Negulolía

Negulolía er unnin úr plöntu sem heitir á latínu Eugenia caryophyllus. Jurtin inniheldur um 70-85% af virka efninu eugenoli. Þetta efni finnst einnig í kanil, múskati, sassafras og mirru og er lyktin einkennandi fyrir þessar jurtir.

Negulolía og tannpína

Negull er fyrst og fremst notaður sem krydd og er notkun negulolíu til þess að sótthreinsa og róa taugar í tönnum frekar ný til komin. Sýnt hefur verið fram á að olían getur hjálpað til við að róa taugarnar í tönninni ef 1-2 dropar eru settir á tönnina og holdið í kringum hana. Notkun negulolíunnar miðast við að vera deyfilyf á meðan beðið er eftir tíma hjá tannlækni. Almenn regla ætti að vera sú að ef olían virkar ekki neitt (sársauki eykst en minnkar ekki) er væntanlega um alvarlegt vandamál að ræða sem þarfnast tafarlausrar meðferðar. Ekki er óalgengt að tannlæknar í Bandaríkjunum noti fyllingarefni með negulolíu (með viðbættu eugenoli) í bráðabirgðafyllingar. Þær eru látnar vera þangað til taugar í tönninni hafa róast og færst frá yfirborði tannarinnar. Eftirtalin atriði þarf að hafa í huga: Notkun negulolíu er aðeins tímabundin lausn á meðan beðið er eftir tíma hjá tannlækni. Forðast skal að láta olíuna komast í snertingu við slímhúð og augu því eugenol er mjög ertandi fyrir slímhúðina. Barnshafandi konur ættu ekki að nota negulolíu og ekki ætti að nota hana á smábörn nema í samráði við lækni. Að lokum skal geta þess að negulolía getur valdið ofnæmisviðbrögðum hjá mjög viðkvæmum einstaklingum.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.