L -Karnitín

Karnitín eða L-karnitín er amínósýra sem líkaminn getur m.a. myndað úr amínósýrunni lýsín. Þessi amínósýra sér um að flytja fitusýrur til hvatbera allra frumna líkamans þar sem þeim er breytt í orku. Við venjulegar aðstæður og með réttu mataræði getur líkaminn framleitt nógu mikið af karnitíni en ef orkunotkunin er mikil, t.d. hjá börnum, þunguðum konum og við brjóstagjöf, getur þörfin orðið meiri en líkaminn ræður við.

Karnitín finnst í vöðvum líkamans og var fyrst einangrað úr kjöti árið 1905 en mikilvægi þess fyrir mannslíkamann uppgötvaðist hins vegar ekki fyrr en um 1950.1,2,3 Eftir að hópur vísindamanna hafði staðfest það sem mikilvægan þátt í vexti mjölmaðks hófu þeir rannsókn á efninu í mannslíkamanum. Þeir komust fljótlega að þeirri niðurstöðu að karnitín væri nauðsynlegt fyrir fituniðurbrot til orkumyndunar. Til þess að fitusýrurnar komist inn fyrir frumuveggina að hvatberum, þarf karnitín að vera til staðar sem flutningsefni. Verði skortur á því minnkar fitusýrumagn í frumunum sem svo leiðir af sér minni fitubrennslu og orkumyndun. Karnitín gegnir einnig öðrum lífeðlisfræðilegum hlutverkum, s.s. nýtingu á amínósýrum við föstu, svelti og áreynslu. Hvatinn sem þarf til myndunar á karnitíni er til staðar í lifur, nýrum og heila. Við fæðingu er virkni hans aðeins 12% af því sem gerist hjá fullorðnum, við 3ja ára aldur er hún orðin um 30% og nær loks fullri virkni við 15 ára aldur.

Mjólk og kjöt eru þær fæðutegundir sem innihalda einna mest af karnitíni og því rauðara sem kjötið er, þeim mum meira af karnitíni er í því. Korn, ávextir og grænmeti innihalda lítið sem ekkert karnitín. Líkaminn framleiðir karnitín sjálfur úr amínósýrunum lýsin og metíónín en einnig þarf járn, C-vítamín, B-3 og B-6 vítamínað vera til staðar í nægu magni. Skortur á einhverjum af þessum bætiefnum heftir framleiðslu á karnitíni. Þar sem líkami ungbarna getur ekki framleitt nægjanlegt karnitín er nauðsynlegt fyrir þau að fá það með móðurmjólkinni eða í þurrmjólk (ath. ekki allar gerðir þurrmjólkur innihalda karnitín). Skortur á karnitíni á fullorðinsaldri er mjög sjaldgæfur, meira að segja hjá grænmetisætum, þar sem tiltölulega auðvelt er fyrir líkamann að framleiða það.

Karnitín virðist gegna mikilvægu hlutverki í hjartanu. Rannsókn var gerð á fólki með sykursýki og of háan blóðþrýsting og voru því gefin 4 g af L-karnitíni á dag í 45 vikur.4 Óreglulegur hjartsláttur og óeðlileg hjartastarfsemi hafði minnkað til muna miðað við þá sem ekkert karnitín fengu. Í tvíblindri rannsókn á hjartabilun var notað annað form af karnitíni, propionyl-L-carnitine, eða PC. Þar voru notuð 500 mg af PC á dag í 6 mánuði og leiddi það til 26% aukningu á áreynslugetu.5 Í annarri rannsókn á fólki með sama hjartavandamál voru 1,5 g gefin í 15 daga og jókst æfingaþol um 21% og 45% aukning varð á súrefnisnotkun.6

Rannsóknir sýna að minni líkur eru á vöðvaeymslum við inntöku á L-karnitíni.7 Hins vegar hefur ekki verið sannað að aukin L-karnitínneysla auki vöðvamassa eða árangur í íþróttum.8 Í tvíblindri rannsókn fékk fólk með langvarandi lungnasjúkdóma 2 g af L-karnitín tvisvar á dag í 2-4 vikur eða lyfleysu.9,10 Þeir sem fengu karnítín reyndust í lok tilraunarinnar vera með minni óþægindi frá öndun við áreynslupróf.

Þeir sem eru að taka lyf, sérstaklega flogaveikilyf, ættu að ráðfæra sig við lækni áður en farið er að nota L-karnitín.

Heimildir

 1. Bremer J, Carnitine-metabolism and function. Physiol Rev 63, 1420-1480, 1983.
 2. Bamji MS, Nutritional and health implications of lysine carnitine relationship. Wld Rev Nutr Diet 44, 185-211, 1984.
 3. Borum PR, Carnitine. Ann Rev Nutr 3, 233-259, 1983.
 4. Anand I, Chandrashenkhan Y, De Giuli F, et
  al. Acute and chronic effect of propionyl-L-carnitine on the
  hemodynamics, exercise capacity and hormones of patients with
  congestive heart failure. Cardiovasc Drugs Ther 1998;12:291-9.
 5. Giamberardino MA, et al. Effects of
  prolonged L-carnitine administration on delayed muscle pain and CK
  release after eccentric effort. Int J Sports Med 1996;17:320-4.
 6. Green RE, Levine AM, Gunning MJ. The effect
  of L-carnitine supplementation on lean body mass in male amateur body
  builders. J Am Dietet Assoc 1997;(suppl):A-72.
 7. Murray MT. The many benefits of carnitine. Am J Natural Med 1996;3:6-14 [review].
 8. Columbani P, Wenk C, Kunz I, et al. Effect
  of L-carnitine supplementation on physical performance and energy
  metabolism of endurance-trained athletes: a double blind crossover
  field study. Eur J Appl Physiol 1996;73:434-9.
 9. Dal Negro R, Pomari G, et al. L-carnitine
  and rehabilitative respiratory physiokinesitherapy: metabolic and
  ventilatory response in chronic respiratory insufficiency. Int J Clin
  Pharmacol Ther Toxicol 1986;24:453-6.
 10. Dal Negro R, Turco P, Pomari C, De Conti F.
  Effects of L-carnitine on physical performance in chronic respiratory
  insufficiency. Int J Clin Pharmacol Ther Toxicol 1988;26:269-72.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.