Ginkgo biloba / Musteristré

Heilinn er miðstöð allrar andlegrar starfsemi. Til að geta sinnt hlutverki sínu er hann háður ótrufluðu blóðstreymi og nægu súrefnisflæði. Vísindamenn hafa fundið efni í laufum musteristrésins sem talin eru örva blóðstreymið til allra fínustu æðanna, meðal annars æðanna á heilasvæðinu og auka þar með súrefnisflæði til heilans. Því er musteristré notað í kínverskum náttúrulækningavísindum til að koma í veg fyrir að starfsemi heilans hraki fyrir aldur fram og til að efla minnið.

Í bókinni Íslenskar lækningajurtir eftir Arnbjörgu L. Jóhannsdóttur segir um notkun Gingko biloba: Þessi jurt er mjög góð við öllum æðasjúkdómum, t.d. æðakölkun, æðaþrengslum og sjúkdómum sem stafa af æðakrampa. Blöðin örva einnig blóðrennsli til heila og má því nota þau gegn öllum sjúkdómum sem stafa af lélegu blóðrennsli til höfuðs, t.d. svima hjá eldra fólki, minnisleysi, þreytu og lakri sjón sem stafar af æðaþrengslum í augnbotnum.

Þeir sem þurfa að hafa sellurnar í lagi hvort heldur í leik eða starfi, geta reynt að byggja sig upp með Gingko biloba. Í kjölfar Gingko biloba hefur verið ráðlagt við skertri starfsgetu, einbeitingarerfiðleikum og minnisleysi. Gingko hefur einnig reynst vel gegn hand- og fótkulda og í sumum tilfellum hefur það jafnvel reynst vel við migreni.

 

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.