Trönuber / e: Cranberry

Trönuber eru skyld bláberjum en vaxa ekki hér á landi. Berin eru notuð til matar, en snemma á öldinni var farið að nota berin gegn blöðru- og nýrnasjúkdómum. Vísindamenn tóku eftir því að þvagið varð súrara eftir að fólk drakk trönuberjasafa og ályktuðu að sú væri ástæðan fyrir því að safinn virkaði á þessa sjúkdóma, sem yfirleitt stafa af bakteríusýkingum. E.coli er algengasta orsök þvagfærasýkinga af ýmsu tagi og þar sem slíkar bakteríur þola ekki súrar aðstæður var þetta talin ástæðan. Nú hefur hinsvegar komið í ljós að aðalástæðan fyrir því að trönuberjasafinn virkar svona vel á t.d. blöðrubólgu er ekki þetta súra umhverfi sem hann skapar, heldur sú staðreynd að í honum eru efni sem heita proanthocyaníð og koma þau í veg fyrir að bakteríurnar geti fest sig við blöðruvegginn. Ef bakteríurnar geta ekki haldið sér í vegginn, flæða þær bara út með þvaginu og valda engum skaða.3, 4

 

Eiginleikar trönuberjasafa hafa verið rannsakaðir, t.d. var gerð tvíblind rannsókn með 153 konum sem voru að meðaltali 78,5 ára. Var þessum hópi kvenna skipt í tvennt og fékk annar helmingur þeirra staðlaðan trönuberjadrykk en hinn fékk tilbúinn safa sem leit eins út og bragðaðist eins en innihélt ekki trönuber. Í báðum drykkjunum var jafn mikið af C-vítamíni til þess að útiloka áhrif þess á niðurstöðurnar. Í ljós kom að bakteríum og hvítum blóðkornum fækkaði um 58% í þvagi þeirra sem drukku trönuberjasafann. Einnig hafa rannsóknir leitt í ljós að konur sem fá síendurtekna blöðrubólgu, hafa oft þannig þvagblöðru að það er auðvelt fyrir bakteríurnar að festa sig við blöðruvegginn. Trönuberjasafinn hefur því áhrif á rót vandans.

 

Ráðlagt er að taka inn 300 til 400 mg af þurrkuðu þykkni tvisvar á dag. Engin auka- eða eituráhrif hafa komið í ljós af neyslu trönuberja, hvort heldur er hjá fullorðnum, börnum, ófrískum konum eða konum með börn á brjósti.2 Konur sem drukku 300 ml af trönuberjasafa daglega í sex mánuði fengu 50% sjaldnar blöðrubólgu en þær sem ekki fengu safa, sem þakka má því að trönuberjasafinn hindrar bakteríurnar að setjast á veggi þvagblöðrunnar og þvagrásarinnar.1

 

Heimildir:

  1. Lazarides, Linda: The Nutritional Health Bible. Thorsons, 1997
  2. www.mothernature.com
  3. www.consumerlab.com
  4. www.vitaminworld.com

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.