Fjallagrös

Fjallagrös eru fléttur, skófir eða þelingar sem byggja á samlífi sveppa og þörunga. Þau vaxa um mest allt Ísland en þau eru hreinust og best sem tínd eru í mestri hæð. Fjallagrös er best að tína í vætu, því þá fer mosinn ekki með við tínsluna. Algengast er að finna fjallagrös uppi á heiðum. Fjallagrös eru mjög einföld og auðmeðfarin til matargerðar líkt og þurrkað grænmeti. Þau hafa mjög mikið geymsluþol í þurrum eldhússkáp.

Fjallagrös hafa gjarnan verið notuð við hósta og hæsi og öðrum óþægindum í öndunarfærum, auk þess sem þau eru talin geta styrkt ónæmiskerfið. Einnig eru þau notuð við lystarleysi og magaóþægindum, en það mun vera beisk lichensýra í grösunum sem virkar á vel á magann.

Í Læknablaðinu 4. tbl. 2000 er fróðleg grein um fjallagrös eftir Hallgerði Gísladóttur. Hún segir í greininni m.a.: „Íslendingar notuðu fjallagrös gríðarmikið á fyrri öldum til að drýgja naumt kornmeti í brauð og grauta. Auk þess voru þau mikill læknisdómur, eins og sést í tilvitnuninni hér að ofan og þannig eru þau notuð enn í dag, hér á landi og víðar. Vorið 1972 var send út frá þjóðháttadeild Þjóðminjasafns spurningaskrá um fjallagrös þar sem meðal annars var spurt um grasaferðir, frágang og flutning á grösum, þurrkun, geymslu, hreinsun og notkun fjallagrasa til matar og lækninga. Áttatíu og sex svör bárust úr öllum landshlutum. Ég athugaði hvernig þeir sem svöruðu, allflestir fæddir nálægt aldamótunum 1900, höfðu vanist því að fjallagrös væru notuð til lækninga. Allir þekktu til þess og langalgengustu kvillarnir sem grösin áttu að lækna voru í öndunarfærum og meltingarvegi. Það var mjög algengt að sterkt seyði af grösum og kandíssykri var til á bæjum, eins konar hóstasaft – eða brjóstsaft, eins og margir nefndu þennan drykk – til að gefa við kvefi, hæsi eða þyngslum fyrir brjósti. Oft drukku þeir sem voru lasnir þetta sjóðandi heitt að kveldi og dúðuðu sig svo niður í rúm á eftir – helst undir þrjár sængur, eins og einn heimildarmanna tók til orða. Dæmi voru um að engifer eða vallhumall væri soðinn með grösunum í þetta lyf. Og stundum var sletta af víni látin út í. Sjálf á ég ekki alltof góðar minningar um að hafa verið sem barn látin drekka í veikindum rótsterkt heitt grasaseyði kryddað með brennsluspíritus. Satt að segja afleitt á bragðið. Um lækningarmáttinn skal ég ekki dæma en enginn véfengdi hann þá.

Heimildarmaður úr Suður-Múlasýslu lýsir þessum lækningum á eftirfarandi hátt:

„…ef fólk hafði vont kvef eða hósta, þótti gott að drekka sterkt grasate, byrgja sig síðan vel niður í rúm, helst svo menn gætu svitnað. Halldór Benediktsson, stórbóndi á Skriðuklaustri í Fljótsdal hafði það fyrir sið er hann var að alast upp (fæddur 1852) að sjóða svokallað grasalím, þ.e. mikið af grösum var soðið í vatni þangað til að það hljóp saman eins og ostur er það kólnaði. Var svo kúfuð teskeið af þessu lími hrærð út í bolla af sjóðheitu vatni og þeir sem voru illa haldnir af kvefi eða hósta látnir drekka það eins heitt og menn þoldu, byrgja sig síðan vel undir yfirsæng og sofna. Þótti þetta gefast vel.“

Annar Sunnmýlingur hafði það eftir móður sinni að hún hefði læknað föður hans af lungnabólgu með því að hella í hann sterku fjallagrasaseyði dag og nótt.

Og þetta er úr Mýrdal: „Grösin voru soðin í vatni og ekki styttri tíma en eina til eina og hálfa klukkustund, voru þau þá að mestu komin í mauk og seyðið orðið rammbeiskt á bragðið. Voru nú grösin síuð og seyðið látið aftur í pottinn, í það látinn sykur, best þótti að nota til þess brúnan „kandís“. Var nú suðan látin koma aftur upp á pottinum, en potturinn síðan tekinn af eldi og seyðið sem nú var búið að ávinna sér nafnið „heiðargrasaseyði“ látið kólna þangað til það var orðið hæfilega heitt að hella því á flöskur. Oft þurfti að hræra í seyðinu meðan það var að kólna, því annars vildi það verða að hlaupi. Ekki þótti rétt að láta tappa í flöskurnar fyrr en seyðið var orðið vel kalt, því annars þótti geta myndast í því miður heppileg gerjun.“

Hornstrendingur segir um grösin: „Þau voru notuð þannig við brjóstveiki og lungnabólgu. Þau voru soðin í 2 klukkustundir, grösin síuð frá grasavatninu, það látið í flöskur og tekið inn 3svar á dag. Við magaveiki voru þau líka notuð. Það meðal var búið þannig til að 4 lítrar af nýmjólk voru látnir í pott ásamt dálítið stórri visk af
fjallagrösum. Þetta var soðið í 4 klukkustundir, en þá var það orðið aðeins 1 og hálfur pottur (eða 11/2 lítri). Þetta var orðið svo gott meðal að það jafnvel læknaði víst 2 sjúklinga sem voru með spænsku veikina 1918, norður í Hælavík. Þeir höfðu áður langan tíma fengið meðul frá þrem læknum, en ekkert af þeim dugði.“

Hornstrendingurinn, sem var 16 ára þegar spænska veikin gekk, segir þarna frá grasameðali sem notað var við magaveiki, mjólk sem var seydd lengi með fjallagrösum. Þannig var afar algengt að nota grösin við
meltingarfærakvillum. Þingeyingur sem lýsir svipaðri tilreiðslu kallar þetta „grasastellu“: „Þegar þetta kólnaði varð það eins og frekar þykkt hlaup og þótti mjög gott við niðurgangi. Vissi ég að minnsta kosti tvö dæmi til þess að börnum með slæman og þrálátan niðurgang batnaði af þessu. Líka var lömbum gefið þetta við sótt, rennt niður í þau með skeið.“

„Ég sem þessar línur rita hef þá persónulegu reynslu af fjallagrösum að þau hafa læknað mig af langvarandi magaveiki frá því ég var barn á fyrsta ári og fram undir tvítugsaldur,“ segir Dalamaður. „Grösin voru soðin í mjólk þar til að hún var orðin rauðseydd, þá var ég látinn borða hana.““

Uppskriftir

Eftirfarandi fjallagrasauppskriftir miða við að fjallagrösin séu hrein af mosa, lyngi og öðru sem fylgt getur  þeim við tínslu. Skolið af þeim með rennandi köldu vatni fyrir notkun.  Grasate (-seyði) 2-4 grös per bolla. Grösin eru sett út í kalt vatn. Suða er látin koma upp og soðið hægt í 5 mín. Drykkurinn verður beiskur
og því er gott að sykra hann með hrásykri eða hunangi að vild.

Fjallagrasakjötsúpa

Þurr fjallagrös eru söxuð niður (ath. ekki of smátt) og sett með þurrkaða grænmetinu í súpuna.

Fjallagrasabrauð

Notist í hvaða brauðuppskrift sem er. Bætið þurrum söxuðum grösunum í mjölið við upphaf deiggerðar.

Fjallagrasasósur/pottréttir

Setjið söxuð fjallagrös út í við upphaf eldunar, eins og þið væruð að nota þurrkaða sveppi eða annað þurrkað grænmeti.

Fjallagrasamjólk

50 g fjallagrös

½ lítri vatn

1 lítri mjólk

½ -1 tsk salt

2-6 msk hrásykur eða hunang

Grösin eru látin í pott með vatninu og soðin í 10 -15 mín eða þar til þau eru orðin meyr. Þá er mjólkinni bætt út í og suðan látin koma upp við mjög lágan hita, hrært í við og við (ef hún ystir má bæta meiri mjólk í). Súpan verður því betri sem hún er soðin lengur. Saltað og sykrað þegar potturinn er tekinn af.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.