Fasta

Áhugi á föstu hefur aukist stórlega og við erum oft beðin um föstukúra eða leiðbeiningar um hvernig standa skal að föstu. Kolbrún Björnsdóttir grasalæknir hefur sett saman mjög árangursríkan föstukúr sem hér fer á eftir.

Forfeður okkar á öldum áður hreinsuðu sig á vorin, til að losa burtu eiturefni sem safnast höfðu í líkamann. Þetta var gert með föstu, svita og stundum losandi efnum. Í mörgum samfélögum var þetta jafnframt tími andlegrar eflingar. Í raun eru slíkir hreinsikúrar mikilvægari í dag en nokkru sinni fyrr, því hvar og hvernig sem við lifum, erum við stöðugt í snertingu við einhver eiturefni, sem mörg hver hafa miður góð áhrif á líkamann.

Til eru margar leiðir og margir kúrar til að hreinsa og afeitra líkamann. Eftirfarandi er vísir að hreinsun sem virkar vel án þess að vera of strembin til að halda hana út.

Eftirfarandi ættu ekki að fasta:

  1. Barnshafandi konur og konur með börn á brjósti, því eiturefni sem losað er um með föstu gætu farið í gegnum fylgjuna og í gegnum móðurmjólkina.
  2. Þeir sem hafa of háan eða of lágan blóðþrýsting.
  3. Þeir sem hafa of lágan blóðsykur ættu heldur að fasta á hráu grænmeti en safaföstu.

Eftirfarandi fæða er sérstaklega valin til að hreinsa líkamann af eiturefnum sem valda mörgum kvillum. Jafnframt mun sýru- og basastig jafnast. Fólk mun léttast á þessu prógrammi, en hafa verður í huga að þetta er alls ekki megrúnarkúr sem slíkur, heldur fyrst og fremst hreinsikúr til að bæta líðan. Þessi kúr inniheldur valin heilsubætandi næringarefni.

Í þessum kúr eru ekki talda hitaeiningar. Þú getur borðað eins mikið og þú vilt af þeirri fæðu sem þú hefur valið þér að fasta á. Lögð er áhersla á að nota sem mest af lífrænt ræktuðu, því annars ert þú hugsanlega að bæta í líkamann aftur því sama og þú ert að reyna að hreinsa úr honum.

Kvillar sem geta komið upp fyrstu dagana eru: Höfuðverkur, andremma, hægðartegða, niðurgangur, gamlir kvillar eins og bólgur og liðverkir geta skotið upp kollinum og kvillar sem eru til staðar geta versnað. Þetta gengur yfir á 3 dögum, á meðan lifrin er að hreinsa blóðið. Efni sem verið hafa í fitufrumunum leysast út í blóðið og lifrin sér um að hreinsa þau út og koma þeim úr líkamanum. Einnig gæti orðið vart við gamlar tilfinningaflækjur í byrjun föstu. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af þessu, þetta hverfur með hreinsuninni.

Þetta hreinsiprógram er sett upp fyrir 3 vikur, en því má breyta eftir þörfum hvers og eins. Undirstaðan er að fasta í 1 viku, bæta fæðu hægt inn aftur á annarri viku og þriðja vikan fer í að læra að nota nýjungarnar sem þú hefur tileinkað þér, svo að þú fallir ekki aftur í sama gamla farið. Drekka má ómælt af jurtatei eins og kamillutei og piparmyntutei. Drekka þarf mikið af vatni undir föstunni. Það má vera blandað ferskum sítrónusafa. Forðast ætti te, kaffi og alla örvandi drykki.

Bætiefni. Alla jafna skal ekki taka vítamín, steinefni og jurtir á meðan á föstu stendur, því það á að hvíla meltinguna.

Eplaedik (1 msk) og hunang (1 tsk) í bolla af heitu vatni er góður basískur og hreinsandi drykkur sem gott er að drekka 1-2 bolla af á dag.

Acidophilus má taka til að viðhalda jafnvægi á þarmaflórunnni. Ef þú færð niðurgang ætti ekki að taka hann alla föstuna.

Psylliumfræsduft (husk). Hrærið 1 tsk í glas af vatni og drekkið 2-4 glös á dag. Þetta eru góðar trefjar sem hafa róandi áhrif á meltingarfærin. Þær draga einnig í sig eiturefni og losa líkamann við þau.

Jurtir. Nota má jurtir eins og mjólkurþistil, fífilrót, Lapacho og netlu til að örva hreinsun.

A.m.k. tveim dögum fyrir föstu er nauðsynlegt að borða aðeins ferskmeti. Best er að sleppa kjöti og fiski í viku áður en þú byrjar kúrinn og forðast öll matvæli með aukaefnum.

2 dagar fyrir föstu

 

Morgunmatur: Ferskt ávaxtasalat með muldum möndlum út á. Drekka má ávaxtasafa, grænmetissafa og jurtate.

Hádegisverður: Stórt ferskt salat með salastsósu úr jómfrúar ólífuolíu og sítrónusafa. Á salatið má setja hnetur, fræ og alfalfaspírur. Einnig er gott að borða söl, því þau innihalda mikið af góðum næringarefnum og hjálpa til við að losa út úrgangsefni.

Kvöldverður: Sami matur og í hádeginu.

Snarl: Ávextir og grænmeti skorið niður í stangir, einnig lítið eitt af hnetum og fræum.

Dagur 1

 

Veldu eitt af eftirfarandi til að fasta á.

Epli. Þau mega vera rauð eða græn. Borðaðu allan ávöxtinn með hýðinu, a.m.k. 2½ kg á dag. Úr þeim má einnig gera mauk og safa.

Melóna. Nota má hvaða melónu sem er, a.m.k. 3 kg á dag.

Hýðishrísgrjón. Líði þér þannig að þú verður að fá fasta fæðu er hægt að fasta á hýðisgrjónum, en þá þyrftir þú að fasta lengur, í a.m.k. 1 viku. Þessi fasta þykir frekar leiðinleg, því þú borðar aðeins hrísgrjón, án sósu eða olíu. Þetta virkar vel fyrir þá sem treysta sér ekki í safaföstu og viðheldur best blóðsykrinum fyrir þá sem hafa of lágan blóðsykur.

Grænmetissafar. Mjög hreinsandi og basísk samsetning er gerð úr 1 l af gulrótarsafa og ½ l af sellerýsafa, ½ l af rauðbeðusafa og pressa saman við búnt af steinselju. Saman við þetta er síðan bætt 1 l af vatni, svo að þetta verða 3 l. Drekktu bolla af þessari blöndu á hálftíma fresti, þar til það er búið. Síðan er drukkið vatn. Einnig má nota tilbúinn safa eins og Dr. Breuss föstusafann frá Biotta.

Kalíum soð. Skerið lauk, blaðlauk, gulrætur, næpur, grænkál eða hvaða grænmeti sem er ásam smá þangbút og sjóðið vel í 2 l af vatni. Drekkið soðið yfir daginn. Sé fólk mjög kulvíst og sé kalt úti, þá er ráðlegt að fasta á þessu. Þetta hreinsar ekki eins kröftuglega, en virkar samt.

Grænmetissafa og kalíumsoð má nota til skiptis.

Dagur 2 og 3

 

Þessa tvo daga er haldið áfram með sömu föstu og fyrsta daginn. Mikilvægt er að blanda ekki saman grænmeti og ávöxtum sama daginn. Halda má föstunni áfram í 1 viku, en það fer eftir líðan og líkamlegu ástandi. Komi ekki upp neinar aukaverkanir er það í lagi.

Dagur 4

Á fjórða degi er fastan rofin með því að hefja neyslu fersks grænmetis og ávaxta. Gott er að rjúfa föstuna með kalíumsoði. Nota á sama fæðið og fyrstu 2 dagana fyrir föstu.

Eftir hreinsunina er líkaminn mjög viðkvæmur, því er afar mikilvægt að borða ekki mjög þungan mat í fyrstu. Nú má aftur fara að taka inn vítamín og steinefni. Eplaedik, acidophylus, hreinsijurtir og psyllium husk á að taka áfram.

Dagur 5, 6 og 7

Sama fæði og á fjórða degi.

Dagur 8-14

Þessa daga ætti að borða 50% hrátt fæði og 50% soðinn mat. Til að byrja með ætti að borða lítið prótín. Borða ætti hveiti og aðrar kornafurðir í hófi, því þær eru frekar þungmeltar.

Dagur 15-21

Halda áfram á sömu braut og liðna viku.

Fæðutegundir sem ætti að forðast þessa viku en helst í mánuð

Mjólk, smjör, ostur, egg, jógúrt, kjöt og allar kjötafurðir, sykur allt sem sykur er í, salt, kaffi, te (nema jurtate), gos, franskar, snakk, dósamat, frosin mat, kökur og sætabrauð, vín og allt sem ekki eru hreinar náttúruafurðir.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.