Mangan / e: Manganese

Mangan er virkur þáttur í ýmisskonar ensímum, þar með talið ensímum sem stjórna blóðsykri, orkuframleiðslu og skjarlkirtilsstarfsemi. Það er ómissandi við framleiðslu líkamans á andoxunarensíminu SOD (superoxide dismutase) sem hefur jákvæð áhrif á fólk með gigt og langvarandi bólgusjúkdóma. Mangan er mikilvægt fyrir efnaskipti prótíns og fitu, heilbrigði tauga og ónæmiskerfið. Mangan er nauðsynlegt í eðlilegan beinvöxt, myndun brjósks og myndun liðvökva. Líkaminn þarfnast þess einnig við nýtingu B1- og E-vítamíns.

Svo virðist sem fólk með flogaveiki og sykursýki hafi ekki nægilegt magn af mangan í blóði. Algengt er að sykursýkissjúklingar hafi helmingi minna mangan í líkamanum en heilbrigðir einstaklingar. Rannsóknir benda til þess að sykursýkissjúklingar kunni að geta fengið einhverja bót af inntöku mangans. Einnig hefur komið í ljós að manganríkt fæði eða inntaka mangans í töfluformi hefur reynst gagnlegt sumum flogaveikissjúklingum.

Mangan er helst að finna í avókadó, hnetum, fræjum, þara, heilkorni, bláberjum, eggjarauðu, grænmeti, þurrkuðum baunum, ananas og grænulaufguðu grænmeti. Sýrueyðandi lyf, mikil neysla mjólkur eða kjöts ásamt yfirskömmtum af kalki og fósfóri eru gagnvirk mangan.

Einkenni manganskorts geta m.a. lýst sér í skorti á samhæfingu vöðva, þrengingu æða, krömpum, augnþrautum, heyrnarvanda, útbrotum og skertum vexti hárs og nagla. Einnig verður vart við hækkun kólesteróls, háþrýsting, óreglu á hjartslætti, pirring, minnistap, vöðvakrampa, skemmdir á brisi og óhóflega svitamyndun.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • ungbörn 0-6 mánaða 0,3-0,6 mg
  • ungbörn 6-12 mánaða 0,6-1,0 mg
  • börn 1-3 ára 1,0-1,5 mg
  • börn 4-6 ára 1,5-2,0 mg
  • börn 7-10 ára 2,0-3,0 mg
  • aðrir 11 ára og eldri 2,5-5,0 mg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.