Fitusýrur

Það er mikill misskilningur að forðast eigi alla fitu í mataræðinu, en stundum vill gleymast að fita eru margs konar og að við þurfum fitu til að viðhalda heilbrigðri líkamsstarfssemi.

Við þurfum lífsnauðsynlegar fitusýrur, omega-3 og 6, m.a. fyrir eðlilega starfsemi hjarta og æðakerfis, augna, heila, taugakerfis og hormóna. Lífsnauðsynlegar fitusýrur eru þær sem við getum ekki framleitt sjálf heldur þurfum að fá úr fæðunni.

Algengt er að fólk borði ekki næga fitu eða a.m.k. ekki næga góða fitu. Þetta stafar helst af einhæfu mataræði eða áherslu á unna matvöru á kostnað ferskrar og fjölbreyttrar fæðu.

Jafnvægi þarf að ríkja milli neyslu omega-3 og omega-6 fitusýra en mataræði í hinum vestræna heimi inniheldur oft mun meira af omega-6 (jurtaolíum) en omega-3. Það getur valdið vandræðum í líkamanum þar sem of mikið af omega-6 getur ýtt undir bólgur í líkamanum og aukið líkur á t.d. hjarta og æðasjúkdómum.

Omega-3 fitusýrur skiptast í EPA (eikósapentanósýru) og DHA (dokósahexanó-sýru). Það er löngu þekkt að EPA gegnir mikilvægu hlutverki í styrkingu á kransæðakerfinu, bæði við að halda kransæðunum hreinum og draga úr líkum á hjartasjúkdómum. Hins vegar er styttra síðan að ágæti DHA uppgötvaðist í tengslum við heilastarfsemi og sjón.1 Stór hluti heila og augna er gerður úr fitusýrum, að stærstum hluta DHA og AA (arakídónsýru) en þá síðarnefndu vinnur líkaminn úr omega-6. Þessar fitusýrur sjá til þess að taugafrumuhimnur starfi eðlilega og að boðin milli þeirra í heilanum fari eðlilega fram. Þær hafa því áhrif á minni, einbeitingu, tal og hreyfiþroska. Rannsóknir hafa sýnt fram á skort á ákveðnum fitusýrum í ofvirkum börnum.2,3

Heimildir:

  1. Farquharson J, Cherry EC, Abbasi KA, Patrick WJA. Effect of diet on the fatty acid composition of the major phospholipids in infant cerebral cortex. Archives of Disease in Childhood 72: 198-203. 1996.
  2. Stevens L et al. Essential Fatty Acid metabolism in boys with Attention Deficit Hyperactivity Disorder. Amer. Journal of Clinical Nutrition 62: 761-8. 1995.
  3. Stevens L et al. Omega-3 Fatty Acids in boys with behaviour, learning and health problems. Physiology & Behaviour 59: 915-20. 1996.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.