„Gefandi að sjá fólkið blómstra, eflast og finna tilgang í lífinu“

Í september fer fram söfnunarátak Gula miðans til styrktar Ljósinu. Þrjú vinsæl bætiefni frá Gula miðanum fara í nýjan búning og renna 250 krónur af hverju seldu glasi til styrktar starfssemi Ljóssins.

Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein sem og aðstandendur þeirra. Þar fer fram fjölbreytt starfssemi sem kemur að ýmsum hliðum endurhæfingar. Hjá Ljósinu vinnur þverfaglegur hópur sérfræðinga s.s. iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, sálfræðingur, næringarfræðingur, markþjálfi, heilsunuddarar, íþróttafræðingar, snyrtifræðingur og margir fleiri sem koma að starfseminni.

Erna Magnúsdóttir, stofnandi og forstöðukona Ljóssins var svo elskuleg að gefa sér tíma í smá viðtal um starfssemina.

Mörg þúsund manns hafa nýtt sér þjónustuna

Frá því að Ljósið var stofnað árið 2005 hefur hópur skjólstæðinga vaxið ár frá ári. „Árið 2017 voru það 1300 einstaklingar sem leituðu til Ljóssins og komurnar í hin ýmsu úrræði voru yfir 19 þúsund. Við erum að fá um og yfir 400 manns í hverjum mánuði“ segir Erna. Það er því ljóst að Ljósið skipar stóran sess í daglegu lífi krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra.

Ávinningurinn er margþættur

Þjónusta ljóssins er heildræn og miðuð að þörfum hvers og eins. Erna segir þetta mjög mikilvægt og árangurinn eftir því. „Þau finna að þau styrkjast andlega, líkamlega og félagslega eftir erfið veikindi. Þau eru í nærandi umhverfi sem mætir þeim með  virðingu og hlýju sem gerir það að verkum að sjálfstraust eykst sem hefur áhrif á lífsgæðin. Aðstoð frá sérhæfðu fagfólki hjálpar þeim að byggja upp líkamlega orku í gegnum fjölbreytt hreyfitilboð, auk þess að skoða hlutverk í lífinu, daglega iðju og þær tilfinningar sem valda oft vanlíðan og þreytu.“ Erna segir það ómetanlegt að fylgjast með fólkinu og sjá það blómstra, eflast og finna tilgang í lífinu. Það sé tvímælalaust það skemmtilegasta við hennar starf.

Listin hefur lækningamátt

Erna segir að öll þjónusta Ljóssins sé mjög vel sótt en viðtöl við sérfræðinga standi helst uppúr. „Vinsælast eru viðtölin hjá fagaðilunum, iðjuþjálfum, sjúkraþjálfurum, sálfræðingi, markþjálfa og næringarráðgjafa.  Þá er öll hreyfing, tækjasalur, útivist, jóga og fleira mjög vinsælt.  Handverk hefur alltaf skipað stóran sess í Ljósinu og segjum við gjarnan að listin hafi lækningarmátt. Heilsunuddið hefur verið frá upphafi og er það nærandi bæði líkamlega og andlega. Styrkjandi fræðslunámskeið eru líka orðin ómissandi þáttur í starfinu en þar gefst fólki færi á að tjá sig um eigin reynslu og tilfinningar auk þess að fá uppbyggjandi fræðslu.“

Ljósið er einstakt

Ljósið er hugarfóstur Ernu sem hún hrinti í framkvæmd með góðri hjálp. Hún er iðjuþjálfi að mennt og byggir starfssemi Ljóssins á grunnhugmyndafræði iðjuþjálfunar; Umhverfið, iðjan og einstaklingurinn. Okkur lék forvitni á að vita hvort Ljósið ætti sér einhverja erlenda fyrirmynd en Erna segir svo ekki vera. „Við höfum ekki fundið eins úrræði í nágrannalöndunum. Hér er heildræn sýn og öll fjölskyldan fær þjónustu þegar einn greinist. Á norðurlöndunum eru til Maggie center en þau starfa ekki eftir sömu hugmyndafræði og þar eru t.d ekki iðjuþjálfar eins og hér en við teljum mikilvægt að huga að öllum þáttum, líka daglegri iðju og hlutverkum hvers og eins sem er öllum mikilvægt.“

Þungur róður en framtíðarsýnin er björt og skýr

Ljósið er sjálfseignarstofnun og fær úthlutað tilfallandi upphæð árlega frá ríkinu sem þó dugar varla fyrir helmingi rekstrarkostnaðar. Frjáls framlög og styrkir eru Ljósinu því afar mikilvægir og sannkölluð lífæð. Erna segir þetta oft þungan róður en framtíðarsýnin er engu að síður björt. „Okkar stefna er að auka enn við þjónustuna. Við viljum t.a.m. geta boðið uppá ráðgjöf og leiðbeiningar hjá félagsráðgjafa auk þess að fjölga tímum sem er boðið uppá hjá sálfræðingi. Við sjáum að á næstu 10 árum mun þörfin fyrir þjónustuna aukast enn frekar og innan þess tíma er stefnan að verða komin í stærra húsnæði og hafa fleira fagfólk en að hugmyndafræðin verði sú sama, þetta hlýlega, heimilislega yfirbragð og að þjónustan verði til fyrirmyndar.“

Erna vildi koma á framfæri innilegum þökkum til Heilsu fyrir að styrkja starfið. Hún segir það ómetanlegt að finna samhuginn og kærleikann í samfélaginu til Ljóssins.

Við þökkum Ernu innilega fyrir spjallið og hvetjum auðvitað alla til að byrgja sig upp af vítamínum og styrkja Ljósið í leiðinni.

Einnig viljum við benda á styrktarreikning ljóssins en þar geta þeir sem vilja styðja við starfssemina lagt inn frjáls framlög:

Banki: 0130-26-410420

Kennitala: 590406-0740

Inni á heimasíðu Ljóssins: ljosid.is, má einnig finna upplýsingar um það hvernig gerast má Ljósavinur en þar er hægt að velja hinar ýmsu styrktarleiðir.

www.gulimidinn.is / https://www.facebook.com/gulimidinn.is/