyrst og fremst að huga að tveimur þáttum, að draga úr neyslu og auka hreyfingu. Öll hreyfing er góð. Það fyrsta sem þarf að gera er að draga verulega úr neyslu á dýrafitu og sykri. Sykur er ekki aðeins í gosi, kökum og sætindum, heldur einnig afar mörgum unnum matvörum. Unnar matvörur, ekki síst unnar kjötvörur eru yfirleitt fituríkar. Þá er gott ráð að borða ekkert á milli mála og ekkert tveimur tímum fyrir svefn. Einnig er mælt með því að drekka glas af vatni eða borða epli fyrir hverja máltíð. Sjálfsagt mál er að draga úr eða hætta alveg drykkju gosdrykkja og sígarettum ætti algjörlega að sleppa. Æskilegt er að stunda líkamsrækt í einhverju formi, skokka, hjóla, synda, dansa, stunda hópíþróttir, tennis, badminton, ganga rösklega eða fara á líkamsræktarstöð. Það munar um alla hreyfingu, meira að segja gagnast að ryksuga eða fara hring á golfvellinum. Að sjálfsögðu gefur meiri hreyfing betri árangur.

Æskileg fæða er grænmeti, ávextir, fiskur og magurt kjöt. Sérstaklega heppilegar eru einnig kornvörur, lítið unnar og úr heilu korni, t.d. sykursnautt musli og grjón eða flögur úr heilu korni, svo sem hveiti, rúgi, höfrum, byggi, hrísgrjónum og hirsi. Sem meðlæti með mat er mjög gott að nota hýðishrísgrjón, heilt bygg, hirsi, quinoa og heilhveiti couscous. Skynsamlegt er að snæða 2-3 grænmetismáltíðir á viku. Samvkæmt Journal of The American Medical Association er gott að ganga hraustlega hálftíma á dag. Þá minnkar meðal annars umtalsvert hættan á blóðtappa, sykursýki, beinþynningu, of háum blóðþrýstingi, ristilkrabba og þunglyndi. Sérfræðingar segja að um 12% allra ótímabærra dauðsfalla verði fyrst og fremst rakin til hreyfingarleysis.

Bætiefni. Það eru ekki mörg náttúruleg efni á markaðnum sem raunverulega geta hjálpað fólki í baráttunni gegn offitu, það er fyrirbyggt fitusöfnun í fituvef. Citrimax, L-karnitín (carnitine) og Króm píkólínat (Cromium picolinat) geta verið hjálp til að snúa við óæskilegri þróun og hefja megrun.

Kítósan bindur fitu og losar hana úr líkamanum og rannsóknir hafa sýnt að kítósan getur lækkað blóðfitu. Í tvíblindri rannsókn, sem 59 manns er áttu við offituvandamál að stríða tóku þátt í, kom í ljós að þeir sem tóku 1.5 g af kítósani fyrir máltíðir misstu að meðaltali 1 kg, á meðan þeir sem tóku lyfleysuna, bættu á sig allt að 1,5 kg á sama tíma. Þátttakendur fengu allir sömu fæðuna. Ekki er ráðlegt að nota kítósan að staðaldri, því það getur bundið fituleysanlegu vítamínin eins og A og D með annarri fitu og fjarlægt þau úr líkamanum, þannig að sé kítósan notað til langframa gæti líkamann farið að skorta þessi efni.

Phasómín. Stór hluti af daglegri fæðu okkar eru kolvetni. Til að meltingarfærin geti brotið niður kolvetni (fjölsykrunga) og breytt þeim í sykur (glúkósa), svo þau nýtist sem næring, er þörf á meltingarensíminu alfa amylasa sem brisið framleiðir. Phaseolamin 2250 TM inniheldur sykruhvítu (glýkóprótín) sem bælir ensímið alfa amylasa. Þessi bæling veldur því að kolvetnin meltast ekki og frásogast þar af leiðandi ekki heldur, þ.e.a.s. líkaminn getur ekki tekið þau upp og nýtt sér þau sem næringu. Niðurstaðan er að kolvetnin eru ekki brotin niður, heldur fara þau ómelt út úr líkamanum. Minni upptaka kolvetna kemur síðan fram í minnkaðri líkamsþyngd.

Citrimax. Í flóknu ferli eðlilegra efnaskipta myndast m.a. ákveðin efni sem hlaðast upp sem fita á líkamanum. Hydroxy-sítrónu sýran í Citrimax truflar þetta fituuppsöfnunarferli og kemur í veg fyrir að líkaminn búi til fitu úr prótíni og kolvetnum fæðunnar. Jafnframt eykst fitubrennsla lifrarinnar og glýkógensöfnun hennar einnig. Glýkógen hefur þau áhrif á heilann að matarlöngun minnkar. Sjá: Citrimax.

Króm píkólínat er mikilvægur þáttur í efnaskiptum sykurs. Það stuðlar að brennslu hans og er því góð hjálp við að örva fitutap og jafnvel auka vöðvamassa á náttúrulegan hátt ásamt því að hafa margvísleg jákvæð áhrif á heilsuna.

L-karnitín fannst 1905 í vöðvasýnum. Árið 1959 kom í ljós að það stýrir fitubruna (beta oxun) í fumunum. L-karnitín er eins og flutningabíll sem flytur fitusýrur úr umfrymi fruma og inn í orkukornin til brennslu. Á útleiðinni ber það með sér úrgangsefni þaðan og kallast þá asetýl karnitín. Því minna sem er af asetýl karnitín í blóði og því meira frítt karnitín sem þar er að finna, því öflugri verður fitubrennsla. L-karnitín skiptir einnig miklu í starfsemi hjarta og æða-kerfisins og hefur neysla þess í formi fæðubótar sýnt sig hafa mjög jákvæð áhrif á heilsuna. Nokkrir hópar manna hafa lágt magn efnisins í blóði og vefjum og flestir sem taka efnið inn, bæta starfsem fjölmargra líffærakerfa. Þau áhrif L-karnitíns sem mesta athygli hafa vakið, eru áhrif þess til fitutaps hjá fólki sem vill megra sig eða losna við fitu. Tilraunir hafa sýnt að skammtar frá 500 mg/dag til 4000 mg/dag auka töluvert hlut fitu í þeirri orku sem brennt er við þolæfingar. Ýmislegt bendir til þess að þeir sem eru of feitir, hafi minna magn karnitíni í blóði. Efnið virkar að sjálfsögðu best með hollu mataræði og hreyfingu.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.