Lesitín

Virka efnið í lesitíni nefnist fosfatídylkólín (FK) en það er aðal fitan í frumuhimnunum. Í flestum bætiefnum sem innihalda lesitín er yfirleitt notað sojalesitín sem inniheldur á bilinu 10-20% af FK. Þegar þess er neytt brotnar það upp í fosfatídyl og kólín áður en líkaminn getur nýtt það. Hægt er að fá kólín eitt og sér (án fosfatídyl) en það er þó mest notað í fjölvítamínblöndur þar sem það getur valdið óæskilegri líkamslykt (fiskilykt) sé það tekið í stórum skömmtum. Verður í þessari grein vísað til FK eða kólíns, þó flestir þekki það betur sem lesitín.

Kólín er nauðsynlegt næringarefni fyrir allar fitufrumur, þó sérstaklega heilafrumur. Það auðveldar flutning á fitu til og frá frumunum og viðheldur styrkleika frumuhimnanna. Það er hluti af taugaboðefninu acetylkólín sem er afar mikilvægt fyrir eðlilega heilastarfsemi, ekki síst í ungbörnum og fyrir minnið. Kólín hefur verið notað í rannsóknum á tauga- og geðsjúkdómum1 (sem FK) og hafa gefist betri niðurstöður með mjög stórum skömmtum af því en með tryptofani í meðferð á örlyndi (15-30 g á dag).2-4 Nokkrar rannsóknir hafa hins vegar ekki getað sýnt fram á að FK sé hæft um að berast til heilans.5

Vitað er að fólk með Alzheimer er með minna af ensíminu acetylkólíntransferase en heilbrigðir einstaklingar. Þar sem aukin inntaka á FK eykur magn acetylkólíns hefur verið gælt við þá hugmynd að það geti hjálpað við meðferð á sjúkdómnum. Fáar rannsóknir hafa stutt þessa kenningu en við vægari elliglöpum er mögulegt að FK komi að notum.6-8 Þarf þá að taka mjög stóra skammta (15-25 g á dag) en verði enginn sýnilegur árangur innan tveggja vikna skal hætta inntökunni.

Líkaminn getur framleitt kólín úr amínósýrunum metíónín og serín en verði mikill skortur á kólíni getur það leitt til röskunar á lifrarstarfseminni og/eða gallsteinar farið að myndast. Ástæðan er sú að það hægist á efnaskiptum fitunnar og hún byrjar að safnast upp í lifrinni eða gallinu. Þetta getur einnig leitt til uppsöfunar á óæskilegu kólesteróli og of háum blóðþrýstingi og er því fólki í þeim áhættuhópi ráðlagt að taka að minnsta kosti 1200 mg af lesitíni á dag (í mjög slæmum tilvikum má taka það tímabundið þrisvar á dag). Kólín hefur einnig verið notað með góðum árangri í meðferð á ýmsum lifrarsjúkdómum. Hlutfallið af FK í lesitíninu þarf þá að vera mjög hátt, eða allt að 90%.

Lesítín er að finna í sojaafurðum, eggjarauðum, heilu korni, grænmeti, mjólk, kjöti og lifur. Það er kjörið fyrir þá sem vilja halda æðakerfinu heilbrigðu eða skerpa minnið og hafa margir námsmenn tekið lesitín á álagstímum eins og við próflestur. Stórir skammtar geta hins vegar valdið ógleði.  Þunglyndissjúklingar ættu að ráðfæra sig við lækni áður en farið er út í að taka lesitín.

Heimildir

 1. Benjamin J, Levine J, Fux M, et al.
  Double-blind, placebo-controlled, crossover trial of inositol treatment
  for panic disorder. Am J Psychiatry 1995;152:1084-6.
 2. G. Chouinard et al., „Tryptophan in the Treatment of Depression and Mania,“ Adv Fiol Psychiat 10 (1983): 47-66.
 3. I. Sano, „L-5-hydroxytryptophan Therapy,“ Folia Psychiatr Neurol Japan 26 (1972): 7-17.
 4. H.M. van Praag, „Central Monoamine
  Metabolism in Depression, I: Serotonin and Related Compounds,“ Compr
  Psychiatry 21 (1980): 30-43.
 5. Dechent P, Pouwels PJW, Frahm J. Neither
  shor-term nor long-term administration of oral choline alters
  metabolite concentrations in human brain. Biol Psychiatry
  1999;46:406-11.
 6. G. Rosenberg and K.L. Davis, “ The Use of
  Cholinergic Precursors in Neuropsychiatric Diseases,“ Am J Clin Nutr 36
  (1982): 709-20.
 7. R. Levy, A. Little, P. Chuaqui, and M.
  Reith, „Early Results from Double-Blind, Placebo-Controlled Trial of
  High-Dose Phosphatydilcholine in Alzheimer´s Disease,“ Lancet 1 (1982):
  474-6.
 8. N. Sitaram, B. Weingartner, E.D. Gaine, and
  J.C. Dillin, „Choline: Selective Enhancement of Serial Learning and
  Encoding of Low Imagery Words in Man,“ Life Sci 22 (1978): 1555-60.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.