Unglingabólur

Unglingabólur eru afar algengur húðkvilli sem flestir unglingar geta fengið á gelgjuskeiðinu en leggst þó meir á drengi og sumir glíma við þennan kvilla fram eftir ævinni. Þessar bólur verða til vegna bólgu í fitukirtlum sem umlykja hársekki líkamsháranna. Þessir kirtlar framleiða fitu sem er eins konar blanda af olíu og vaxi til að „smyrja“ húðina og koma í veg fyrir rakatap. Mest er af þessum kirtlum í andliti en einnig eru þeir á baki, bringu og öxlum.

Unglingabólur tengjast aukinni framleiðslu líkamans á karlhórmónum (testósterón) hjá báðum kynjum, að sjálfsögðu mest þó hjá drengjum. Þessi hormón stuðla að aukinni framleiðslu keratíns, en hár, neglur og ysta lag húðar eru að mestu mynduð úr keratíni. Offramleiðsla keratíns getur stíflað fitukirtlana auk þess sem kirtlarnir stækka af völdum testósteróns og framleiða aukna fitu sem kemst illa út um op kirtlanna, þannig að þeir bólgna. Bólurnar myndast síðan fyrir tilstilli húðbakteríu sem nærist á fitu og gefur frá sér ensím sem valda bólgu. Sé bólgan mikil getur hún valdið skemmdum á húðvefjum sem í verstu tilfellum skilja eftir sig varanleg ör. Í slíkum tilfellum er betra að bregðast skjótt við vandanum.

Rannsóknir benda til að þeir sem illa eru haldnir af unglingabólum hafa meira af ensíminu 5-alpha-reductase, en það breytir testósteróni í sterkara eða virkara form, þekkt sem díhýdrótestósterón (DHT). Þetta gæti verið vísbending um að það sé ekki magn testósteróns sem sé ábyrgt fyrir bólunum, heldur að magn þessa ensíms geri útslagið um hve illa bólurnar leika unglinginn.

Hvað er til ráða

Fyrst er að huga að fæðunni. Almennt gildir reglan að borða holla og næringarríka fæðu. Forðast ætti hvítan sykur og allt sem inniheldur mikinn sykur, djúpsteiktan mat og annan fituríkan mat, ekki síst transfitusýrur sem eru í kjöti og kjötafurðum, mjólkurafurðum og hertri jurtafitu, svo nokkuð sé nefnt. Bent hefur verið á að mjólk sé auðug af hormónum auk þess sem í henni eru transfitusýrur og gæti hún því verið óheppileg næring fyrir þá sem unglingabólurnar hrjá. Vanlíðan og streita gera illt verra og sérstaklega er óæskilegt að kreista bólurnar eða fitka mikið í þeim.

Sink er afar mikilvægt næringarefni fyrir heilbrigði húðarinnar. Þess er m.a. þörf fyrir efnaskiptaferli testósteróns. Sé lítið af sinki fyrir hendi breytist meira af

Sink er gott fyrir                       hormónajafnvægið

testósteróni í díhýdrotestósterón (DHT), sem, eins og komið hefur fram, örvar framleiðslu fitu og keratíns. Sink er einnig nauðsynlegt fyrir ónæmiskerfið, endurnýjun vefja, til að sár grói og til að hemja bólgur. Til eru allnokkrar tvíblindar rannsóknir þar sem sink er prófað gegn unglingabólum. Sumar sýna mjög góðan árangur, aðrar þokkalegan og nokkrar lítinn sem engan.1,2,3,4 Sink er til í margs konar formi. Rannsókn þar sem venjulegt sink súlfat var notað sýndi t.d. engan árangur.2 Nýrri rannsókn þar sem notað var sink glúkonat (30 mg sink á dag í 2 mánuði) sýndi mjög góðan árangur.4 Eitt besta og virkasta form af sinki er sink pikólínat, líkaminn nýtir það betur en sink í öðru formi og ætti það því að koma að enn betri notum en annað sink.

A-vítamín, E-vítamín og selen

A-vítamín hefur í fjölda rannsókna reynst draga úr framleiðslu fitukirtlanna og úr keratínmyndun. Þessi árangur hefur því miður aðeins náðst með skömmtum sem eru svo stórir að þeir geta valdið eitrunum. Læknar telja þó að ekki sé þörf á þessum stóru skömmtum, heldur megi nota skammta alveg niður í 10.000 ae á dag, séu E-vítamín og selen notuð með. Skorti E-vítamín er A-vítamín lágt í blóði, jafnvel þó tekin séu inn A-vítamín bætiefni. E-vítamín vinnur jafnframt með seleni, en það kemur að starfsemi ensímsins glútatíón peroxídase. Þetta ensím er mikilvægt til að fyrirbyggja bólgumyndun í unglingabólum. Rannsóknir sýna að þetta ensím er iðulega í ónógu magni hjá þeim sem illa eru haldnir af unglingabólum. Eftir inntöku E-vítamíns og selens eykst magn þessa ensíms með þeim árangri að stórlega dregur úr bólunum.

Útvortis

Echinaforce jurtaveig er unnin úr ferskum sólhatti, en sú jurt inniheldur efni sem vinnur á örverum eins og bakteríum. Best er að setja svolítið í rakan snyrtisvamp eða bómull og strjúka yfir bólurnar. Þar sem Echinaforce er áfengisupplausn úr jurtinni, getur það þurrkað húðina lítillega.

Molkosan er þykkni sem unnið er úr mysu. Það er auðugt af „vinveittum“ mjólkursýrugerlum (í ætt við Acidophilus gerla), sem hafa sótthreinsandi og græðandi áhrif. Gott er að dreypa Molkosan í rakan
snyrtisvamp eða bómull og strjúka yfir allt andlitið og önnur bólótt svæði, áður en lagst er til náða. Þó að maður finni aðeins fyrir því á húðinni fyrst eftir að því er strokið yfir hana, á ekki að skola það af.

Tea trea olía inniheldur afar virk bakteríudrepandi efni og er af mörgum talin einhver besta snyrtivara sem sóttvörn á húðina.  Rannsókn við Royal Prince sjúkrahúsið í Nýju Suður Wales í Ástralíu sýndi að þessi olía gaf sama árangur og lyf sem algengt er að nota (benzóíl peroxí

ð), en með langtum minni aukaverkunum. Tea trea olía er sterk og því betra að þynna hana út í mildri húðoíu áður en hún er borin á bólurnar.

Tea Tree ilmkjarnaolía

Snyrtivörur

Vandaðar snyrtivörur fást m.a. frá Benecos og Aqua Oleum en þær eru gerðar úr náttúrulegum og lífrænum efnum og eru án allra parabena eða annarra hormónaraskandi efna.

Heimildir:

1. Michaelsson G, Juhlin L, Ljunghall K. A double-blind study of the effect of zinc and oxytetracycline in acne vulgaris. Br J Dermatol.1977;97:561-566.

2. V. Weimar, S.Puhl, W. Smith and J. Broeke, „Zinc Sulphate in Acne Vulgaris,“ Arch Dermatol 114 (1978):1776-8.

3. G. Michaelsson, L. Juhlin and A. Vahlquist, „Effects of Oral Zinc and Vitamin A on Acne,“ Arch Dermatol 113(1977):31-6.

4. Dreno B, Amblard P, Agache P, et al. Low doses of zinc gluconate for inflammatory acne. Acta Derm Venereol. 1989;69:541-543.

5. G. Michaelsson and L. Edqvist, „Erythrocyte Glutathione Peroxidase Activity in Acne Vulgaris and the Effect of Selenium and Vitamin E Treatment,“ Acta Derm Venerol 64(1984):9-14.

6. Bassett IB, Pannowitz DL, Barnetson RS. A comparative study of tea-tree oil versus benzoylperoxide in the treatment of acne. Med J Aust. 1990;153:455-458.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.