Búlimía / Lotugræðgi

Búlimía, eða lotugræðgi, er átröskunarsjúkdómur sem einkennist af gífurlegu ofáti í lotum, yfirleitt á mjög kaloríuríkum mat sem síðan er þvingaður út úr líkamanum aftur, ýmist með uppköstum eða notkun laxerandi lyfja. Sjúkdómnum er nánast undantekningalaust haldið leyndum á snilldarlegan hátt af þeim sem af honum þjást. Þetta er mjög alvarlegur andlegur sjúkdómur þar sem afleiðingar hans á líkamlegt heilsufar geta einnig orðið mjög alvarlegar. Vitað er til þessa að lotugræðgi hafi leitt til innvortis blæðinga, sykursýki, magasárs, nýrnaskemmda, hjartsláttartruflana, raskana á tíðahring og lágs blóðþrýstings.

Sem fyrr segir er sjúkdómurinn undantekningarlítið andlegs eðlis og eru átloturnar oft tengdar álagi hjá einstaklingnum. Þessi átköst eru leið til að hafa áhrif á tilfinningar, þau dreifa huganum frá andlegri vanlíðan. Fólk með lotugræðgi getur líka verið haldið þráhyggju að ýmsum toga og stundar gjarnan líkamsrækt af ofsakappi til að hafa stjórn á þyngd sinni.

Lotugræðgi leggst helmingi oftar á konur en menn, ekki síst þegar starfið gerir miklar kröfur til útlits og fólk er undir miklu álagi s.s. fyrirsætur, leikkonur og dansarar. Krafan um fullkomið útlit kemur yfirleitt frá samfélaginu þar sem viðstöðulaust er rætt um hvað sé í tísku og ímynd hinnar tágrönnu konu er hampað. Í Bandaríkjunum er talið að ein af hverri átta stúlkum á aldrinum 13-19 sé haldin átröskun, ýmist lotugræðgi eða lystarstoli (anorexíu).

Margir lotugræðgissjúklingar hafa orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi í æsku. Einnig koma þeir úr fjölskyldum þar sem áfengi og lyf hafa verið misnotuð. Lotugræðgi hjá konum getur einnig tengst ímyndaðri höfnun frá karlmönnum. Sumar hafa þessar konur fullkomnunaráráttu, skara fram úr bæði í námi og starfi, setja sér fullhá markmið en hafa lélega sjálfsmynd. Þetta á sérstaklega við ef tilfinningalegum kröfum konunnar var ekki mætt í æsku, hún telur sér þá trú um að vandamálin leysist ef hún verði nógu aðlaðandi (þ.e.a.s. grönn!!) og þessi þráhyggja leiðir til lotugræðgi.

Líkamleg einkenni

Margt bendir til að sjúkdómurinn eigi einnig rætur að rekja til ójafnvægis í hormónaframleiðslu og líkist að mörgu leyti því hormónaójafnvægi sem þunglyndissjúklingar þjást af. Sjúklingar úr báðum hópum hafa hátt hlutfall af hormóninu adrenocorticotropic hormone (ACTH). Það verður til í heiladingli og hindrar starfsemi T-frumna og dregur það úr virkni ónæmiskerfisins. Þunglyndir og fólk með lotugræðgi eru einnig með minna af hormóninu serótónín (oft kallað náttúrulegur gleðigjafi) en skortur á því getur leitt til ákafrar fíknar í einföld kolvetni (sykur, pasta, skyndibitafæði), sem er algeng fæða í átköstum þessara sjúklinga.

Ólíkt þeim sem þjást af lystarstoli (sem veldur alltaf þyngdartapi) geta þeir sem þjást af lotugræðgi falið sjúkdóminn árum saman. Þyngd þeirra er yfirleitt í meðallagi eða jafnvel aðeins yfir kjörþyngd og átloturnar og uppköstin eru gerð á laun. Líkamleg einkenni lotugræðgi geta hins vegar verið bólgnir kirtlar í andliti og á hálsi, eyðing glerungs á tönnum (sérstaklega jöxlum), æðaslit í andliti, bólgnir munnvatnskirtlar (andlitslagið minnir á íkorna), þrálát særindi í hálsi, þroti í vélinda og veikleiki á magaopi sem getur valdið vélindabakflæði (brjóstsviða). Allt þetta eru afleiðingar þrálátra uppkasta. Komið hefur fyrir að fjarlægja hafir þurft prjóna eða skeiðar sem notaðar hafa verið til að koma af stað uppköstum úr meltingarvegi með skurðaðgerð.

Skortur á næringarefnum

Ef viðkomandi misnotar einnig laxerandi lyf á hann í hættu að skaða ristilinn, verða fyrir blæðingum í endaþarmi og þrálátum niðurgangi. Þegar hægðir fara of hratt um ristilinn nær hann ekki að vinna næringarefni úr fæðunni og eru steinefni einna fljótust að skolast út. Léleg upptaka á kalíum og salti getur leitt til uppþornunar, sinadráttar og í allra verstu tilfellum hjartaáfalls. Önnur einkenni lotugræðgi eru hárlos, gulleit húð, ótímabær hrukkumyndun, andremma, mikil þreyta, kraftleysi og svimi.

Fólk með lotugræðgi finnur yfirleitt til mikillar sektartilfinningar vegna hegðunar sinnar. Það er ein helsta ástæðan fyrir því hversu vel þeim tekst að fela sjúkdóminn og oft vita hvorki makar né börn hvað á sér stað. Vísbending um að eitthvað sé í ólagi eru m.a. reglubundnar ferðir á salernið eftir matinn, mikið magn af mat hverfur skyndilega, tíðar skoðanir hjá tannlækni og breyting á skapgerð.

Hvað er til ráða?

Mikið atriði er að viðkomandi leiti sér aðstoðar hjá sálfræðingi eða geðlækni til að leysa undirliggjandi vandamál sem geta verið til staðar. Yfirleitt dugir ekki að ræða málin öðru hvoru, heldur þarf meðferðin að vera reglubundin og markviss. Þar sem mannfólkið er jafn mismunandi og það er margt, er vert að gefast ekki upp þótt fyrsta viðtalið skili litlum árangri.

Á meðan unnið er á sjúkdómnum getur reynst hjálplegt að taka inn fjölvítamín og sink þar sem sinkskortur er algengur hjá fólki með lotugræðgi. Forðast ætti allan sykur og önnur einföld kolvetni (m.a. hvítt hveiti og kartöflur). Mikilvægt er að borða trefjaríka fæðu og drekka mikinn vökva. Á meðan líkaminn er að venjast breyttu og hollara mataræði getur viðkomandi fundið fyrir höfuðverkjum, þreytu, kvíða, pirringi, svefnleysi og jafnvel þunglyndi.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.