Miso súpa sem yljar og nærir

Það er bara eitthvað við miso súpu! Hún hefur það allt: sætt, salt, súrt, beiskt og umami. Kitlar alla bragðlaukana og ilmar eins og ekkert annað.

Miso er dálítið magnað fyrirbæri. Uppruni þess er í Japan þar sem miso er mikið notað í matargerð. Miso er búið til úr gerjuðum sojabaunum. Þær eru gerjaðar í langan tíma við sérstakar aðstæður sem skila sér í þessu einstaka bragði sem er engu líkt. Í þessa súpu er notað shiro miso sem er ljóst miso. Það er tiltölulega milt á bragðið, minna gerjað en dökkt miso. Bragðið er djúpt og pínulítið sætt. Smellpassar í þessa matarmiklu súpu sem er fullkomin á köldum dögum.

Innihald:

 • 150 gr laukur
 • 250 gr sveppir
 • 2 L vatn
 • 6 msk shiro miso
 • 3 msk tamari sósa frá Sanchi
 • 3 msk engifersafi
 • 2 hvítlauksrif – söxuð fínt eða rifin
 • 2 tsk harissamauk frá Biona
 • 100 gr Pak choi kál
 • 1 tsk gæðasalt

Aðferð:

 • Byrjaðu á að svita laukinn í potti með örlitlu vatni
 • Bættu svo sveppum, vatni, tamari sósu, engifersafa, hvítlauk, harissamauki og salti saman við
 • Láttu suðuna koma upp en lækkaðu svo undir og leyfðu súpunni að malla ljúflega
 • Taktu nú eina ausu af súpunni, settu í skál og hrærðu misomaukið saman við
 • Skelltu nú vatninu með misomaukinu aftur út í súpuna og láttu hana malla þangað til sveppirnir eru vel eldaðir
 • Smakkaðu súpuna til að eigin smekk, getur t.d. bætt meira salti, harissamauki eða engifer. Getur líka verið gott að kreista smá sítrónu út í í lokin.
 • Pak choi fer svo útí rétt í lokin, rétt áður en súpan er borin fram svo það rétt nái að hitna í gegn en sé stökkt undir tönn.

Svo er mjög gott að sjóða núðlur og setja út í súpuna í lokin, gerir hana enn matarmeiri.

Einnig er hægt að toppa hana með t.d. þara, sesamfræjum, söxuðum vorlauk eða kóríander.

Uppskrift og myndir eru sköpun og eign Önnu Guðnýjar Torfadóttur og má ekki afrita eða birta opinberlega nema með hennar leyfi.