Mergjaður morgungrautur

Hún Sunna Ben sem bloggar girnilegar vegan uppskriftir á síðunni sinni, Reykjavegan, er ókrýnd drotting hafragrautarins 🙂

Hún er sammála okkur í því að hafragrautur þarf ekki að vera leiðinlegur. Hann má krydda og upphefja á ótal vegu.

Gefum Sunnu orðið:

Ég hef aldrei verið týpan sem getur bara vippað soðnu vatni á hafra og hámað í mig, bragðlaukarnir gera meiri kröfur en svo. Þess vegna hef ég prufað mig áfram með fjöldan allan af útfærslum af allskonar morgungrautum og langaði að deila núverandi uppáhalds grautnum með þeim sem eru sammála mér um að hafrarnir einir og sér séu ekki nógu mikið stuð.

Innihald (hlutföll fara eftir eftir því hversu stóran og þykkan skammt maður vill gera, ég er bara að veita braðgbætandi tillögur):
– Hafrar (ég nota Sólgæti, fást í stórum pokum á góðu verði td. í Heilsuhúsinu og Nettó)
– Lífrænar rúsínur (ekki sultönur, bragðsins vegna))
– 1 lítið lífrænt epli (þessi sætu úr pokunum, nomm!) en meira ef skammturinn er fyrir fleiri en tvo
– Kanill (ég nota All good hatty head blönduna frá Sonnentor, hún inniheldur kanil og fleiri krydd í svipuðum dúr, er virkilega góð og fæst í Heilsuhusinu)
– Væn skófla af uppáhalds hnetusmjörinu þann daginn, þessa dagana er mitt Whole Earth hnetusmjör með sólblómafræjum, hörfræjum og graskersfræjum, það fæst í Heilsuhúsinu og Nettó til dæmis og er alveg brjálæðislega gott (ég hef prufað þetta með Möndlusmjöri, Crunchy Whole Earth hnetusmjöri og mörgu fleiru – allt ýkt gott)
– Plöntumjólk að eigin vali til að kæla og fyrir almennan yndisauka
– Eitthvað gott til að setja á toppinn ef vill, í dag setti ég ristuð sólblómafræ ofan á og það var mjööög gott

Aðferð: 
Þegar hafrarnir eru komnir út í soðna vatnið leyfi ég þeim að mýkjast vel áður en ég slekk undir og bæti kryddi, rúsínum og eplum út í og hræri vel. Þetta þarf ekki langan tíma til að mýkjast, allt mjúkt fyrir.

Grauturinn er svo einfaldur að það er hægt að vippa honum upp á morgnanna án þess að þurfa að vakna ýkt snemma til að byrja að undirbúa morgunveislu, en samt er þetta svo bragðmikið og nærandi að mér finnst alltaf hálf ótrúlegt hvað þetta er lítið mál.

Ég mæli með þessum fyrir þá sem vilja borða skemmtilegan mat allan daginn, líka á morgnanna.

 

Uppskrift og mynd er í eigu Sunnu Ben og má ekki birta opinberlega nema með hennar leyfi.